Fjárhagsáætlun 2024-2027 - Tillaga að fjárhagsáætlun

Málsnúmer 2310067

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 810. fundur - 03.11.2023

Tillaga að fjárhagsáætlun 2024-2027 lögð fram, ásamt greinargerð.
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir að vísa tillögu að fjárhagsáætlun 2024 til umfjöllunar og afgreiðslu fastanefnda. Tillögunni er einnig vísað til fyrri umræðu bæjarstjórnar þann 27. nóvember næstkomandi og beinir bæjarráð því til formanna nefnda og deildarstjóra að nefndirnar ljúki umfjöllun og afgreiðslum sínum fyrir 17. nóvember.

Stjórn Hornbrekku - 37. fundur - 06.11.2023

Tillaga að fjárhagsáætlun ársins 2024 fyrir hjúkrunarheimilið Hornbrekku lögð fram til kynningar ásamt rekstrarreikning rammaáætlunar 2024.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Stjórn Hornbrekku felur deildarstjóra félagsmáladeildar, deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála og hjúkrunarforstjóra að vinna að tillögum til að bregðast við fyrirsjáanlegum rekstrarhalla heimilisins og leggja þær fyrir bæjarráð.

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar - 101. fundur - 09.11.2023

Tillaga að fjárhagsáætlun 2024 kynnt og rædd.
Lagt fram til kynningar
Tillaga að fjárhagsáætlun 2024 fyrir markaðs- og menningarmál lögð fram til kynningar.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 132. fundur - 13.11.2023

Tillaga að fjárhagsáætlun fræðslumála fyrir árið 2024 til umræðu og kynningar.
Lagt fram til kynningar
Undir þessum lið sátu Kristín María Hlökk Karlsdóttir skólastjóri Leikskóla Fjallabyggðar, Ása Björk Stefánsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar og Svala Júlía Ólafsdóttir fulltrúi foreldra í grunnskólanum.
Tillaga að fjárhagsáætlun 2024 fyrir fræðslumál lögð fram til kynningar.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 133. fundur - 14.11.2023

Tillaga að fjárhagsáætlun fyrir málaflokkinn frístundamál, lögð fram til umræðu og kynningar.
Lagt fram til kynningar
Undir þessum lið sat Skarphéðinn Þórsson forstöðumaður íþróttamannvirkja.
Tillaga að fjárhagsáætlun 2024 fyrir frístundamál kynnt og rædd.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 305. fundur - 15.11.2023

Lögð fram til kynningar tillaga að fjárhagsáætlun málaflokka 07, 08, 09, 10, 11, 31, 33 og 65 ásamt rekstrarreikning málaflokkanna.
Lagt fram til kynningar

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 150. fundur - 16.11.2023

Lagt fram til kynningar
Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun Félagsþjónustu Fjallabyggðar fyrir árið 2024.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 141. fundur - 16.11.2023

Tillaga að fjárhagsáætlun 2024 fyrir Fjallabyggðarhafnir kynnt og rædd.
Hafnarstjóri fór yfir fjárhagsáætlun 2024 og hún lögð fram til kynningar. Hafnarstjórn telur mikilvægt að áætlun um tekjur sé stillt í hóf þar sem forsendur hafa breyst og fyrirséður landaður afli í Fjallabyggð verður minni en á fyrri árum.
Hafnarstjóra falið að koma ábendingum hafnarstjórnar á framfæri til bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 236. fundur - 27.11.2023

Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri tók til máls og kynnti fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2024.

Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2024 og þriggja ára áætlunar fyrir árin 2025 til 2027 er hér með lögð fram. Hún er unnin samkvæmt fyrirmælum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er Aðalsjóður auk Þjónustumiðstöðvar og Eignasjóðs. Í B-hluta eru Veitustofnun, Hafnarsjóður, Íbúðasjóður og Hornbrekka, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð bæjarfélagsins. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.

Framlögð áætlun byggir á eftirfarandi meginforsendum:
1.
Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára þ.e. 14,70%.
2.
Hækkun útsvarstekna er áætluð 7%.
3.
Álagningarhlutföll fasteignaskatta, lóðarleigu, vatns- og fráveitugjalda eru óbreytt milli ára.
4.
Sorphirðugjöld hækka í kr. 73.700 úr kr. 51.600 kr. í kjölfar nýrra laga um úrgangsmál sem tóku gildi á árinu, með breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, meðhöndlun úrgangs og úrvinnslugjalds.
5.
Þjónustugjöld hækka um áætlaða verðlagsþróun þ.e. 6%.
6.
Varðandi launakostnað er talsverð óvissa þar sem flestir kjarasamningar eru lausir í lok mars. En í áætluninni er tekið mið af gildandi kjarasamningum auk þess sem gert er ráð fyrir 6% hækkun á launum að jafnaði.
7.
Afsláttur af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum hækkar, og verður að hámarki kr. 90.000.
8.
Tekjumörk fyrir afslætti hækka í samræmi við launavísitölu.
9.
Frístundastyrkur fyrir börn á aldrinum 4 - 18 ára hækkar í kr. 47.500 úr kr. 45.000.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 gera ráð fyrir að rekstrartekjur Fjallabyggðar nemi 4.338 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A hluta áætlaðar 3.560 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 4.059 m.kr., þar af A-hluti 3.424 m.kr.

Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 279 m.kr. Afskriftir nema 213 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur 10 m.kr. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 56 m.kr. Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 136 m.kr. Afskriftir nema 155 m.kr. Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld nema 18,7 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð neikvæð um 550 þúsund kr.

Eignir Fjallabyggðar eru áætlaðar í árslok 2024, 6.982 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 6.224 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2.556 m.kr. Þar af hjá A-hluta 2.662 m.kr. Eigið fé er áætlað 4.415 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 63,2%. Eigið fé A-hluta er áætlað 3.581 m.kr. og eiginfjárhlutfall 57,4%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 297 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 429 m.kr.

Skuldaviðmið Fjallabyggðar samkvæmt reglugerð 502/2012 verður samkvæmt áætlun 24,7%.
Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir 329 m.kr. fjárfestingum.

Helstu niðurstöður áætlunar fyrir árin 2025-2027 hvað samstæðuna varðar eru að áætlaðar tekjur 2025 eru 4.550 m.kr., fyrir árið 2026 4.743 m.kr. og fyrir árið 2027 4.930 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er áætluð jákvæð fyrir árið 2025 um 80 m.kr., fyrir árið 2026 um 110 m.kr. og fyrir árið 2027 um 145 m.kr. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2025 verði 457 m.kr., fyrir árið 2026 verði það 481 m.kr. og fyrir árið 2027 verði það 500 m.kr.

Sveitarfélagið stendur vel fjárhagslega, skuldaviðmið er lágt og langt undir opinberum viðmiðunarmörkum.

Samráðshópur um stefnumótun og framtíðarsýn íþróttamála í Fjallabyggð hefur nýlokið störfum og lagt fram metnaðarfullt stefnuskjal, þar sem markmið til næstu ára eru sett fram ásamt forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Fólksfjölgun hefur átt sér stað í Fjallabyggð, frá sama tíma og á síðasta ári hefur bæjarbúum fjölgað um 46 einstaklinga og fjölgun nemenda hefur átt sér stað bæði í leik- og grunnskóla. Atvinnustig er gott og það er einstaklega ánægjulegt að sjá nýbyggingar rísa í sveitarfélaginu.

Í heild eru spennandi uppbyggingartímar hér í Fjallabyggð og framtíðin er björt.
Ég hlakka til að takast á við þau ótal mörgu spennandi verkefni sem framundan eru hjá sveitarfélaginu í góðri samvinnu við kjörna fulltrúa, starfsfólk sveitarfélagsins og íbúa.

Guðjón M. Ólafsson, Helgi Jóhannsson og S. Guðrún Hauksdóttir tóku til máls.
Samþykkt
Bæjarstjórn samþykkir með 7 atkvæðum að vísa fjárhagsáætlun 2024 og 2025-2027, til frekari umfjöllunar í bæjarráði og síðari umræðu í bæjarstjórn.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 813. fundur - 04.12.2023

Lagt fram minnisblað deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar um tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun 2024-2027 fyrir seinni umræðu um áætlunina í bæjarstjórn.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Bæjarráð þakkar deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála fyrir samantektina. Ljóst er m.v. samantektina og fram komnar uppfærðar upplýsingar frá fyrstu umræðu bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun 2024 að áætluð rekstrarniðurstaða ársins 2024 er orðin lakari, þ.e. áætluð rekstrarniðurstaða A- og B-hluta bæjarsjóðs lækkar sem nemur kr. 52 m.kr. og er þannig áætluð jákvæð um kr. 3,5 m.kr. Bæjarráð vekur athygli bæjarstjórnar á því að svigrúm til frávika á árinu 2024 er orðið mjög takmarkað og því mega frávik frá áætluninni í raun vera óveruleg.

Í ljósi umræðu um gjaldskrár sveitarfélaga í tengslum við kjarasamningagerð þá vekur bæjarráð athygli bæjarstjórnar á því að ekki er svigrúm til þess að halda hækkunum á gjaldskrám innan 2,5%. Bæjarráð leggur því til að bæjarstjórn haldi sig við þá tillögu sem samþykkt var við fyrstu umræðu fjárhagsáætlunar 2024. Bæjarráð telur engu að síður nauðsynlegt að sveitarfélögin móti sér heildstæða stefnu um gjaldskrárhækkanir í tengslum við kjarasamninga og verði tilbúin að leggja sitt lóð á vogarskálarnar við að tryggja samninga til lengri tíma.

Töluverð óvissa er í hagkerfinu nú um stundir og munu sveitarfélögin ekki fara varhluta af því. Því er mikilvægt að bregðast við áður til þess að hafa borð fyrir báru ef aðstæður þróast til verri vegar. Fjárhagur Fjallabyggðar er sterkur og því mikilvægt að tryggja að svo verði áfram. Bæjarráð beinir því til bæjarstjórnar að mikilvægt sé að hefja umræðu um hvernig best sé staðið að vinnu við skoðun á þjónustuframboði og rekstri samhliða endurskoðun á samþykktum sveitarfélagsins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 814. fundur - 08.12.2023

Lagt er fram frumvarp að fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun 2025-2027 með áorðnum breytingum á milli umræðna.

Helstu niðurstöður;
Rekstrarniðurstaða Samstæðu A- og B- hluta er jákvæð um kr. 5.666.000. Árið 2025 er hún jákvæð um kr. 55.393.000, árið 2026 um kr. 70.028.0000 og árið 2027 kr. 93.177.000.
Rekstrarniðurstaða A-hluta er neikvæð um kr. 19.609.000 árið 2024.
Fjárfestingar og framkvæmdir Samstæðu A- og B- hluta eru kr. 349.050.000 og árin 2025-2027 kr. 1.155.000.000. Áætlaðar framkvæmdir og fjárfestingar 2024-2027 eru kr. 1.504.050.000.
Áætlað er að allar framkvæmdir verði fjármagnaðar með veltufé frá rekstri. Því er ekki gert ráð fyrir lántöku á tímabilinu.
Veltufé frá rekstri fyrir Samstæðuna A- og B- hluta árið 2024 er áætlað kr. 414.842.000 og handbært fé frá rekstri kr. 359.312.000.
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum frumvarp að fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun 2025-2027 eins og það liggur fyrir og vísar því til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Hvað varðar fjárfestingaáætlun sveitarfélagsins þá beinir bæjarráð til bæjarstjórnar að lögð verði áhersla á forvinnu stærri verkefna næstu ára og tryggja þannig að undirbúningur verði vandaður. Áhersla næsta árs ætti því að vera á smærri verkefni og verkefni sem eru tilbúin til útboðs.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 237. fundur - 14.12.2023

Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri tók til máls og kynnti helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2024-2027:
Fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun 2025-2027 með hér lögð fram með áorðnum breytingum á milli umræðna.
Ég vil því byrja á því að þakka bæjarfulltrúum, forstöðumönnum hjá sveitarfélaginu og deildarstjórum fyrir þá miklu og góðu vinnu sem þeir hafa lagt að mörkum við gerð þeirrar fjárhagsáætlunarinnar sem hér er lögð fram. Áætlunin var unnin í samvinnu allra flokka í bæjarstjórninni sem sýnir að bæjarfulltrúar eru tilbúnir til að bera sameiginlega ábyrgð á fjármálum bæjarins.
Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram sýnir að aðhalds verður gætt í rekstri á komandi ári og grunnur lagður að enn frekari uppbyggingu á komandi árum á margvíslegum sviðum. Fjárhagsáætluninni er ætlað að vera leiðarljós okkar sem berum ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins og grundvöllur þess að viðeigandi fjárheimildir séu til staðar til að rekstur Fjallabyggðar gangi eðlilega fyrir sig. Því er afar mikilvægt að vandað sé til verka við áætlunargerðina, að áætlunin sé raunhæf og að henni sé síðan fylgt vel eftir.
Það er fagnaðarefni hve staða Fjallabyggðar er sterk, skuldir litlar og innviðir öflugir. Fjallabyggð er í hópi þeirra 8 sveitarfélaga á landinu sem skulda minnst. Því sjáum við fram á meira bolmagn til uppbyggingar, framkvæmda og viðhalds á næstu árum.
Gerð fjárhagsáætlunar er alls ekki einfalt verk og óvissuþættirnir eru margir. Til að mynda fór verðbólga ársins 2023 töluvert fram úr spám Hagstofunnar og hefur verið í kringum 9% á árinu. Því munu þjónustugjöld Fjallabyggðar almennt hækka um 6% á árinu 2024. Útsvarsprósentan helst óbreytt á milli ára þ.e. 14,7%, en þó með fyrirvara um breytingar á lögum frá Alþingi um útsvarsprósentur sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks. Álagningarhlutföll fasteignaskatta á íbúðar- og atvinnuhúsnæði, lóðaleigu, vatns- og fráveitugjalda eru einnig óbreytt milli ára.
Annar stór óvissuþáttur á næsta ári er launakostnaður þar sem flestir kjarasamningar eru lausir í lok mars. En stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins er fólgin í launum. Laun og launatengd gjöld samstæðunnar munu nema 2.420 m.kr. á árinu 2024 eða 55,8% af rekstrartekjum. Launakostnaður eykst þar með um 273 milljónir á milli ára miðað við útkomuspá 2023. Hjá Fjallabyggð starfa nú 251 einstaklingar í 186 stöðugildum.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar
Rekstrarafkoma samstæðunnar, fyrir afskriftir og fjármagnsliði, er áætluð jákvæð um 279 m.kr.
Rekstrartekjur A- og B-hluta 2024 verða 4.255 m.kr., þar af eru tekjur A-hluta 3.504 m.kr.
Rekstrargjöld A- og B-hluta vegna ársins 2024 eru áætluð 4.026 m.kr., þar af eru rekstrargjöld A-hluta 3.387 m.kr.
Rekstrarniðurstaða samstæðu A- og B- hluta er jákvæð um kr. 5,6 m.kr. Árið 2025 er hún jákvæð um kr. 55.393.000, árið 2026 um kr. 70.028.0000 og árið 2027 kr. 93.177.000. Rekstrarniðurstaða A-hluta er neikvæð um kr. 19.609.000 árið 2024.
Eignir Fjallabyggðar eru áætlaðar í árslok 2024, 6.982 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 6.224 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2.556 m.kr. Þar af hjá A-hluta 2.662 m.kr. Eigið fé er áætlað 4.415 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 63,2%. Eigið fé A-hluta er áætlað 3.581 m.kr. og eiginfjárhlutfall 57,4%.
Skuldaviðmið Fjallabyggðar samkvæmt reglugerð 502/2012 verður samkvæmt áætlun 24,7%.
Vaxtaberandi langtímaskuldir árslok 2024 eru áætlaðar 79,9 milljónir, en verða 55,5 milljónir í árslok 2027.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 297 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 429 m.kr. Handbært fé í árslok 2024 er áætlað 267 m.kr.

Framkvæmdir og viðhald eigna
Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir 349 m.kr. fjárfestingum á árinu 2024 sem verða fjármagnaðar með eigin fjármunum.
Átakið Fegrum Fjallabyggð var haldið á sl. ári, þar sem íbúar kusu um þau verkefni sem þeir vildu að farið yrði í. Fyrir valinu urðu 5 verkefni. Í ár var lokið við að setja upp mini golfvöll á Ólafsfirði og endurbæta leiksvæðin við Fossveg og Laugarveg á Siglufirði. Á næsta ári verður síðan sett upp aparóla á Ólafsfirði og bryggja við tjörnina sunnan við Eyrarflöt á Siglufirði.
Síðast liðið haust var akstursþjónusta félagsþjónustunnar sett á fót, sem bætir til muna þjónustu við skjólstæðinga félagsþjónustunnar og eldri borgara.
Einnig var lokið við myndarlega tölvuvæðingu á unglingastigi grunnskólans.
Komin er fram skýr forgangsröðun varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í kjölfar stefnumótunarvinnu starfshóps þar um. Vinna hópsins byggir á aðkomu fjölmargra aðila úr samfélaginu og var mjög góður samhljómur um þá forgangsröðun sem fram kom í stefnuskjali hópsins.
Farið var í umfangsmikla gatnagerð við Vallarbraut og Eyrarflöt á Siglufirði þar sem nú má sjá nýjar íbúðabyggingar rísa. Ráðist var í endurnýjun á íbúð á Sambýlinu, auk endurbóta á Skálarhlíð. Þá voru lagðir nýir göngu- og hjólastígar við þjóðveg í þéttbýli í Ólafsfirði. Lokið var við að LED-væða götulýsingu í Fjallabyggð. Frístundabryggja var reist við Hornbrekkubót í Ólafsfirði og miklar framkvæmdir hafa einnig verið við innri höfnina á Siglufirði þar sem búið er að reka niður nýtt stálþil og steypa bryggjukant.
Í fjárhagsáætlun 2024 er gert ráð fyrir stórauknu fé, eða um 190 milljónum, til viðhalds mannvirkja enda er mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf mannvirkja í bæjarfélaginu.

Ýmis verkefni
Hvað varðar ýmis önnur verkefni er vert að nefna að sveitarfélagið hefur verið að styðja mjög vel við ýmsa menningartengda starfsemi enda er gaman að sjá hve menningin blómstrar í sveitarfélaginu. Í fjárhagsáætlun 2024 er gert ráð fyrir sömu fjárhæðum áfram í heildarstuðning, en ljóst er að ekki er hægt að verða við öllum umsóknum um fjárstuðning þar sem miklu fleiri umsóknir bárust um styrki fyrir næsta ár en verið hefur undanfarin ár.
Það hefur orðið talsverð fólksfjölgun í sveitarfélaginu, frá síðasta ári hefur íbúum Fjallabyggðar fjölgað um 32 einstaklinga. Þessi fjölgun hefur einnig skilað sér í fjölgun nemenda í leik- og grunnskóla og unnið er að lausnum í húsnæðismálum í samstarfi við stjórnendur og starfsfólk skólanna.
Ég vil þakka starfsfólki Fjallabyggðar fyrir óeigingjarnt starf í þágu sveitarfélagsins og bæjarstjórn allri fyrir traust og gott samstarf á árinu sem nú fer senn að renna sitt skeið á enda.
Ég vil að lokum óska bæjarfulltrúum og fjölskyldum þeirra, starfsfólki bæjarins og öllum íbúum Fjallabyggðar hamingjuríkrar jólahátíðar og farsældar á komandi árum.

Guðjón M. Ólafsson, Helgi Jóhannsson, Tómas Atli Einarsson og S. Guðrún Hauksdóttir tóku til máls.
Samþykkt
S Guðrún Hauksdóttir forseti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarstjórnar: Á fundi bæjarráðs þann 04.12 voru lagðar fram breytingartillögur á fjárhagsáætlun 2024-2027 fyrir seinni umræðu um áætlunina í bæjarstjórn, þar sem fram kom að breytingar á milli umræðna skila lakari niðurstöðu en gert var ráð fyrir í upphafi, eða þ.e. áætluð rekstrarniðurstaða A- og B-hluta bæjarsjóðs lækkar sem nemur kr. 52 m.kr. og er þannig áætluð jákvæð um kr. 5,6 m.kr. Þessi lækkun útskýrist mestmegnis vegna aukningar lífeyrisskuldbindinga og lækkunar á áætluðum tekjum hafnarsjóðs.

Framlögð áætlun byggir á eftirfarandi meginforsendum

  • Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára þ.e. 14,70%, og álagningarhlutföll fasteignaskatta á íbúðar- og atvinnuhúsnæði, lóðarleiga, vatns- og fráveitugjöld haldast einnig óbreytt. Fasteignaskattur á opinberu húsnæði samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga verður 1,32%.

  • Hækkun útsvarstekna er áætluð 7%.

  • Þjónustugjöld hækka um áætlaða verðlagsþróun þ.e. 6%.

  • Afsláttur af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum hækkar, og verður að hámarki kr. 90.000, ásamt því að tekjumörk fyrir afslætti hækka í samræmi við launavísitölu.

  • Frístundastyrkur fyrir börn á aldrinum 4 - 18 ára hækkar í kr. 47.500 úr kr. 45.000

  • Gert er ráð fyrir 6% hækkun á launum að jafnaði.


Ljóst er að þrátt fyrir sterka fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og til að tryggja að svo verði áfram, er tími til komin að staldra við og endurskoða þjónustuframboð og rekstur sveitarfélagsins, samhliða endurskoðun á samþykktum sveitarfélagsins. Íbúar sveitarfélagsins hafa notið þess undanfarin ár þegar kemur að gjaldskrá hækkunum að þeim hefur verið stillt í hóf, en nú er svo komið að lítið svigrúm er til þess og því munu allar gjaldskrár hækka um 6% að undanskildu sorphirðugjaldi sem hækkar í kringum 40%, í kjölfar nýrra laga um úrgangsmál sem tóku gildi á árinu.
Í fjárhagsáætluninni er megin áhersla lögð á grunnkerfin okkar, velferðar- og fræðslumál og hefur það verið markmið bæjarstjórnar, í samvinnu við starfsfólk sveitarfélagsins að leita allra leiða til þess að halda óskertu þjónustustigi við íbúana og auka það sem því var við komið.
Hvað varðar framkvæmdir og viðhald eigna á komandi ári, er gert ráð fyrir að fjárfestingageta sveitarfélagsins nemi um 349 milljónum og verða þær fjármagnaðar með handbæru fé. Fjárfestingaráætlanir síðustu ára hafa markast af því að erfitt hefur reynst að raungera stærri fjárfestingar sveitarfélagsins s.s. viðbyggingar við Íþróttamiðstöðina við Hvanneyrarbraut og viðbyggingu við Grunnskólann við Tjarnarstíg. Þá hefur reynst nauðsynlegt að færa ýmis verkefni á milli ára þar sem ekki hefur náðst að fullklára þau innan hvers árs. Því er svo komið að töluverð fjárfestingaþörf hefur safnast upp hjá sveitarfélaginu bæði af minni og stærri verkefnum.
Vegna ofangreinds þá mun töluverð áhersla verða lögð á innri umbætur hjá sveitarfélaginu þegar kemur að framkvæmdum og fjárfestingum. Stofnun starfshóps um fjárfestingar, framkvæmdir og viðhald er ætlað að leiða þá umbótavinnu. Áhersla næsta árs verður á framkvæmdir sem tilbúnar eru til útboðs eða eru hafnar. Næsti áfangi Aðalgötu Ólafsfirði verður boðinn út, en fyrsti áfanginn var boðinn út nú í ár. Þá verður síðasti áfangi Aðalgötu Siglufirði boðinn út og er þá því verkefni lokið. Ljóst er að endurbætur á Skálarhlíð færast yfir til komandi árs og verður haldið áfram að vinnu við endurbætur ásamt því að sameining íbúða heldur áfram. Þá á enn þá eftir að ljúka útlits- og yfirborðsfrágangi vegna verkefna ársins 2023 á Óskarsbryggju, Vallarbraut, Aðalgötu Ólafsfirði og annarra minni verka. Töluverð uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur verið í sveitarfélaginu á árinu og fær sveitarfélagið afhentar 3 íbúðir á næsta ári. Mikil þörf er á landinu og sveitarfélaginu á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og mun Fjallabyggð hefja undirbúning að skipulagsvinnu fyrir nýjar íbúðir í Ólafsfirði ásamt því að áfram verður unnið markvisst að deiluskipulagsmálum í sveitarfélaginu og framboð nýrra lóða þannig tryggt.
Að öðru leyti verður allt kapp lagt á að ljúka hönnunarvinnu á þeim fjölmörgu fjárfestingarverkefnum sem liggja fyrir á næstu árum. Með því að hefja hönnunar- og útboðsundirbúning fyrr, þá næst að auka fyrirsjáanleika í rekstri sveitarfélagsins til framtíðar ásamt því að verkefni eru boðin fyrr út og þá gefst verktökum betri tími til undirbúnings og framkvæmda. Vinna samráðshóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja sýnir að fjölmörg stór fjárfestingaverkefni liggja fyrir á næstu árum og því af nægu að taka.
Sveitarfélagið verður áfram með í sífelldri endurskoðun samsetningu núverandi fasteigna sinna. Á árinu 2023 var Ólafsvegur 4 seldur og verður söluandvirðinu varið til endurbóta og uppbyggingar á húsnæði félags eldri borgara í Ólafsfirði, sem sveitarfélagið tók yfir á árinu í góðri samvinnu við félag eldri borgara í Ólafsfirði. Á árinu verður endurmati á núverandi húsnæðisþörf haldið áfram og t.d. skoðað hvort Aravíti á Siglufirði verði selt eftir að greining á húsnæðisþörf þjónustusviðs hefur farið fram.
Í fjárhagsáætlun 2024 er gert ráð fyrir stórauknu fé, eða tæplega 190 milljónum, til viðhalds mannvirkja enda er mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf mannvirkja í bæjarfélaginu. Til samanburðar fóru 140 milljónir til viðhalds á árinu 2023.
Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er mjög góð og langtímaskuldir einungis um 111 milljónir. Það skiptir verulegu máli að svo sé þegar vextir og verðbólga eru í hærri kantinum um þessar mundir og má segja að Fjallabyggð sé í öfundsverðri stöðu hvað þetta varðar.
Að lokum vill forseti, fyrir hönd bæjarstjórnar, koma á framfæri þökkum til bæjarstjóra, nefndarmanna og starfsmanna sveitarfélagsins fyrir þeirra aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar og ánægjulegs samstarfs og óskar íbúum Fjallabyggðar gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Samþykkt með 7 atkvæðum.

Forseti bæjarstjórnar bar upp eftirfarandi tillögu:
Í ljósi ofangreinds og þess að afkoma A-hluta bæjarsjóðs er áætluð neikvæð um 19 mkr. á árinu 2024 leggur forseti fram tillögu um að framkvæmd verði úttekt á rekstri sveitarfélagsins ásamt þjónustuframboði samhliða samþykktum sveitarfélagsins, og að bæjarráði verði falið að leggja fram tillögu á næsta bæjarstjórnarfund með hvaða hætti og hvernig sú skoðun eigi að fara fram.
Samþykkt með 7 atkvæðum.