Hámarkshraði í þéttbýli Fjallabyggðar

Málsnúmer 2302025

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 302. fundur - 06.09.2023

Samkvæmt 37. gr. umferðarlaga nr.77/2019 skal hámarksökuhraði tilgreindur í heilum tugum að undanteknum hámarksökuhraðanum 15 km á klst. Í þéttbýli Fjallabyggðar er í dag hámarksökuhraði 35 km á klst.
Lögð fram tillaga tæknideildar að hámarkshraða í þéttbýli Fjallabyggðar. Tillagan er unnin samkvæmt bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 7.desember sl. þar sem lýst var yfir áhuga hjá Fjallabyggð að færa hámarkshraða á öllum þjóðvegum í þéttbýlinu í 30 km/klst. Einnig var tillagan borin undir og unnin í samvinnu við Vegagerðina sem er veghaldari þjóðvega landsins.
Samþykkt
Nefndin samþykkir framlagða tillögu og felur tæknideild að hrinda henni í framkvæmd svo fljótt sem auðið er.

Helgi Jóhannsson situr hjá undir þessum lið.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 312. fundur - 19.06.2024

Lagður fram tölvupóstur frá Vegagerðinni dags. 18.6.2024, þar sem tillögum vegna hámarkshraða í þéttbýli Fjallabyggðar sem samþykktar voru af bæjarstjórn þann 13.september 2023, er hafnað. Einnig lagðar fram tillögur umferðadeildar Vegagerðarinnar að hámarkshraða um þjóðvegi í þéttbýlum Fjallabyggðar.
Á 302.fundi skipulags- og umhverfisnefndar var lögð fyrir nefndina tillaga tæknideildar, unnin í samvinnu við Vegagerðina, þar sem samþykkt var að lækka hámarkshraða þjóðvega í gegnum þéttbýli Fjallabyggðar niður í 30 km/klst. Með þessu samþykkti nefndin að gera umferðaröryggi í íbúagötum jafnt undir höfði, hvort sem þær flokkist sem þjóðvegur í þéttbýli eða ekki - enda enginn eðlismunur þar á í daglegu amstri íbúa sveitarfélagsins. Í tvígang á þessu ári hefur umferð um Öxnadalsheiði verið beint í gegnum Fjallabyggð og styrkir það enn frekar afstöðu nefndarinnar.

Ljóst ef af erindum sem nefndinni hefur borist að langlundargeð íbúa gagnvart afgreiðslu hámarkshraða í sveitarfélaginu er að þrotum komið og skorast nefndin ekki undan þeirri ábyrgð sem hún ber á seinagangi þeirrar afgreiðslu. Tillaga umferðadeildar Vegagerðarinnar sem nú lítur skyndilega dagsins ljós, án rökstuðnings, er þó ekki í samræmi við það sem þegar hefur verið lagt fyrir nefndina og samþykkt, er ekki í takt við daglega notkun eða nærumhverfi þjóðvegarins, og síst til þess fallinn að hægt sé að ljúka málinu hratt og örugglega.

Nefndin ítrekar fyrri afgreiðslu málsins og hvetur umferðadeild Vegagerðarinnar til að endurskoða afstöðu sína og samþykkja áður framlagða uppdrætti svo hægt sé að nýta framkvæmdir sumarsins til að ljúka skiltun og öðrum nauðsynlegum umferðaröryggisaðgerðum fyrir upphaf næsta skólaárs.