Fráveitukerfi á Siglufirði

Málsnúmer 2408040

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 247. fundur - 26.08.2024

Til fundarins mættu Óðinn Freyr Rögnvaldsson, starfandi bæjarverkstjóri og Jóhann K. Jóhannsson slökkviliðsstjóri. Óðinn og Jóhann fóru yfir þá atburði sem áttu sér stað um liðna helgi.

Til máls tóku:
S. Guðrún Hauksdóttir
Guðjón M. Ólafsson
Arnar Þór Stefánsson
Helgi Jóhannsson
Tómas Atli Einarsson
Þorgeir Bjarnason
Sæbjörg Ágústsdóttir
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarstjórn vill koma kærum þökkum til allra þeirra viðbragðsaðila sem unnu að aðgerðum þessa daga. Ljóst er að ef þeirra nyti ekki við hefði ástandið orðið mun verra. Einnig fá íbúar kærar þakkir fyrir dugnað og þolinmæði á meðan unnið var úr aðstæðum.

Bæjarstjórn felur slökkviliðsstjóra og starfandi verkstjóra þjónustumiðstöðvar í samvinnu við deildarstjóra tæknideildar að skila greinargerð um atburði síðastliðinnar helgar ásamt tillögum að bráðaaðgerðum og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.
Bæjarstjórn felur deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar einnig að skila greinargerð fyrir næsta fund bæjarráðs um hver tryggingaleg staða sveitarfélagsins er í ljósi atburðanna.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 841. fundur - 30.08.2024

Á 247. fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar var slökkviliðsstjóra og starfandi verkstjóra Þjónustumiðstöðvar í samvinnu við deildarstjóra tæknideildar falið að skila greinargerð um atburði síðastliðinnar helgar ásamt tillögum að bráðaaðgerðum og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.
Bæjarstjórn fól einnig deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar að skila greinargerð fyrir næsta fund bæjarráðs um hver tryggingaleg staða sveitarfélagsins er í ljósi atburðanna.
Með fundarboði bæjarráðs fylgdi samantekt slökkviliðsstjóra og starfandi bæjarverkstjóra ásamt viðaukabeiðni.
Til fundarins mætti Guðmundur M. Ásgrímsson, tryggingaráðgjafi hjá Consello ehf.
Samþykkt
Bæjarráð þakkar Jóhanni K. Jóhannssyni slökkviliðsstjóra og Óðni Frey Rögnvaldssyni starfandi bæjarverkstjóra fyrir samantektina og tillögur úrbótum.
Bæjarráð felur tæknideild að ráðast þegar í stað í eftirfarandi:
· Hreinsa farveg Hvanneyrarár og laga árfarveginn.
· Gera við lagnir og brunna í Hvanneyrarlind
· Setja upp vöktunarbúnað á allar fráveitudælur sbr. minnisblað.
· Leggja fyrir bæjarráð tillögu að kaupum ásamt verði fyrir varadælubúnaði og varaafli fyrir alla dælubrunna.
· Gera tillögu að úrbótum á fráveitu undir Hafnargötu við Snorragötu 2, 6, 10, 12, 14 og 16. Vesturveggur á Snorragötu 6 er illa farinn. Veita þarf vatni sem kemur undan bakkanum greiða leið í sjó fram.
· Mynda allar lagnir á Eyrinni til þess að átta sig á ástandi lagna.
· Að hefja samtal við Ofanflóðasjóð um endurbætur á frágangi ofanvatnslausna við snjóflóðagarða svo ofanvatn frá varnarmannvirkjum endi ekki í fráveitukerfi sveitarfélagsins.
· Að koma læk við Hólaveg 15-17 út úr fráveitukerfinu.
· Að koma læk við á horni Suðurgötu og Hávegar úr fráveitukerfinu.
· Halda áfram með fyrirbyggjandi aðgerðir, sbr. hreinsun á fráveitukerfi sem nú er í fullum gangi.

Bæjarráð samþykkir að útbúin verði viðauki að fjárhæð 30.000.000,- og tekið verði af handbæru fé til fjármögnunar viðaukans. Viðaukinn er til þess að standa straum af búnaðarkaupum að tillögu slökkviliðsstjóra og bæjarverkstjóra.

Bæjarstjóra falið að óska eftir tilboðum í úttekt á fráveitukerfi Fjallabyggðar frá óháðum aðilum með reynslu af sambærilegum verkefnum. Bæjarráð óskar eftir upplýsingum um hvernig auka má afkastagetu núverandi fráveitukerfis svo koma megi í veg fyrir að atburðir föstudagsins 23.ágúst 2024 endurtaki sig ekki. Innifalið í þeirri vinnu er einnig óskað eftir að til sé aðgerðaráætlun til að bregðast við óvæntum atburðum, s.s. bilunum, stíflum og öðru sem gerir það að verkum að kerfið virkar ekki eins og til er ætlast

Bæjarráð þakkar fulltrúa Consello, Guðmundi M. Ásgrímssyni fyrir komuna á fundinn og fyrir yfirferð á tryggingalegri stöðu sveitarfélagsins. Deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála falið að vinna málið áfram í samvinnu við Consello í samræmi við umræður á fundinum.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 842. fundur - 06.09.2024

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi minnisblað Veðurstofu Íslands vegna Vatnsveðurs á Tröllaskaga, dagana 22.-25. ágúst 2024. Einnig minnisblað bæjarstjóra og slökkviliðsstjóra vegna stöðu verkefna í kjölfar hamfararigningar á Siglufirði.
Á 841. fundi bæjarráðs var samþykkt að útbúa viðauka við fjárhagsáætlun að fjárhæð 30.000.000,- og tekið verði af handbæru fé til fjármögnunar viðaukans. Viðaukinn er til þess að standa straum af búnaðarkaupum að tillögu slökkviliðsstjóra og bæjarverkstjóra. Útfærður viðauki nr. 3 við fjárhagsáætlun 2024 lagður fram til afgreiðslu.
Bæjarráð þakkar bæjarstjóra og slökkviliðsstjóra fyrir minnisblaðið um framvindu þeirra verkefna sem ákveðið var að ráðast í á síðasta fundi bæjarráðs. Bæjarráð óskar eftir uppfærslu á næsta fundi sínum um framvindu mála sbr. umræður á fundinum.

Bæjarráð samþykkir viðauka nr. 3 að fjárhæð 30.000.000,- og verður honum mætt með lækkun á handbæru fé.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 843. fundur - 13.09.2024

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi vinnuskjal um stöðu verkefna vegna rigningaveðurs 23.-24. ágúst sl. og vinnu við fráveitukerfi á Siglufirði. Einnig fylgdi minnisblað bæjarstjóra um tilboð í heildarúttekt á fráveitukerfi.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar slökkviliðsstjóra og bæjarstjóra fyrir uppfært minnisblað um stöðu verkefna.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til viðræðna við Verkís vegna vinnu við úttekt á fráveitukerfi Fjallabyggðar. Bæjarráð telur mikilvægt að niðurstaða liggi fyrir ekki síðar en 21. október næstkomandi.
Hvað varðar fyrirhugaðan fund með íbúum og fyrirtækjum sem urðu fyrir áhrifum af rigningu og flóðum þá verður hann haldinn miðvikudaginn 18. september næstkomandi og hefur hann verið auglýstur á heimasíðu sveitarfélagsins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 844. fundur - 20.09.2024

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi uppfært vinnuskjal um stöðu verkefna vegna rigningaveðurs 23.-24. ágúst sl. og vinnu við fráveitukerfi á Siglufirði.
Lagt fram til kynningar
Bæjarráð þakkar bæjarstjóra og slökkviliðsstjóra fyrir uppfært minnisblað.
Búið er að semja við Verkís verkfræðistofu um úttekt á fráveitukerfi Fjallabyggðar og er sú vinna hafin. Áætlað að úttektinni verði lokið í lok október.
Boðað var til fundar með húseigendum á Siglufirði sem urðu fyrir tjóni í kjölfar
rigningaveðursins. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Fjallabyggðar miðvikudaginn 18. september síðastliðinn.
Milli 40-50 manns sóttu fundinn, en á honum var farið yfir atburðinn sjálfan og þær aðgerðir sem farið
hefur verið í í kjölfarið. Þá fór fulltrúi frá Consello tryggingaráðgjöf yfir tryggingamálin. Sjóvá, Vörður, TM og Vís eru öll
farin að greiða þeim aðilum sem urðu fyrir tjóni og eru með húseigendatryggingu.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 845. fundur - 30.09.2024

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi minnisblað bæjarstjóra og tæknideildar um stöðu verkefna vegna endurbóta á fráveitukerfi á Siglufirði.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar bæjarstjóra og tæknideild fyrir uppfært minnisblað. Bæjarstjóra falið að óska eftir að fulltrúar Ofanflóðasjóðs mæti á fund bæjarráðs til þess að fara yfir sameiginleg verkefni sveitarfélagsins og sjóðsins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 846. fundur - 07.10.2024

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi uppfært minnisblað bæjarstjóra og tæknideildar um framvindu mála og stöðu verkefna í kjölfar rigningaveðurs í ágúst.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar bæjarstjóra og slökkviliðsstjóra fyrir uppfært minnisblað. Bæjarráð óskar eftir að greining varaaflsþarfar fyrir varadælur verði eitt af forgangatriðum úttektar á fráveitu Fjallbyggðar. Tæknideild er einnig falið að taka saman skrá yfir tiltækt varaafl í sveitarfélaginu sem hægt væri að grípa til í neyð.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 847. fundur - 14.10.2024

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi samantekt Verkvals ehf. vegna vinnu í Fjallabyggð í kjölfar mikils vatnsveðurs þann 23.08.2024.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Lagt fram til kynningar. Bæjarráð vísar samantektinni til tæknideildar til úrvinnslu.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 850. fundur - 01.11.2024

Til fundarins mætti Kristín Martha Hákonardóttir, sérfræðingur hjá Ofanflóðasjóði.
Lagt fram til kynningar
Bæjarráð þakkar fulltrúa Ofanflóðasjóðs fyrir komuna á fundinn og yfirferð á stöðu erindis Fjallabyggðar til stofnunarinnar. Stofnunin gerir ráð fyrir að svara erindi sveitarfélagsins þegar úttekt stofnunarinnar og sérfræðinga hennar lýkur, sem ráðgert er verði fyrir lok ársins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 855. fundur - 06.12.2024

Með fundarboði bæjarráðs fylgdu minnisblöð og samantektir Náttúruhamfaratrygginga Íslands vegna tjónstilkynningar Fjallabyggðar til NTÍ.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð harmar mjög niðurstöðu Náttúruhamfaratrygginga Íslands þar sem bótaskylda er ekki viðurkennd sem getur vart talist annað en óskiljanleg niðurstaða í ljósi þeirra aðstæðna sem voru uppi á Siglufirði 23.-24. ágúst. Bæjarstjóra falið að koma andmælum sveitarfélagsins á framfæri sem og kanna réttarstöðu þess.