Bæjarráð Fjallabyggðar

842. fundur 06. september 2024 kl. 10:00 - 11:48 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • S. Guðrún Hauksdóttir varaformaður
  • Guðjón M. Ólafsson formaður
  • Helgi Jóhannsson aðalfulltrúi
Starfsmenn
  • Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri
  • Bragi Freyr Kristbjörnsson deildarstjóri
Fundargerð ritaði: Bragi Freyr Kristbjörnsson deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármáladeildar

1.Fráveitukerfi á Ólafsfirði

Málsnúmer 2409007Vakta málsnúmer

Til fundarins mætti Ingvi Óskarsson og fór yfir stöðu fráveitukerfis í Ólafsfirði.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar Ingva fyrir komuna á fundinn og gagnlegar ábendingar um úrbætur. Bæjarráð hefur þegar falið bæjarstjóra að leita eftir tilboðum frá óháðum aðilum til þess að framkvæma úttekt á fráveitukerfi Fjallabyggðar. Bæjarstjóra falið að koma ábendingum Ingva til þeirra aðila sem framkvæma munu úttektina.
Í vor hófst vinna með fyrirtækinu Raftákni við að koma upp vöktunarkerfi á alla dælubrunna í sveitarfélaginu, og er sú vinna komin vel á veg.

2.Fráveitukerfi á Siglufirði

Málsnúmer 2408040Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi minnisblað Veðurstofu Íslands vegna Vatnsveðurs á Tröllaskaga, dagana 22.-25. ágúst 2024. Einnig minnisblað bæjarstjóra og slökkviliðsstjóra vegna stöðu verkefna í kjölfar hamfararigningar á Siglufirði.
Á 841. fundi bæjarráðs var samþykkt að útbúa viðauka við fjárhagsáætlun að fjárhæð 30.000.000,- og tekið verði af handbæru fé til fjármögnunar viðaukans. Viðaukinn er til þess að standa straum af búnaðarkaupum að tillögu slökkviliðsstjóra og bæjarverkstjóra. Útfærður viðauki nr. 3 við fjárhagsáætlun 2024 lagður fram til afgreiðslu.
Bæjarráð þakkar bæjarstjóra og slökkviliðsstjóra fyrir minnisblaðið um framvindu þeirra verkefna sem ákveðið var að ráðast í á síðasta fundi bæjarráðs. Bæjarráð óskar eftir uppfærslu á næsta fundi sínum um framvindu mála sbr. umræður á fundinum.

Bæjarráð samþykkir viðauka nr. 3 að fjárhæð 30.000.000,- og verður honum mætt með lækkun á handbæru fé.

3.Sameining íbúða í Skálarhlíð

Málsnúmer 2408001Vakta málsnúmer

Tilboð voru opnuð í Ráðhúsi Fjallabyggðar, miðvikudaginn 21. ágúst 2024, kl. 14:00, í eftirfarandi verk:
Skálarhlíð-br. á 2. hæð 2024 - íbúð 2A og Skálarhlíð-br. á 3. hæð 2024 - íbúð C
Eftirfarandi tilboð bárust:
Byggingarfélagið Berg ehf. kr. 32.759.451,-
L-7 ehf. kr. 35.973.723,-
Kostnaðaráætlun kr. 29.267.785,-
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir að taka tilboði Berg byggingafélags ehf. kr. 32.759.451 í sameiningu íbúða í Skálarhlíð.
Bæjarráð vill árétta mikilvægi þess að verkefnið verði innan tímamarka í ljósi þess að töluverð eftirspurn er eftir íbúðum á Skálarhlíð.

4.Verkefni stjórnsýslu- og fjármáladeildar 2024

Málsnúmer 2401040Vakta málsnúmer

Deildarstjóri stjórnsýslu og fjármáladeildar fór yfir stöðu mála ásamt framvindu fjárhagsáætlunar 2025-2028.
Lagt fram til kynningar
Bæjarráð þakkar deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála fyrir yfirferð á stöðu fjárhagsáætlunar 2025, stöðu innheimtu og yfirferð á lausafjárstöðu m.t.t. verkefna ársins 2024.

5.Tilkynningar vegna vatnstjóns í ágúst 2024

Málsnúmer 2408047Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi yfirlit innsendra erinda húseigenda á Siglufirði vegna vatnstjóna sem upp komu helgina 22.-25 ágúst sl.
Lagt fram til kynningar
Bæjarráð ítrekar bókun sína frá 841. fundi um að til standi að kalla til fundar þá aðila sem urðu fyrir tjóni. Fyrirhugað er að á fundinn mæti kjörnir fulltrúar, fulltrúar stjórnsýslunnar og þeir aðilar sem vinna að úrvinnslu málsins, svo sem tryggingasérfræðingur, til þess að heyra sjónarmið íbúa, liðsinna þeim sem og að svara spurningum þeirra.

6.Vatnsþarfir vegna styrjueldis í Ólafsfirði

Málsnúmer 2402012Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi ályktun Framfarafélags Ólafsfjarðar sem samþykkt var á fundi félagsins sem haldinn var 27.08.2024. Samþykkt er að koma eftirfarandi ábendingum og ályktun um vatnsbúskap í Ólafsfirði á framfæri við stjórnendur sveitarfélags Fjallabyggðar.
Lagt fram til kynningar
Helgi Jóhannsson vék af fundi undir afgreiðslu málsins.
Bæjarráð þakkar Framfarafélagi Ólafsfjarðar fyrir ályktunina og vísar til fyrri ákvarðana bæjarráðs varðandi betrumbætur á afhendingaröryggi vatnsveitu Fjallabyggðar í Ólafsfirði.

7.Framtíð Flugklasans

Málsnúmer 2408055Vakta málsnúmer

Mánudaginn 26. ágúst var haldinn fundur um framtíð Flugklasans Air 66N, með fulltrúum sveitarfélaga á Norðurlandi.
Á fundinn mættu tólf fulltrúar sveitarfélaga, frá sjö sveitarfélögum, Akureyrarbæ, Þingeyjarsveit, Eyjafjarðarsveit, Hörgársveit, Grýtubakkahreppi, Svalbarðsstrandarhreppi og Norðurþingi. Fulltrúar Langanesbyggðar og Dalvíkurbyggðar forfölluðust. Auk þess voru fulltrúar frá SSNE og SSNV viðstaddir fundinn.
Samtalið við sveitarfélögin mun halda áfram, en markmið fundarins var að fá fram sýn sveitarfélaganna á framhald verkefnisins og ræða næstu skref til að vinna að þeirri sýn. Rætt var um betur skilgreinda aðkomu ríkisins að verkefninu, samstarf innan svæðisins sem og samstarf við ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinar sem hafa hag af auknu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Einnig var rætt um tekjusköpun á svæðinu og lífsgæði íbúa og var mikill samhljómur um mikilvægi þess að halda áfram að byggja upp beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll auk þess að tryggja áframhaldandi vöxt þess sem er komið.
Lagt fram til kynningar
Lagt fram til kynningar.

8.Úrskurður Innviðaráðuneytisins frá 12. júní 2024 um brunavarnir í jarðgöngum.

Málsnúmer 2309165Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi úrskurður Innviðaráðuneytisins frá 12. júní 2024 um brunavarnir í jarðgöngum.
Lagt fram til kynningar
Lagt fram til kynningar. Bæjarráð fagnar úrskurði Innviðaráðuneytisins um brunavarnir í jarðgöngum. Hér er um mjög mikilvægt öryggismál að ræða fyrir vegfarendur í jarðgöngum á utanverðum Tröllaskaga. Bæjarráð skorar á þingmenn Norðausturkjördæmis að tryggja Vegagerðinni fjármagn vegna brunavarna við næstu fjárlög.

9.Haustþing SSNE 2024

Málsnúmer 2409009Vakta málsnúmer

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi boð á haustþing Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) sem haldið verður 4. október næstkomandi.
Lagt fram til kynningar
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:48.