Ólafsfjarðarskarð

Vegalengd: 15-16 km
Leið: Þverá - Kvíabekkjardalur - Ólafsfjarðarskarð - Ólafsfjarðardalur - Brúnastaðir í Fljótum.
Mesta hæð: 740 m.
Göngutími: 6-7 klst

Ólafsfjarðarskarð er í fjallgarðinum milli Ólafsfjarðar og Fljóta og var ein af aðalleiðum landpóstanna sem fóru frá Akureyri um Ólafsfjörð til Siglufjarðar.

Leiðin liggur upp frá landnámsjörðinni Kvíabekk, þó hefur í seinni tíð verið farið upp frá Þverá, næsta bæ sunnan við Kvíabekk, en þar er nú vegarslóði upp á dalinn. Leiðin liggur um Kvíabekkjardal upp með Þverá en svo heitir áin sem rennur um dalinn og sameinast Ólafsfjarðará.

Kvíabekkjardalur er mjög grösugur enda voru í mynni hans mörg smábýli sem öll eru nú horfin og eftir standa tóftir einar. Til suðvesturs gengur dalur sem ber nafnið Húngilsdalur og rennur Þverá eftir honum. Fremri hluti Kvíabekkjardals nefnist Skarðsdalur og ber hann nafn af skarði því sem við förum í gegnum og áður er nefnt.

Þegar komið er upp í mynni dalsins skiptir Þveráin sér og höldum við okkur við ána sem rennur eftir Skarðsdal. Ólafsfjarðarskarð blasir nú við, 743 m., með fjöllum á hvora hönd sem ná upp í tæplega 900 m. Leiðin fram Skarðsdal er mjög greiðfær hvort heldur er lausfóta, eins og Ólafsfirðingar segja, eða á skíðum, en erfitt getur reynst að fara um skarðið á vélsleðum þar sem síðasta brekkan er mjög brött.

Þegar staðið er í skarðinu sér vel niður í Fljótin og niður að Miklavatni. Úr skarðinu er orðið mjög stutt yfir í Héðinsfjörð og ef gengið er í hlíðum fjallsins til hægri Fljótamegin er komið í Sandskarð sem er fjölfarin leið úr Fljótum til Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar (sjá um Skeggjabrekkudal hér á eftir).

Niður Ólafsfjarðardal Fljótamegin er greiðfært og sér niður að Ketilási sem er félagsheimili þeirra Fljótamanna.