Lóðarmörk Tjarnagötu 16, 18 og 20, Siglufirði

Málsnúmer 1603107

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 199. fundur - 14.04.2016

Austari lóðarmörk Tjarnargötu 16,18 og 20 eru samkvæmt gildandi deiliskipulagi hafnarsvæðis opið svæði á einkalóð. Á þetta við um 10m breiða ræmu meðfram lóðarmörkum. Lóðarmörk standa út í grjótvarnargarð.

Nefndin áréttar að umferð vélknúinna ökutækja er ekki heimil á opnum svæðum. Einnig er áréttað að ekki er heimilt að hefta eða tálma umferð annara en vélknúinna ökutækja á opnum svæðum.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 448. fundur - 06.06.2016

Bæjarstjóri upplýsti bæjarráð um stöðu mála, varðandi ágreining er aðallega tengist lóðarmörkum Tjarnargötu 16 Siglufirði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 452. fundur - 28.06.2016

Á fund bæjarráðs kom deildarstjóri tæknideildar Ármann V. Sigurðsson.

Lagt fram til kynningar bréf frá Síldarleitinni sf., dagsett 17. júní 2016, er varðar girðingu á lóð að Tjarnargötu 16 Siglufirði og mótmæli við því ef Fjallabyggð fjarlægi hana.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar að koma með tillögu til bæjarráðs.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 202. fundur - 06.07.2016

Skipulags- og umhverfisnefnd dregur til baka bókun sína frá 199. fundi nefndarinnar varðandi umferðarrétt um lóðina Tjarnargötu 16. Í ljósi nýrra upplýsinga um hefðarrétt á umferð um vegslóða austan Tjarnargötu 16. Þetta gildir einnig fyrir Tjarnargötu 18 og 20.
Nefndin felur deildarstjóra tæknideildar að leita samninga við lóðarhafa Tjarnargötu 18 og 20 um skerðingu á lóðum þeirra vegna umferðarréttarins. Varðandi Tjarnargötu 16 er lögmaður Fjallabyggðar með það mál í vinnslu á sömu forsendum og fyrir aðra lóðarhafa.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 454. fundur - 12.07.2016

Lagt fram bréf bæjarstjóra dags. 7. júlí til Síldarleitarinnar sf, þar sem óskað er eftir gerð samkomulags um nýtt lóðarblað er sýni umferðarrétt fyrir Tjarnargötu 18 og 20, og Óskarsgötu 7.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 459. fundur - 02.08.2016

Lögð fram kæra til Innanríkisráðuneytis, dagsett 22, júlí 2016, frá lögmönnum lóðarhafa að Tjarnargötu 16, Siglufirði, þar sem mótmælt er málsmeðferð Fjallabyggðar í málinu.

Einnig var lagt fram erindi frá Innanríkisráðuneytinu, dagsett, 22. júlí 2016, þar sem óskað er eftir umsögn Fjallabyggðar vegna kærunnar. Umsögn þarf að hafa borist eigi síðar en 12. ágúst 2016.

Einnig lagðar fram undirritaðar yfirlýsingar vegna lóðamarkabreytinga fyrir Tjarnargötu 18 og 20 Siglufirði, þar sem lóðir viðkomandi lóðarhafa eru skertar án bóta.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og lögmanni að svara Innanríkisráðuneytinu.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 461. fundur - 18.08.2016

Á 459. fundi bæjarráðs, 2. ágúst 2016, var lögð fram kæra til Innanríkisráðuneytis, dagsett 22, júlí 2016, frá lögmönnum lóðarhafa að Tjarnargötu 16, Siglufirði, þar sem mótmælt er málsmeðferð Fjallabyggðar í málinu. Einnig var lagt fram erindi frá Innanríkisráðuneytinu, dagsett, 22. júlí 2016, þar sem óskað var eftir umsögn Fjallabyggðar vegna kærunnar.

Umsögn sem send hefur verið Innanríkisráðuneytinu, lögð fram til kynningar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 463. fundur - 30.08.2016

Lögð fram drög að bréfi bæjarstjóra til Síldarleitarinnar sf. þar sem ótímabundnum lóðarleigusamningi um Tjarnargötu 16 að því er tekur til 380 fm2 spildu af núverandi lóð er sagt upp. Áður hafði bæjarráð óskað eftir gerð samkomulags um nýtt lóðarblað en því miður náðist ekki samkomulag milli aðila.

Bæjarráð samþykkir að segja upp hinum ótímabundna leigusamningi um Tjarnargötu 16 og tekur uppsögnin gildi eftir eitt ár miðað við mánaðamót eða 1. september 2017.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 466. fundur - 20.09.2016

Lagt fram til kynningar bréf frá Síldarleitinni til Innanríkisráðuneytisins, dagsett 13. september 2016, þar sem fram koma andmæli við athugasemdum Fjallabyggðar vegna kæru frá 22. júlí 2016.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 222. fundur - 12.02.2018

Lagt fram
Lagður fram til kynningar úrskurður Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna kæru Síldarleitarinnar ehf. á ákvörðun Fjallabyggðar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 543. fundur - 20.02.2018

Lagður fram úrskurður Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem kveðinn var upp þann 31. janúar sl., vegna kæru Síldarleitarinnar ehf. á ákvörðun Fjallabyggðar um að afturkalla lóðarréttindi félagsins að Tjarnargötu 16, Siglufirði.
Ákvörðun Fjallabyggðar um að afturkalla lóðina hefur verið felld úr gildi.
Bæjarráð óskar eftir umsögn lögmanns sveitarfélagsins.