Ólafsfjörður frá landnámi til 1833

Í Landnámu er getið um tvo landnámsmenn Ólafsfjarðar. Í kring um árið 900 munu bræður tveir þeir Ólafur bekkur og Héðinn synir Karls úr Bjarkey af Hálogalandi hafa siglt til Íslands og námu þeir sinn hvorn fjörðinn hlið við hlið. Með þeim í för var Úlfur sem nam Úlfsdali vestan Siglufjarðar. Héðinn nam Héðinsfjörð vestan Ólafsfjarðar og Ólafur bekkur nam Ólafsfjörð að vestan og settist að á Kvíabekk. Mun Kvíabekkur síðan hafa verið þungamiðja sveitarinnar og höfuðból um margar aldir. Synir Ólafs voru þeir Steinmóður, Grímólfur og Arnoddur.

 

Gunnólfur hinn gamli sonur Þorbjarnar þjóta úr Sogni nam Ólafsfjörð að austan upp til Reykjaár og út í Vámúla. Hann bjó á Gunnólfsá að Kleifum, sem er vestan megin fjarðarins.

 

Lítið er sagt frá köppum þessum, en líklegt má telja að fylgdarmenn þeirra og afkomendur hafi byggt Ólafsfjörð með þeim. Þó er þess getið að Ólafur bekkur og Þormóður rammi sem nam Siglufjörð hafi deilt um Hvanndali og varð þar 16 manna bani áður en þeir sættust á að þeir skyldu hafa sitt sumarið hvor. Ekki er vitað frekar um þeirra hagi, en ekki er ólíklegt að ætla að Ólafur bekkur hafi verið heygður í einhverjum þeirra hóla sem eru í nágrenni Kvíabekkjar, og Gunnólfur gamli líklega sendur logandi á haf út í skipi sínu að honum látnum.

 

Saga staðarins er mótuð af fjallahringnum sem umvefur hann og návígi við sjóinn. Erfið búsetuskilyrði hafa sett mark sitt á íbúaþróun og flutninga fólks til og frá staðnum. Þó er ljóst að Ólafsfjörður hefur haft upp á margt að bjóða sem síður var annars staðar. Gjöfult vatn af fiski bæði silungi og svo ýmsum sjávarfiskum. Þá er mjög stutt á fengsæl fiskimið. Þetta meðal annars hefur stuðlað að því að hér hefur haldist byggð til okkar tíma. Enda segir svo frá að þegar Lárentíus Kálfsson Hólabiskup stofnsetti árið 1326 prestaspítala eða elliheimili fyrir gamla presta að Kvíabekk í Ólafsfirði réði þar mestu um hve fiskmeti var þar auðfáanlegt og er þar líklega átt bæði við til vatns og sjávar. Bendir það til þess að fiskveiðar hafi skipað stærri sess á Ólafsfirði en annars staðar á Norðurlandi, og líklega verið svo fram eftir öldum. Elstu heimildir um fiskveiðar Ólafsfirðinga eru frá 1187 og einnig má benda á máldaga Kvíabekkjarkirkju frá 15. öld, þar sem fram kemur að kirkjan fær lýsis og fisktoll af bæjum.

 

Um 1700 er líklegt að skipastóll Ólafsfirðinga hafi verið mikill sbr. að 11 bátar eyðilögðust þar í miklu brimi. Ólafsfjörður hefur því löngum verið mikil þorskveiðistöð þrátt fyrir erfið hafnarskilyrði. Milli 1770-80 voru hlutir hér hærri en víðast við Eyjafjörð og skipastóll stærri en víðast hvar á Norðurlandi fyrr á öldum.

 

Þegar hákarlatíminn byrjar um miðja 18. öld og skip fara að stækka fer hafnar- og lendingaraðstaða að skerða möguleika Ólafsfirðinga á við aðra staði svo sem Siglufjörð þar sem lífhöfn er frá náttúrunnar hendi. Þá réru Ólafsfirðingar gjarnan á stærri skipum sínum (hákarlaskipum) frá Siglufirði, en þeim minni (þorskveiðibátum) frá Ólafsfirði.

 

Ólafsfirðingar virðast hafa skorið sig svolítið úr hvað sjósókn snerti hér áður fyrr því þeir réru þótt sláttur stæði sem hæst, meðan aðrir drógu úr á þeim tíma. Þetta er til marks um það hve fiskur var snar þáttur í lífsbjörginni hér á Ólafsfirði og hefur sjálfsagt verið alla tíð frá landnámi. Það voru bændur sem áttu bátana og réru á sjó til búdrýginda og var svo allt fram undir síðustu aldamót er draga fór til þorpsmyndunar í Ólafsfjarðarhorni.