Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar

312. fundur 19. júní 2024 kl. 16:00 - 18:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Arnar Þór Stefánsson formaður
  • Birna Sigurveig Björnsdóttir varaformaður
  • Ólafur Baldursson aðalm.
  • Þorgeir Bjarnason aðalm.
  • Áslaug Inga Barðadóttir aðalm.
Starfsmenn
  • Ármann Viðar Sigurðsson deildarstjóri
  • Íris Stefánsdóttir skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði: Íris Stefánsdóttir skipulagsfulltrúi

1.Breyting á Aðalskipulagi Fjallabyggðar 2020-2032 - Flæðar Ólafsfirði

Málsnúmer 2403071Vakta málsnúmer

Lögð fram umsögn Skipulagsstofnunar og Minjastofnunar Íslands vegna skipulagslýsingar sem kynnt var skv. 1.mgr. 30. gr. skipulagslaga nr.123/2010. Einnig lagður fram breytingaruppdráttur sem sýnir fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi Fjallabyggðar við Flæðar í Ólafsfirði.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu aðalskipulags verði kynnt íbúum og hagsmunaaðilum ásamt því að auglýsa tillöguna með lögbundnum hætti skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samhliða verður auglýst og kynnt tillaga að breytingu deiliskipulags Flæða.

2.Breyting á deiliskipulagi Flæða

Málsnúmer 2401030Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Flæða í Ólafsfirði. Á uppdrættinum sem dagsettur er 5. apríl 2024 kemur nánar fram í hverju breytingarnar felast en markmiðið með þeim er að bjóða upp á fjölbreyttari húsagerðir á svæðinu en gert er ráð fyrir í gildandi deiliskipulagi, þar sem aðeins var gert ráð fyrir einbýlishúsalóðum.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu deiliskipulags Flæða verði kynnt íbúum og hagsmunaaðilum ásamt því að auglýsa tillöguna með lögbundnum hætti skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samhliða verður auglýst og kynnt tillaga að breytingu aðalskipulags Fjallabyggðar vegna nýrrar raðhúsalóðar á deiliskipulagssvæðinu.

3.Umsókn til skipulagsfulltrúa

Málsnúmer 2406022Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn Atla Jónssonar, dags. 10.6.2024 þar sem sótt er um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðarinnar á Saurbæjarási, Siglufirði sem heimili byggingu smáhýsa á frístundalóðunum.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Nefndin felur tæknideild að útfæra breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðarinnar við Saurbæjarás þannig að heimild verði fyrir einu smáhýsi innan hverrar lóðar í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012 m.s.br. gr. 2.3.5. lið f. Breytingin telst óveruleg þar sem nú þegar eru smáhýsi við flest frístundahúsin á svæðinu og verður því grenndarkynnt eigendum í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.Óveruleg breyting á deiliskipulagi þjóðvegarins við Aðalgötu/Múlaveg í Ólafsfirði

Málsnúmer 2404033Vakta málsnúmer

Tekið fyrir að nýju mál vegna óverulegra breytinga á deiliskipulagi þjóðvegarins við Aðalgötu/Múlaveg í Ólafsfirði, eftir grenndarkynningu. Lagðar fram athugasemdir Alberts Gunnlaugssonar f.h. Tunnunnar prentþjónustu ehf. sem bárust á kynningartímanum. Einnig lagt fram minnisblað Harðar Bjarnasonar, verkefnastjóra deiliskipulagsins hjá Cowi, dags. 18.6.2024.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Nefndin tekur undir svörin sem lögð eru fram og leggur til við bæjarstjórn að óveruleg breyting á deiliskipulagi sem grenndarkynnt var skv. 2.mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, verði samþykkt og auglýsing um það birt í B-deild Stjórnartíðinda.

5.Umsókn um endurnýjun á lóðarleigusamningi - Hverfisgata 16

Málsnúmer 2406013Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn Helgu Kristínar Einarsdóttur dags. 6.6.2024 þar sem sótt er um endurnýjun lóðarleigusamnings við Hverfisgötu 16, en enginn samningur er í gildi fyrir lóðina. Einnig lögð fram drög að merkjalýsingu fyrir lóðina dags. 10.6.2024.
Samþykkt
Erindi samþykkt.

6.Umsókn um lóð - Suðurgata 85

Málsnúmer 2406016Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn dagsett 10.6.2024 þar sem Guðmundur Örn Magnússon og Helen Hannesdóttir sækja um lóð nr. 85 við Suðurgötu á Siglufirði sem auglýst var laus til úthlutunar frá 10. maí - 10. júní 2024.
Vísað til bæjarráðs
Nefndin leggur til við bæjarráð að umsókn um lóð verði samþykkt enda verði uppbygging á henni í samræmi við deiliskipulag suðurbæjar Siglufjarðar frá 7.5.2024.

7.Lóðarmörk Lindargötu 22 og 24

Málsnúmer 2406008Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Bjargar Sivjar Friðleifsdóttur sem barst tæknideild með tölvupósti þann 5.6.2024 vegna lóðarmarka milli Lindargötu 22 og 24. Einnig lagt fram minnisblað skipulagsfulltrúa dags. 11.6.2024.
Eins og fram kemur í framlögðu minnisblaði skipulagsfulltrúa, þurfa eigendur Lindargötu 22 og 24 að sækja um endurnýjun lóðarleigusamninga fyrir lóðirnar. Í þeirri vinnu verða teiknuð upp lóðarmörk í samráði við báða aðila og í framhaldinu ætti að vera hægt að reka niður hæla ef þess er óskað. Það er ekki hlutverk sveitarfélagsins að hlutast til um umferðarétt, heldur er það lóðarhafa að komast að samkomulagi um það.

8.Umferdaröryggi Fjallabyggð

Málsnúmer 2405070Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Guðlaugs Magnúsar Ingasonar varðandi hámarkshraða og umferðaröryggi í Ólafsfirði, sem barst með tölvupósti þann 29.5.2024.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Nefndin þakkar fyrir góða ábendingu og tekur undir áhyggjur málsaðila varðandi merkingar og seinagang við afgreiðslu hámarkshraða í þéttbýli Fjallabyggðar. Tæknideild falið að koma erindinu áfram til veghaldara þjóðvegarins og með vísun í bókun máls nr.2302025 verði þetta mál afgreitt svo fljótt sem auðið er.

9.Hámarkshraði í þéttbýli Fjallabyggðar

Málsnúmer 2302025Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Vegagerðinni dags. 18.6.2024, þar sem tillögum vegna hámarkshraða í þéttbýli Fjallabyggðar sem samþykktar voru af bæjarstjórn þann 13.september 2023, er hafnað. Einnig lagðar fram tillögur umferðadeildar Vegagerðarinnar að hámarkshraða um þjóðvegi í þéttbýlum Fjallabyggðar.
Á 302.fundi skipulags- og umhverfisnefndar var lögð fyrir nefndina tillaga tæknideildar, unnin í samvinnu við Vegagerðina, þar sem samþykkt var að lækka hámarkshraða þjóðvega í gegnum þéttbýli Fjallabyggðar niður í 30 km/klst. Með þessu samþykkti nefndin að gera umferðaröryggi í íbúagötum jafnt undir höfði, hvort sem þær flokkist sem þjóðvegur í þéttbýli eða ekki - enda enginn eðlismunur þar á í daglegu amstri íbúa sveitarfélagsins. Í tvígang á þessu ári hefur umferð um Öxnadalsheiði verið beint í gegnum Fjallabyggð og styrkir það enn frekar afstöðu nefndarinnar.

Ljóst ef af erindum sem nefndinni hefur borist að langlundargeð íbúa gagnvart afgreiðslu hámarkshraða í sveitarfélaginu er að þrotum komið og skorast nefndin ekki undan þeirri ábyrgð sem hún ber á seinagangi þeirrar afgreiðslu. Tillaga umferðadeildar Vegagerðarinnar sem nú lítur skyndilega dagsins ljós, án rökstuðnings, er þó ekki í samræmi við það sem þegar hefur verið lagt fyrir nefndina og samþykkt, er ekki í takt við daglega notkun eða nærumhverfi þjóðvegarins, og síst til þess fallinn að hægt sé að ljúka málinu hratt og örugglega.

Nefndin ítrekar fyrri afgreiðslu málsins og hvetur umferðadeild Vegagerðarinnar til að endurskoða afstöðu sína og samþykkja áður framlagða uppdrætti svo hægt sé að nýta framkvæmdir sumarsins til að ljúka skiltun og öðrum nauðsynlegum umferðaröryggisaðgerðum fyrir upphaf næsta skólaárs.

10.Aðgangur að teikningasafni bygginga í Fjallabyggð

Málsnúmer 2405072Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Borgars Erlendssonar f.h. Kozmoz ehf. sem barst með tölvupósti þann 27. maí sl. Í erindinu er óskað eftir aðgangi að rafrænu teikningasafni bygginga í Fjallabyggð sem nú þegar eru aðgengilegar á kortasjá sveitarfélagsins.
Samþykkt
Erindi samþykkt.

11.Endurskoðun reglna um úthlutun lóða í Fjallabyggð

Málsnúmer 2310001Vakta málsnúmer

Lagðar fram óverulegar breytingar á reglum um úthlutun lóða í Fjallabyggð.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar.

12.Umsókn um stöðuleyfi

Málsnúmer 2405062Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn dags. 24.5.2024 þar sem Ómar Óskarsson sækir um stöðuleyfi fyrir tvo 20 ft. gáma fyrir smábátaútgerð við gámasvæðið hjá Óskarsbryggju.
Samþykkt
Nefndin samþykkir stöðuleyfið sem er veitt til 12 mánaða í senn og hvetur stöðuleyfishafa til að ganga snyrtilega um.

13.Bleyta í lóð við Fossveg 31

Málsnúmer 2304050Vakta málsnúmer

Tekið fyrir málefni Fossvegar 31 vegna bleytu í lóð.
Afgreiðslu frestað
Málið er enn í vinnslu tæknideildar og verður tekið fyrir á næsta fundi nefndarinnar. Afgreiðslu frestað.

14.Umsókn um stöðuleyfi fyrir geymsluskýli við Hvanneyrarbraut 24

Málsnúmer 2406041Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn um stöðuleyfi fyrir geymsluskýli við Hvanneyrarbraut 24 sem notað verður til geymslu á efni og vinnslu við endurnýjun hússins. Skýlið verður við vesturvegg hússins, 5,4 m á lengd og 2,3 m á breidd.
Samþykkt
Nefndin samþykkir stöðuleyfið sem verður veitt til 12 mánaða.

15.Leiðbeiningar um endurnýtingu úrgangs í fyllingar

Málsnúmer 2406015Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar leiðbeiningar frá Umhverfisstofnun um endurnýtingu úrgangs í fyllingar.
Lagt fram til kynningar

Fundi slitið - kl. 18:00.