Árið 1903 urðu mikil tímamót á Siglufirði er Norðmenn hófu stórfelldar síldveiðar við Norðurland og gerðu Siglufjörð að miðstöð síldarútvegsins. Með síldveiðunum og nýrri tækni til botnfiskveiða, togaraútgerðinni urðu stórstígari framfarir en nokkurn tíma í sögu Íslands. Þjóðin steig út úr aldalöngu myrkri og fátækt til nýs tíma með rafljósum og tækniframförum á öllum sviðum.
Strax á fyrsta ári Norðmanna hér fékk almúgafólk, sem hjá þeim vann, greidda peninga í vinnulaun í fyrsta sinn. Þótt "sjálfskipaðir eigendur" vinnuhjúanna, kaupmenn og bændur reyndu að hindra að nýir siðir væru upp teknir þá voru fyrstu sporin stigin til aukins frelsis og framfara. Norðmenn reistu fjölda stórhýsa til atvinnurekstrar og félagsstarfa þ.á.m. Norska sjómannaheimilið sem einnig var fyrsta sjúkrahúsið á staðnum.
Siglufjörður öðlaðist kaupstaðarréttindi með konungsbréfi 1918. Árið 1913 hafði nýtt steinsteypt skólahús verið vígt og fallorka vatnsins úr Hvanneyrarskál lýsti upp híbýli þorpsbúa í fyrsta sinn það sama ár. Á næstu áratugum óx staðurinn hraðar en nokkur annar bær landsins. Þar sem í aldarbyrjun örlaði vart á þorpsmynd var fjörutíu árum síðar 5. mesti þéttbýlisstaður landsins. Árið 1950 var íbúafjöldinn í hámarki eða um 3100 manns sem hafði hér skráða búsetu.
Á þessu skeiði var Siglufjörður einhver mikilvægasta höfn landsins og nokkrum sinnum fór síldarútflutningur frá Siglufirði yfir 20% af árlegum útflutningi landsmanna. Í þessum "Klondyke Atlantshafsins" ríkti hin sanna gullgrafarastemning síldarævintýrisins. Hér voru að jafnaði starfræktar 20-25 söltunarstöðvar og 3-5 bræðsluverksmiðjur. Síldarspekúlantar komu og fóru, ýmist vellauðugir eða blásnauðir og verkafólk í tugþúsundatali sótti hingað atvinnu í gegnum tíðina. Í brælum lágu hér hundruð síldarskipa af mörgu þjóðerni. Fólksmergðin í bænum var stundum eins og á strætum stórborga og óvíða var mannlífið litríkara eða fjörugra.
En svipull er sjávarafli. Hvert síldarleysissumarið rak annað lengst af á 6. áratugnum og þá fór íbúunum að fækka. Þótt vel rofaði til í veiðum um og eftir 1960, þá var skammt að bíða þess að áfallið dundi yfir Siglufjörð. Sumarið 1964 var síðasta síldarsumarið á Norðurlandsmiðum og 1968 var síldarævintýrinu endanlega lokið. Síldin var ofveidd!
Árið 1994 var opnað á Siglufirði safn til minningar um þennan stórkostlega tíma í sögunni. Síldarminjasafnið er landssafn um sögu síldarútvegsins á Íslandi.