Vegalengd: 9-10 km
Leið: Sýrdalur - Selskál - Hvanndalir.
Mesta hæð: 650 m Göngutími 6 - 7 klst.
Hrikabjörgin vestan Ólafsfjarðar eru mjög tilkomumikil að sjá þegar farið er veginn um Ólafsfjarðarmúla.
Gengið er frá Kleifum við Ólafsfjörð, farið eftir sjávarbökkum og kindaslóðum fylgt í hlíðum Arnfinnsfjalls (853 m). Ólafsfirðingar nefna Arnfinnsfjall oft Finnurinn. Víða eru gil á leiðinni sem eru þó vel greiðfær. Gengið er um land sem er vel gróið af lyngi og fjalldrapa og í sumum giljum er hann í verulegu magni, lágvaxinn en gróskumikill og hefur vaxið talsvert eftir að sauðfé fækkaði. Eftir rúmlega klukkutíma göngu er komið í mynni Fossdals (66°07,373-18°37,294), þar er viti á Sauðhólsmel.
Fossdalur er lítill dalur umlukinn háum hamrabeltum á þrjá vegu og gnæfir Hvanndalsbjarg (755 m) þar yfir. Eftir dalnum rennur á og steypist fram af bjargbrúninni í sjó fram og ber dalurinn nafn af þessum fossi, sem sjómenn nota gjarnan sem mið úti fyrir Ólafsfirði.
Göngubrú er á ánni enda er hún oft vatnsmikil vegna snjóþunga sem er í dalnum á vetrum. Við brúnna má finna gestabók.
Dalurinn er hömrum girtur og mætti halda að hann sé ógengur en svo er ekki því ganga má til Hvanndala og er um tvær leiðir að ræða. Önnur kölluð Stuttleið og er þá gengið á brúnum Hvanndalabjargs en Langaleið er farin um Vestaravik inn um dalbotn. Stuttleið er mjög erfið og varasöm og beinlínis hættuleg ef ekki er farið með gát.
Ef Stuttleið er valin er gengið upp á Hvanndalabjargið og farið upp frá brúnni yfir ána og stefnan tekin upp bratta hlíðina. Hækkunin er 500 m, leiðin er ekki ýkja erfið en gott er að halda sig vel frá bjargbrúninni. Yfir hábrún Bjargsins gengur hlíðarflái (nefndur Flagið) vestur yfir á brún Sýrdals. Upptök Flaggjárinnar er hér en hún nær 600 m niður í sjó og er best að halda sig frá henni. Aðeins ein leið er fær um klettaskoru af hábjarginu niður í Sýrdal. Upphaf hennar (N66°8,021-V18°38,402) að ofanverðu er mjög framarlega á Sýrdalsbrún, þ.e. nálægt brún hábjargsins yfir sjó, stöng er þar sem farið er niður. Skoran er mjög brött fyrstu 100 metrana. Gjáin nær um 200 m í gegnum hamrahlíðina og stefnir ofurlítið inn á við. Niður gjánna verður að fara með gætni. Þegar niður í Sýrdalinn er komið þarf að velja ysta skarðið í Hádegisfjallinu. Aðeins er fært á einum stað, um smáskarð í brúninni (N66°8,538-V18°39,013). Ekki er auðþekkt að finna það rétta neðan frá séð. Í skarðinu er manngerð grjóthleðsla, snarbrött skriða er úr skaðinu niður í Seldal. Úr Selskál opnast svo megindalur Hvanndala. Langaleið liggur inn í botn Fossdals og þaðan er gengið upp hlíðina að skarði ofan í Austaravik og þaðan liggur leiðin í Hvanndali. Í Hvanndölum er staður sem heitir Ódáinsakur. Þar voru talin vaxa lífgrös og sá sem þeirra neytti gat ekki dáið. Stóð áður bær hjá Ódáinsakri en hann lagðist í auðn og var fluttur á annan stað vegna þess að menn töldu seig ekki geta búið við slík örlög.