Bæjarstjórn Fjallabyggðar

247. fundur 26. ágúst 2024 kl. 12:15 - 14:31 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • S. Guðrún Hauksdóttir forseti
  • Tómas Atli Einarsson 2. varaforseti
  • Helgi Jóhannsson aðalfulltrúi
  • Guðjón M. Ólafsson 1. varaforseti
  • Sæbjörg Ágústsdóttir aðalfulltrúi
  • Þorgeir Bjarnason aðalfulltrúi
  • Arnar Þór Stefánsson aðalfulltrúi
Starfsmenn
  • Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri
  • Bragi Freyr Kristbjörnsson deildarstjóri
Fundargerð ritaði: Bragi Freyr Kristbjörnsson deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármáladeildar
Í upphafi fundarins bar forseti bæjarstjórnar upp tillögu um breytingu á boðaðri dagskrá, á þann veg að taka fyrir mál 2408040 - Fráveitukerfi á Siglufirði og 2211054 - Ályktun um samgöngumál sem 1. og 2. dagskrárlið. Jafnframt lagt til að taka af dagskrá mál 2407024 - Sumarleyfi bæjarstjórnar 2024.
Samþykkt með 7 greiddum atkvæðum

1.Fráveitukerfi á Siglufirði

Málsnúmer 2408040Vakta málsnúmer

Til fundarins mættu Óðinn Freyr Rögnvaldsson, starfandi bæjarverkstjóri og Jóhann K. Jóhannsson slökkviliðsstjóri. Óðinn og Jóhann fóru yfir þá atburði sem áttu sér stað um liðna helgi.

Til máls tóku:
S. Guðrún Hauksdóttir
Guðjón M. Ólafsson
Arnar Þór Stefánsson
Helgi Jóhannsson
Tómas Atli Einarsson
Þorgeir Bjarnason
Sæbjörg Ágústsdóttir
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarstjórn vill koma kærum þökkum til allra þeirra viðbragðsaðila sem unnu að aðgerðum þessa daga. Ljóst er að ef þeirra nyti ekki við hefði ástandið orðið mun verra. Einnig fá íbúar kærar þakkir fyrir dugnað og þolinmæði á meðan unnið var úr aðstæðum.

Bæjarstjórn felur slökkviliðsstjóra og starfandi verkstjóra þjónustumiðstöðvar í samvinnu við deildarstjóra tæknideildar að skila greinargerð um atburði síðastliðinnar helgar ásamt tillögum að bráðaaðgerðum og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.
Bæjarstjórn felur deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar einnig að skila greinargerð fyrir næsta fund bæjarráðs um hver tryggingaleg staða sveitarfélagsins er í ljósi atburðanna.

2.Ályktun um samgöngumál

Málsnúmer 2211054Vakta málsnúmer

Til fundarins mættu Sveinn Brynjólfsson, Brynjólfur Sveinsson, sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Gestur Hansson snjóathugunarmaður og Ingvar Erlingsson myndatökumaður. Þeir fluttu munnlega skýrslu um ástand Siglufjarðarvegar um Almenninga.
Bæjarstjórn Fjallabyggðar skorar á Innviðaráðherra og þingmenn Norðausturkjördæmis í ljósi nýafstaðinna atburða í kjölfar mikillar úrkomu við utanverðan Tröllaskaga að beita sér þegar í stað fyrir því að undirbúningi Fljótaganga verði hraðað. Mikið hættuástand skapaðist á Siglufjarðarvegi eftir atburði síðustu daga, sem sýnir að um forgangsmál er að ræða þegar kemur að samgöngu- og öryggismálum landsins.

3.Áskorun Selvíkur ehf. vegna fimm liða samkomulags

Málsnúmer 2405071Vakta málsnúmer

Á 839. fundi bæjarráðs var tekin fyrir áskorun LLG Lögmanna ehf., f.h. Selvíkur ehf. til bæjarstjórnar vegna efnda fimm liða samkomulags. Bæjarráð vísaði bréfinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Með fundarboði bæjarstjórnar fylgdi ofangreint erindi ásamt afgreiðslu bæjarráðs.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarstjórn lýsir sig reiðubúna til að fara í beinar viðræður um efnisatriði bréfsins en óskar eftir ráðrúmi til frekari undirbúnings. Bæjarstjóra falið að svara lögmanni Selvíkur ehf.

Fundi slitið - kl. 14:31.