Þjónusta við fötluð börn og fjölskyldur þeirra

Þjónusta félagsþjónustu Fjallabyggðar við fötluð börn og fjölskyldur þeirra byggir á lögum og reglugerð um málefni fatlaðra og viðurkenndri stefnu stjórnvalda um þjónustu samkvæmt snemmtækri íhlutun og fjölskyldumiðaðri þjónustu þar sem þjónusta beinist að barni, fjölskyldu þess og umhverfi.

Sérhæfð ráðgjöf

Sérhæfð ráðgjöf miðar að því að styðja foreldra fatlaðra barna í uppeldishlutverki sínu með upplýsingum og leiðbeiningum um félagsleg réttindi og þjónustu, uppeldi, íhlutunarleiðir og þjálfun á heimili, íþrótta- og tómstundaþátttöku, skóla, atvinnuþátttöku, sumarúrræði o.fl. Ráðgjöf felur einnig í sér fræðslu til aðstandenda, tengslastofnana og samstarfsfólks um fatlanir, íhlutunarleiðir og aðstæður barna eða ungmenna og fjölskyldna þeirra auk samstarfs við sérfræðiþjónustu og þjónustustofnanir.

Þjónustuteymi

Þjónustuteymi er teymi sem myndað er um fatlað barn og fjölskyldu þess samkvæmt áherslum greiningaraðila. Í teyminu eru foreldrar og fulltrúar þeirra aðila sem koma að þjónustu við barnið og fjölskylduna. Aðilar fylgja sameiginlegum markmiðum og miðla upplýsingum sín á milli. Þjónustuteymið ákveður hversu oft það hittist en ráðlegt er að það sé ekki sjaldnar en einu sinni til tvisvar á ári. Endurskoða þarf reglulega hverjir eru aðilar að þjónustuteymi og hvert hlutverk þeirra er. Ráðgjafi félagsþjónustu er þátttakandi í þjónustuteymi barns og er foreldrunum til stuðnings í teymisstarfi.

Umönnunargreiðslur

Umönnunargreiðslur eru fjárhagsleg aðstoð til foreldra fatlaðra og langveikra barna. Um ræðir félagslega aðstoð sem veitt er þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunnar er orðinn umtalsverður og tilfinnanlegur fyrir foreldra. Foreldrar sækja um umönnunargreiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins með því að leggja fram umsókn ásamt læknisvottorði og öðrum fylgigögnum. Umönnunargreiðslur eru samþykktar til ákveðins tíma og endurmetnar með reglulegu millibili. Ráðgjafi félagsþjónustu Fjallabyggðar gerir tillögu um umönnunargreiðslur til Tryggingastofnunar. 
Beiðni um tillögu getur borist ráðgjafa félagsþjónustu með tvennum hætti.
1. Foreldrar senda umsókn, læknisvottorð og fylgigögn til Tryggingastofnunar sem sendir svo beiðni um tillögu að umönnunarmati til ráðgjafa ásamt læknisvottorði og afriti af umsókn foreldra.
2. Foreldri kemur og fyllir út umsókn um umönnunargreiðslur hjá ráðgjafa félagsþjónustu, sem hefur þegar fengið læknisvottorð og niðurstöður athugana frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins,  BUGL eða öðrum viðurkenndum greiningaraðila. 

Reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. nr. 504/1997

Liðveisla

Liðveisla er persónulegur stuðningur sem miðar að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis með aðstoð við að njóta tómstunda og menningar. Liðveisla er veitt börnum 6 ára og eldri. Starfsmenn félagsþjónustu leggja mat á þjónustuþörf og ákvarða um þjónustu innan ramma gildandi reglna, sem félagsmálanefnd hefur staðfest. Ákvarðanir um þjónustu og fyrirkomulag eru settar í þjónustusamning sem er undirritaður af þjónustuþega og liðveitanda.

Umsókn um liðveislu er að finna á Rafræn Fjallabyggð

Reglur um félagslega liðveislu á vegum félagsmálanefndar Fjallabyggðar

Stuðningsfjölskyldur

Stuðningsfjölskyldur er þjónusta sem fjölskyldur fatlaðra barna eiga kost á eftir því sem þörf krefur. Verkefni stuðningsfjölskyldu felst í því að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess og auka möguleika barnsins á félagslegri þátttöku. Slíkri umsjá fylgir ekki krafa um sérstaka þjálfun eða hæfingu umfram þá daglegu þjálfun sem felst í almennum kröfum er lúta að barnauppeldi. Dvöl fatlaðs einstaklings hjá stuðningsfjölskyldu er bundin í samningi og miðast við ákveðið tímabil. Þjónusta stuðningsfjölskyldu miðast öllu jöfnu við sólarhringsþjónustu. Þjónustan er í boði fyrir fjölskyldur fatlaðra barna í umönnunarflokki 1, 2 og 3 og fyrir 18 ára og eldri hafi samningur verið gerður þar að lútandi. Sótt er um þjónustuna hjá ráðgjafa félagsþjónustu. Teymi fagfólks metur þjónustuþörf og ákvarðar um fyrirkomulag þjónustunnar samkvæmt reglum þar um.

Umsókn um stuðningsfjölskyldu

Reglur byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra við afgreiðslu umsóknar um stuðningsfjölskyldur, samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 með síðari breytingum

Skammtímavistun

Skammtímavistun er ætlað að létta álagi af fjölskyldum fatlaðra barna. Veitt er tímabundin dvöl til hvíldar og / eða vegna erfiðra heimilisaðstæðna, svo sem vegna veikinda eða annars álags. Dvöl í skammtímavistun er einnig ætlað að veita börnum tilbreytingu eða vera til undirbúnings flutnings úr foreldrahúsum. Dvöl í skammtímavistun getur bæði verið reglubundin samkvæmt fyrir fram gerðri áætlun eða samkvæmt ósk eða ákvörðun hverju sinni til að létta álagi af fjölskyldum, meðal annars í bráðatilvikum eða vegna óvæntra áfalla í fjölskyldum. Skammtímavistun vegna fatlaðar barna í Fjallabyggð er í boði í Dalvíkurbyggð og á Sauðárkróki. Sótt er um þjónustuna hjá ráðgjafa félagsþjónustu. Teymi fagfólks metur þjónustuþörf og ákvarðar um fyrirkomulag þjónustu samkvæmt reglum þar um.

Reglur byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra við afgreiðslu umsóknar um skammtímavistun, samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992

Réttindagæslumaður fatlaðs fólks

Réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Norðurlandi fylgjast með högum fatlaðs fólks og er því innan handar við réttindagæslu hvers konar, hvort sem það er vegna meðferðar einkafjármuna þess, þjónustu sem það á rétt á, varðandi önnur persónuleg réttindi eða einkamál. Öllum er skylt að tilkynna til réttindagæslumanns ef þeir hafa ástæðu til að ætla að brotið sé á rétti fatlaðs einstaklings. Fatlaður einstaklingur, sem telur að réttur hans sé fyrir borð borinn, getur tilkynnt það réttindagæslumanni. Komist réttindagæslumaður að þeirri niðurstöðu að réttur fatlaðs einstaklings hafi verið fyrir borð borinn aðstoðar hann viðkomandi við að leita réttar síns miðað við atvik máls hverju sinni og óskir. Réttargæslumaður á Norðurlandi er Guðrún Pálmadóttir. Tímapantanir eru í síma 858 1959.