Frá 1. janúar 2020 þurfa íbúar og rekstraraðilar í Fjallabyggð klippikort til að komast inn á gámasvæði sveitarfélagsins. Íbúar og rekstraraðilar geta sótt klippikortin á skrifstofu sveitarfélagsins Gránugötu 24 Siglufirði og Bókasafni Fjallabyggðar á Ólafsvegi 4, Ólafsfirði. Íbúar og sumarhúsaeigendur fá afhent eitt kort á ári sér að kostnaðarlausu en rekstraraðilar þurfa að greiða 33.660 krónur fyrir kortið.
Ekkert þarf að greiða fyrir ógjaldskyldan úrgang en klippt verður fyrir allan gjaldskyldan úrgang. Hvert klipp er fyrir 0,25 m³ sem samsvarar 240 l heimilistunnu. Ef kort klárast er hægt að kaupa aukakort á kr. 13.840. Rekstraraðilar geta keypt klippikort í þjónustuveri Ráðhússins á Siglufirði á kr. 33.660 sem inniheldur 16 klipp fyrir 0,25 m³ eða samtals 4 m³.
Ekki er tekið gjald fyrir móttöku á flokkuðum úrgangi sem ber úrvinnslugjald frá íbúðum og sumarhúsum, þar má nefna: pappaumbúðir, plastumbúðir, hjólbarða, ýmis spilliefni og úrelt ökutæki.
Að öllu jöfnu ætti hvert kort að duga út árið. En ef kort klárast er hægt að kaupa aukakort á skrifstofum sveitarfélagsins. Upplýsingar um verð er að finna í gjaldskrá sorphirðu sem gefin er út á hverju ári.
Áríðandi er að skoða vel hvaða flokkar eru gjaldfrjálsir og hverjir gjaldskyldir. Sé sorpið flokkað til samræmis við það endist kortið lengur. Góð flokkun miðar að því að sem mest fari í endurvinnslu og eins lítið og mögulegt er til förgunar. Með því að flokka vel stuðlum við að umhverfisvernd og göngum í áttina að sjálfbærara samfélagi.
Tilgangur:
Gera flokkun markvissari og að kostnaður sé greiddur af þeim sem til úrgangsins stofnar.
Góð ráð:
Best er að flokka farminn áður en komið er á gámasvæðið. Ef úrgangur kemur blandaður saman (gjaldskylt og ógjaldskylt) þarf að greiða fyrir allan úrganginn.
Munum alltaf eftir kortinu:
Klippikortið veitir aðgang að svæðinu og þarf því alltaf að taka með, þó að eingöngu sé um endurvinnanlegan úrgang að ræða.
Bæklingur til lestrar og útprentunar (pdf)