Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri tók til máls og kynnti helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2024-2027:
Fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun 2025-2027 með hér lögð fram með áorðnum breytingum á milli umræðna.
Ég vil því byrja á því að þakka bæjarfulltrúum, forstöðumönnum hjá sveitarfélaginu og deildarstjórum fyrir þá miklu og góðu vinnu sem þeir hafa lagt að mörkum við gerð þeirrar fjárhagsáætlunarinnar sem hér er lögð fram. Áætlunin var unnin í samvinnu allra flokka í bæjarstjórninni sem sýnir að bæjarfulltrúar eru tilbúnir til að bera sameiginlega ábyrgð á fjármálum bæjarins.
Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram sýnir að aðhalds verður gætt í rekstri á komandi ári og grunnur lagður að enn frekari uppbyggingu á komandi árum á margvíslegum sviðum. Fjárhagsáætluninni er ætlað að vera leiðarljós okkar sem berum ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins og grundvöllur þess að viðeigandi fjárheimildir séu til staðar til að rekstur Fjallabyggðar gangi eðlilega fyrir sig. Því er afar mikilvægt að vandað sé til verka við áætlunargerðina, að áætlunin sé raunhæf og að henni sé síðan fylgt vel eftir.
Það er fagnaðarefni hve staða Fjallabyggðar er sterk, skuldir litlar og innviðir öflugir. Fjallabyggð er í hópi þeirra 8 sveitarfélaga á landinu sem skulda minnst. Því sjáum við fram á meira bolmagn til uppbyggingar, framkvæmda og viðhalds á næstu árum.
Gerð fjárhagsáætlunar er alls ekki einfalt verk og óvissuþættirnir eru margir. Til að mynda fór verðbólga ársins 2023 töluvert fram úr spám Hagstofunnar og hefur verið í kringum 9% á árinu. Því munu þjónustugjöld Fjallabyggðar almennt hækka um 6% á árinu 2024. Útsvarsprósentan helst óbreytt á milli ára þ.e. 14,7%, en þó með fyrirvara um breytingar á lögum frá Alþingi um útsvarsprósentur sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks. Álagningarhlutföll fasteignaskatta á íbúðar- og atvinnuhúsnæði, lóðaleigu, vatns- og fráveitugjalda eru einnig óbreytt milli ára.
Annar stór óvissuþáttur á næsta ári er launakostnaður þar sem flestir kjarasamningar eru lausir í lok mars. En stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins er fólgin í launum. Laun og launatengd gjöld samstæðunnar munu nema 2.420 m.kr. á árinu 2024 eða 55,8% af rekstrartekjum. Launakostnaður eykst þar með um 273 milljónir á milli ára miðað við útkomuspá 2023. Hjá Fjallabyggð starfa nú 251 einstaklingar í 186 stöðugildum.
Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar
Rekstrarafkoma samstæðunnar, fyrir afskriftir og fjármagnsliði, er áætluð jákvæð um 279 m.kr.
Rekstrartekjur A- og B-hluta 2024 verða 4.255 m.kr., þar af eru tekjur A-hluta 3.504 m.kr.
Rekstrargjöld A- og B-hluta vegna ársins 2024 eru áætluð 4.026 m.kr., þar af eru rekstrargjöld A-hluta 3.387 m.kr.
Rekstrarniðurstaða samstæðu A- og B- hluta er jákvæð um kr. 5,6 m.kr. Árið 2025 er hún jákvæð um kr. 55.393.000, árið 2026 um kr. 70.028.0000 og árið 2027 kr. 93.177.000. Rekstrarniðurstaða A-hluta er neikvæð um kr. 19.609.000 árið 2024.
Eignir Fjallabyggðar eru áætlaðar í árslok 2024, 6.982 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 6.224 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2.556 m.kr. Þar af hjá A-hluta 2.662 m.kr. Eigið fé er áætlað 4.415 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 63,2%. Eigið fé A-hluta er áætlað 3.581 m.kr. og eiginfjárhlutfall 57,4%.
Skuldaviðmið Fjallabyggðar samkvæmt reglugerð 502/2012 verður samkvæmt áætlun 24,7%.
Vaxtaberandi langtímaskuldir árslok 2024 eru áætlaðar 79,9 milljónir, en verða 55,5 milljónir í árslok 2027.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 297 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 429 m.kr. Handbært fé í árslok 2024 er áætlað 267 m.kr.
Framkvæmdir og viðhald eigna
Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir 349 m.kr. fjárfestingum á árinu 2024 sem verða fjármagnaðar með eigin fjármunum.
Átakið Fegrum Fjallabyggð var haldið á sl. ári, þar sem íbúar kusu um þau verkefni sem þeir vildu að farið yrði í. Fyrir valinu urðu 5 verkefni. Í ár var lokið við að setja upp mini golfvöll á Ólafsfirði og endurbæta leiksvæðin við Fossveg og Laugarveg á Siglufirði. Á næsta ári verður síðan sett upp aparóla á Ólafsfirði og bryggja við tjörnina sunnan við Eyrarflöt á Siglufirði.
Síðast liðið haust var akstursþjónusta félagsþjónustunnar sett á fót, sem bætir til muna þjónustu við skjólstæðinga félagsþjónustunnar og eldri borgara.
Einnig var lokið við myndarlega tölvuvæðingu á unglingastigi grunnskólans.
Komin er fram skýr forgangsröðun varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í kjölfar stefnumótunarvinnu starfshóps þar um. Vinna hópsins byggir á aðkomu fjölmargra aðila úr samfélaginu og var mjög góður samhljómur um þá forgangsröðun sem fram kom í stefnuskjali hópsins.
Farið var í umfangsmikla gatnagerð við Vallarbraut og Eyrarflöt á Siglufirði þar sem nú má sjá nýjar íbúðabyggingar rísa. Ráðist var í endurnýjun á íbúð á Sambýlinu, auk endurbóta á Skálarhlíð. Þá voru lagðir nýir göngu- og hjólastígar við þjóðveg í þéttbýli í Ólafsfirði. Lokið var við að LED-væða götulýsingu í Fjallabyggð. Frístundabryggja var reist við Hornbrekkubót í Ólafsfirði og miklar framkvæmdir hafa einnig verið við innri höfnina á Siglufirði þar sem búið er að reka niður nýtt stálþil og steypa bryggjukant.
Í fjárhagsáætlun 2024 er gert ráð fyrir stórauknu fé, eða um 190 milljónum, til viðhalds mannvirkja enda er mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf mannvirkja í bæjarfélaginu.
Ýmis verkefni
Hvað varðar ýmis önnur verkefni er vert að nefna að sveitarfélagið hefur verið að styðja mjög vel við ýmsa menningartengda starfsemi enda er gaman að sjá hve menningin blómstrar í sveitarfélaginu. Í fjárhagsáætlun 2024 er gert ráð fyrir sömu fjárhæðum áfram í heildarstuðning, en ljóst er að ekki er hægt að verða við öllum umsóknum um fjárstuðning þar sem miklu fleiri umsóknir bárust um styrki fyrir næsta ár en verið hefur undanfarin ár.
Það hefur orðið talsverð fólksfjölgun í sveitarfélaginu, frá síðasta ári hefur íbúum Fjallabyggðar fjölgað um 32 einstaklinga. Þessi fjölgun hefur einnig skilað sér í fjölgun nemenda í leik- og grunnskóla og unnið er að lausnum í húsnæðismálum í samstarfi við stjórnendur og starfsfólk skólanna.
Ég vil þakka starfsfólki Fjallabyggðar fyrir óeigingjarnt starf í þágu sveitarfélagsins og bæjarstjórn allri fyrir traust og gott samstarf á árinu sem nú fer senn að renna sitt skeið á enda.
Ég vil að lokum óska bæjarfulltrúum og fjölskyldum þeirra, starfsfólki bæjarins og öllum íbúum Fjallabyggðar hamingjuríkrar jólahátíðar og farsældar á komandi árum.
Guðjón M. Ólafsson, Helgi Jóhannsson, Tómas Atli Einarsson og S. Guðrún Hauksdóttir tóku til máls.
Samþykkt