Bæjarráð Fjallabyggðar

705. fundur 12. ágúst 2021 kl. 08:00 - 08:45 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
  • S. Guðrún Hauksdóttir formaður, D lista
Starfsmenn
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
  • Elías Pétursson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála

1.Lok ágreinings Fjallabyggðar og Síldarleitarinnar sf. vegna dælubrunns

Málsnúmer 2108009Vakta málsnúmer

Þann 7. apríl sl. kvað Héraðsdómur Norðurlands eystra upp dóm í máli Síldarleitarinnar gegn Fjallabyggð hvar Síldarleitin krafðist þess að Fjallabyggð yrði dæmd til að fjarlægja skolpdælubrunn sem stendur að mestu innan lóðar Síldarleitarinnar. Einnig krafðist Síldarleitin viðurkenningar á rétti til skaðabóta af völdum byggingar og starfrækslu dælubrunnsins og skerðingar á lóðarréttindum. Dómsorð fól í sér að Fjallabyggð var gert að fjarlægja brunninn innan fjögurra mánaða frá uppkvaðningu en gjalda dagsektir ella, einnig var réttur Síldarleitar til skaðabóta viðurkenndur ásamt og að sveitarfélagið var dæmt til að greiða málskostnað að fjárhæð 1,9 millj.kr.

Frá dómsuppkvaðningu hefur bæjarstjóri átt í samtali við forsvarsmenn Síldarleitarinnar og liggur samkomulag fyrir sem felur í sér fulla sátt aðila og uppgjör. Í samkomulaginu er annars vegar kveðið á um bætur að fjárhæð 14.3 millj.kr. og hins vegar samkomulag um skilgreindar umhverfisúrbætur umhverfis dælubrunn og á svæði austan lóðar nr. 16 við Tjarnargötu. Samhliða fyrrgreindu samkomulagi kaupir Fjallabyggð 490² lóðarhluta af Síldarleitinni á 10,9 millj.kr.

Fram er lagður dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra og ósk deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála um viðauka nr. 19/2021 við fjárhagsáætlun 2021 að fjárhæð kr. 14.268.862 sem bókist á deild 65210, lykil 4995 og kr. 10.902.500 sem eignfærast á deild 31410, viðaukanum verður mætt með lækkun á handfæru fé.
Samþykkt
Bæjarráð fagnar því að samkomulag hafi náðst milli aðila og að þar með ljúki þeim deilum sem uppi hafa verið allt frá fyrrihluta árs 2016.

Einnig samþykkir bæjarráð framlagða ósk um viðauka nr. 19/2021 við fjárhagsáætlun 2021 og felur bæjarstjóra og deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála að ljúka málinu í samræmi við ofangreint.

2.Staðgreiðsla tímabils - 2021

Málsnúmer 2101005Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar yfirlit staðgreiðslu fyrir tímabilið janúar til júlí 2021. Staðgreiðsla fyrir tímabilið nemur kr. 720.048.748 eða 105,80% af tímabilsáætlun.
Lagt fram

3.Launayfirlit tímabils - 2021

Málsnúmer 2101006Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar yfirlit launakostnaðar fyrir tímabilið janúar til júlí 2021.
Lagt fram

4.Trúnaðarmál

Málsnúmer 2107044Vakta málsnúmer

Samþykkt
Niðurstaða bæjarráðs færð í trúnaðarbók.

5.Tjaldsvæðahús Ólafsfirði - útboð.

Málsnúmer 2104063Vakta málsnúmer

Fram er lagt minnisblað deildarstjóra tæknideildar dags. 30. júlí 2021. Í minnisblaðinu kemur fram að engin tilboð hafa borist í uppsetningu á nýju aðstöðuhúsi á tjaldsvæði í Ólafsfirði.
Staðfest
Bæjarráð felur deildarstjóra tæknideildar að leita eftir samningum við verktaka á svæðinu og leggja niðurstöðu fyrir bæjarráð.

6.Tillögur stafræns ráðs til sveitarfélaga

Málsnúmer 2101033Vakta málsnúmer

Lögð er fram tillaga bæjarstjóra og deildarstjóra að stafrænum verkefnum sem Fjallabyggð mæli með í könnun í samræmi við tölvupóst Sambands íslenskra sveitarfélaga dags 25. júní 2021. Tillagan er unnin í samræmi við afgreiðslu bæjarráðs á 702. fundi ráðsins.
Lagt fram
Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu og felur deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála að svara könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga.

7.Ársreikningur 2020 - HNV

Málsnúmer 2107047Vakta málsnúmer

Lagður er fram til kynningar ársreikningur Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra vegna 2020.
Lagt fram

8.Berjadagar 2021

Málsnúmer 2107054Vakta málsnúmer

Lagt er fram erindi Ólafar Sigursveinsdóttur dags. 23. júlí 2021 f.h. tónlistarhátíðarinnar Berjadaga. Í erindinu er sveitarfélagið upplýst um að Berjadögum, tónlistarhátíð 2021, hafi verið aflýst vegna stöðu Covid faraldursins. Einnig er þess farið á leit að bæjarráð veiti heimild til nýtingar styrks sveitarfélagsins til greiðslu áfallins kostnaðar.
Vísað til umsagnar
Bæjarráð samþykkir að óska umsagnar deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála.

9.Auglýsing um ákvörðun ráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna

Málsnúmer 2108002Vakta málsnúmer

Fram er lögð auglýsing samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra dags. 30. júlí 2021 er varðar breytingu á sveitarstjórnarlögum sem heimilar sveitarstjórnarfólki að taka þátt með rafrænum hætti á fundum sveitarstjórnar, nefnda og ráða á vegum sveitarfélagsins en að um slíka heimild skuli kveðið í samþykktum sveitarfélagsins. Einnig er tilkynnt að í ljósi þess hve skammt sé síðan lagabreytingin tók gildi og í ljósi þess að enn gilda samkomutakmarkanir , sbr. reglugerð heilbrigðisráðherra um tímabundna takmörkun á samkomum, hafi ráðherra ákveðið að framlengja ákvörðun frá í mars um að veita sveitarstjórnum heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til 1. október 2021.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð felur deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála að vinna tillögu að breyttum samþykktum með það að markmiði að heimila sveitarstjórnarfólki að taka þátt með rafrænum hætti á fundum sveitarstjórnar, nefnda og ráða á vegum sveitarfélagsins. Miða skal við að vinnu við breytingu samþykkta ljúki með gildistöku fyrir 1. október 2021.

10.Snjóflóðavarnir á Siglufirði - 4. áfangi.

Málsnúmer 2012044Vakta málsnúmer

Verkfundargerð 3 lögð fram til kynningar vegna verksins "Installation of avalanche in Siglufjordur" dags. 7.júlí 2021.
Lagt fram

11.Bakkabyggð, gatnagerð

Málsnúmer 1901093Vakta málsnúmer

Lögð er fram til kynningar 7. verkfundargerð verksins, Bakkabyggð Ólafsfirði - gatnagerð og lagnir frá 13. júlí 2021.
Lagt fram

Fundi slitið - kl. 08:45.