Bæjarráð Fjallabyggðar

843. fundur 13. september 2024 kl. 10:00 - 10:56 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Tómas Atli Einarsson varafulltrúi
  • Guðjón M. Ólafsson formaður
  • Helgi Jóhannsson aðalfulltrúi
Starfsmenn
  • Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri
  • Bragi Freyr Kristbjörnsson deildarstjóri
Fundargerð ritaði: Bragi Freyr Kristbjörnsson deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármáladeildar

1.Fráveitukerfi á Siglufirði

Málsnúmer 2408040Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi vinnuskjal um stöðu verkefna vegna rigningaveðurs 23.-24. ágúst sl. og vinnu við fráveitukerfi á Siglufirði. Einnig fylgdi minnisblað bæjarstjóra um tilboð í heildarúttekt á fráveitukerfi.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar slökkviliðsstjóra og bæjarstjóra fyrir uppfært minnisblað um stöðu verkefna.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til viðræðna við Verkís vegna vinnu við úttekt á fráveitukerfi Fjallabyggðar. Bæjarráð telur mikilvægt að niðurstaða liggi fyrir ekki síðar en 21. október næstkomandi.
Hvað varðar fyrirhugaðan fund með íbúum og fyrirtækjum sem urðu fyrir áhrifum af rigningu og flóðum þá verður hann haldinn miðvikudaginn 18. september næstkomandi og hefur hann verið auglýstur á heimasíðu sveitarfélagsins.

2.Staðgreiðsla tímabils - 2024

Málsnúmer 2401034Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi yfirlit staðgreiðslu fyrir ágúst 2024. Staðgreiðsla fyrir tímabilið nemur kr. 125.685.957,- eða 82,25% af tímabilsáætlun 2024. Íbúum bæjarfélagsins hefur fjölgað um 6 á árinu.
Lagt fram til kynningar.

3.Launayfirlit tímabils - 2024

Málsnúmer 2401033Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi yfirlit launakostnaðar og kostnaðar vegna langtímaveikinda fyrir janúar-ágúst 2024, lagt fram til kynningar. Áfallinn launakostnaður er 97,81% af tímabilsáætlun.
Lagt fram til kynningar.

4.Tjaldsvæðið Ólafsfirði

Málsnúmer 2407050Vakta málsnúmer

Á 838. fundi bæjarráðs var óskað eftir umsögn tæknideildar um hvaða ráðstafanir hægt er að ráðast í vegna ástandsins á tjaldsvæðinu. Með fundarboði bæjarráðs fylgdi samantekt tæknideildar vegna vatnselgs á svæði utan við íþróttahús og tjaldsvæði í Ólafsfirði.
Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar
Bæjarráð þakkar tæknideild fyrir tillöguna og vísar henni til gerðar fjárhagsáætlunar 2025.

5.Innri höfn 2024 - Raforkuvirki

Málsnúmer 2409033Vakta málsnúmer

Þriðjudaginn 27.08.2024 rann út frestur til að skila inn tilboðum til Vegagerðarinnar í verkið "Siglufjörður. Raforkuvirki 2024". Útboðið var opið og auglýst á heimasíðu Vegagerðar og útboðsvef um opinber útboð.
Engar athugasemdir bárust um framkvæmd útboðsins.
Eftirfarandi tilboð bárust:
Rafeyri ehf., Akureyri - kr. 18.667.512,-
Raffó ehf., Siglufirði - kr. 12.063.528,-
Kostnaðaráætlun, kr. 15.716.058,-

Tilboðin hafa verið yfirfarin og leiðrétt eftir því sem við á. Vegagerðin leggur til að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda og að bindandi samningur verði gerður.
Samþykkt
Bæjarráð gerir hvorki athugasemdir við framkvæmd útboðsins né tillögu Vegagerðarinnar um að samið verði við lægstbjóðanda. Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti því útboðið og felur bæjarstjóra að undirrita fyrir hönd sveitarfélagsins.

6.Innsent erindi - Eyrargata 3

Málsnúmer 2409039Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi erindi Gurrýjar Önnu Ingvarsdóttur er varðar ástand húsnæðisins að Eyrargötu 3 sem notað er í starfi lengdrar viðveru grunnskólans á Siglufirði.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar Gurrý Önnu Ingvarsdóttur fyrir innsent erindi.
Bæjarráð óskar eftir minnisblaði frá deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála um stöðu málsins m.t.t. ábendinga Gurrýjar og fyrri ákvarðana sveitarfélagsins.

7.Samstarf vegna RECET

Málsnúmer 2409017Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi erindi Eims og SSNE vegna viljayfirlýsingar um aðgerðaráætlun í orkuskiptum.
Eimur og SSNE taka þátt í RECET verkefninu sem snýst um að efla getu sveitarfélaganna til að takast á við orkuskipti í dreifðum byggðum. Markmiðið er að hvert sveitarfélag hafi í höndunum raunhæfa aðgerðaáætlun til að hraða þessari þróun, enda er það í samræmi við stefnumörkun ríkis og sveitar í þessum málum. RECET- verkefnið er til þriggja ára. Það hófst haustið 2023 og lýkur 2026. Í aðdraganda skila RECET umsóknarinnar haustið 2022 skrifaði Fjallabyggð undir viljayfirlýsingu um samstarf í verkefninu. Með erindinu vilja Eimur og SSNE hnykkja á þeirri yfirlýsingu og staðfesta hvort vilji sé enn fyrir hendi til þátttöku í vinnu við gerð aðgerðaráætlunar í orkuskiptum, fyrir hvert og eitt sveitarfélag.
Samþykkt
Bæjarráð staðfestir áframhaldandi þátttöku sveitarfélagsins í verkefninu.

8.Fyrirspurn Landhelgisgæslunnar vegna varðskipsins Freyju

Málsnúmer 2409038Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi fyrirspurn Heimis Sverrissonar, f.h. Landhelgisgæslunnar vegna aðstöðu Landhelgisgæslunnar og varðskipsins Freyju.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar fulltrúum Landhelgisgæslunnar fyrir innsent erindi. Málinu er vísað til tæknideildar til athugunar á í hvaða aðgerðir er hægt að ráðast fyrir næsta vetur. Þegar er búið að samþykkja að leiðin niður að varðskipinu Freyju er í forgangsmokstri.
Bæjarstjóra að öðru leyti falið að svara erindi Landhelgisgæslunnar í samræmi við umræður á fundinum.

9.Verkefnahópur um málefni skíðasvæðisins í Skarðsdal

Málsnúmer 2409031Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi vinnuskjal verkefnahóps um málefni skíðasvæðisins í Skarðsdal.
Lagt fram til kynningar.

10.Fundargerðir nefnda og stjórna Fjallabyggðar - 2024

Málsnúmer 2401003Vakta málsnúmer

Fundargerðir 147. fundar hafnarstjórnar og 143. fundar fræðslu- og frístundanefndar lagðar fram til kynningar.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:56.