Vatnsþarfir vegna styrjueldis í Ólafsfirði

Málsnúmer 2402012

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 820. fundur - 09.02.2024

Lagt fram erindi Eyþórs Eyjólfssonar, f.h. Hins Norðlenzka Styrjufjelags ehf. þar sem óskað er eftir viðræðum við bæjaryfirvöld vegna vatnsþarfar styrjueldis félagsins í Ólafsfirði.
Vísað til nefndar
Bæjarráð þakkar Hinu Norðlenzka Styrjufjelagi fyrir erindið og lýsir yfir ánægju með fyrirætlanir fyrirtækisins. Erindinu vísað til starfshóps um fjárfestingar og viðhald til umfjöllunar og áframhaldandi úrvinnslu. Í framhaldinu verður forsvarsmönnum félagsins boðið á fund bæjarráðs til þess að ræða möguleika á auknum vatnskaupum sem og framtíðar afsláttarkjör.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 822. fundur - 01.03.2024

Minnisblað EFLU vegna innviðagreiningar á vatnsveitu Ólafsfjarðar ásamt minnisblaði bæjarstjóra lagt fram.
Bæjarstjóra er falið að semja við landeigendur um þóknun vegna skertrar raforkuframleiðslu sem nemur áhrifum af vatnstöku sveitarfélagsins.
Deildarstjóra tæknideildar er falið að hefja strax ástandsskoðun á núverandi lögn frá Burstabrekku, svo koma megi vatni að núverandi mannvirkjum vatnsveitu við nyrðri enda lagnarinnar. Bæjarráð óskar eftir upplýsingum um ástand lagnarinnar á næsta fund bæjarráðs. Samhliða því skal hefja vinnu við að koma upp nauðsynlegum rafrænum vöktunarbúnaði fyrir vatnsveituna sem gefur heildræna sýn á stöðu veitunnar hverju sinni með fjarlestri.
Samhliða viðræðum bæjarstjóra við landeigendur er deildarstjóra tæknideildar einnig falið að hefja undirbúning á beintengingu við Styrjueldið með nýrri lögn frá núverandi veitumannvirkjum. Verði því við komið er æskilegt að nýta tímabundið ónotaðar eldri lagnir, ef þær eru taldar flýta fyrir afhendingu vatns, s.s. til að þvera götur eða erfið svæði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 823. fundur - 08.03.2024

Á 822. fundi bæjarráðs var bæjarstjóra falið að semja við landeigendur um þóknun vegna skertrar raforkuframleiðslu sem nemur áhrifum af vatnstöku sveitarfélagsins.
Deildarstjóra tæknideildar var falið að hefja strax ástandsskoðun á núverandi lögn frá Burstabrekku, svo koma megi vatni að núverandi mannvirkjum vatnsveitu við nyrðri enda lagnarinnar. Bæjarráð óskar eftir upplýsingum um ástand lagnarinnar á næsta fund bæjarráðs. Samhliða því skal hefja vinnu við að koma upp nauðsynlegum rafrænum vöktunarbúnaði fyrir vatnsveituna sem gefur heildræna sýn á stöðu veitunnar hverju sinni með fjarlestri.
Samhliða viðræðum bæjarstjóra við landeigendur var deildarstjóra tæknideildar einnig falið að hefja undirbúning á beintengingu við Styrjueldið með nýrri lögn frá núverandi veitumannvirkjum. Verði því við komið er æskilegt að nýta tímabundið ónotaðar eldri lagnir, ef þær eru taldar flýta fyrir afhendingu vatns, s.s. til að þvera götur eða erfið svæði.
Minnisblað deildarstjóra tæknideildar og bæjarstjóra lagt fram.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar fyrir minnisblaðið um stöðu málsins. Samningur um lok vatnstöku úr Burstabrekkudal frá 2011 hefur áhrif á möguleika sveitarfélagsins til vatnstöku af svæðinu. Þá er ástand þeirra veitumannvirkja, sem áður voru notuð til þess að flytja vatn frá vatnstökusvæðinu í Burstabrekkudal að bæjarlandinu, með þeim hætti að ekki verður hægt að lagfæra þau fyrr en eftir að snjóa leysir.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að halda áfram viðræðum við landeigendur Burstabrekku og Hlíðar um mögulegar bætur vegna vatnstöku úr Burstabrekkudal þar sem hagsmunir samfélagsins verða hafðir að leiðarljósi.

Samhliða ofangreindu er deildarstjóra tæknideildar falið að skoða frekari vatnstöku úr Brimnessá og halda áfram undirbúningi á uppsetningu rauntíma fjarlestrarbúnaðar fyrir vatnsveituna.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 842. fundur - 06.09.2024

Með fundarboði bæjarráðs fylgdi ályktun Framfarafélags Ólafsfjarðar sem samþykkt var á fundi félagsins sem haldinn var 27.08.2024. Samþykkt er að koma eftirfarandi ábendingum og ályktun um vatnsbúskap í Ólafsfirði á framfæri við stjórnendur sveitarfélags Fjallabyggðar.
Lagt fram til kynningar
Helgi Jóhannsson vék af fundi undir afgreiðslu málsins.
Bæjarráð þakkar Framfarafélagi Ólafsfjarðar fyrir ályktunina og vísar til fyrri ákvarðana bæjarráðs varðandi betrumbætur á afhendingaröryggi vatnsveitu Fjallabyggðar í Ólafsfirði.