Bæjarráð Fjallabyggðar

344. fundur 24. júní 2014 kl. 17:00 - 19:00 í Ráðhúsinu Gránugötu 24 Siglufirði
Nefndarmenn
  • Steinunn María Sveinsdóttir formaður
  • Kristinn Kristjánsson varaformaður
  • S. Guðrún Hauksdóttir aðalmaður
  • Jón Valgeir Baldursson varaáheyrnarfulltrúi
  • Sigurður V Ásbjarnarson bæjarstjóri
  • Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála
Fundargerð ritaði: Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri fjármála- og stjórnsýslu
Formaður bauð nýkjörið bæjarráð ásamt árheyrnarfulltrúa velkomið til fundar ásamt starfsmönnum og óskaði eftir góðu samstarfi.

1.Beiðni um umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi

Málsnúmer 1406035Vakta málsnúmer






Til sýslumannsins á Siglufirði hefur leitað Finnur Ingvi Kristinsson kt. 280279-3159 og óskað eftir útgáfu rekstrarleyfis á grundvelli 11. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, til handa Hannes Boy café, þjónustumiðstöð Rauðku  og Kaffi Rauðku, Gránugötu 19, 23 og 25, 580 Siglufirði.



Sótt er um endurnýjun á rekstrarleyfi veitingastaðar í III, flokki.


Óskað er eftir lengri opnunartíma frá fyrra leyfi, um helgar og aðfaranótt helgidaga eða til kl. 5:00.




Með vísan til 10.  og 13. gr. laga nr. 85/2007, sbr. 21. gr. laganna er þess hér með farið á leit að sveitarstjórn veiti skriflega umsögn um umsóknina og staðfesti að afgreiðslutími og staðsetning staðar sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.



Bæjarráð gerir ekki athugasemd við fram lagða umsókn.


2.Greið leið - aðalfundur 2014

Málsnúmer 1406020Vakta málsnúmer

Boðað var til aðalfundar Greiðrar leiðar ehf. þann 10. júní s.l. en þeim fundi var frestað til 14. ágúst n.k.

Bæjarráð samþykkir að veita bæjarstjóra fullt umboð til að mæta á fundinn f.h. Fjallabyggðar.

3.Kosning fulltrúa á landsþing Sambands íslenkra sveitarfélaga 2014 - 2018

Málsnúmer 1406026Vakta málsnúmer





Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga verður haldið á Akureyri dagana 24.-26. september nk.
Ráðstefnudeild Iceland Travel sér um hótelbókanir vegna ráðstefnunnar.


Bæjarstjóra er falið að sjá um bókanir fyrir réttkjörna fulltrúa Fjallabyggðar. Bæjarstjóri mun einnig taka þátt í fundinum.


Bæjarstjóri lagði fram samþykktir fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga til kynningar fyrir nýkjörna bæjarfulltrúa og voru kjörbréf undirrituð.

4.Sláttur og hirðing

Málsnúmer 1405050Vakta málsnúmer

Sláttur og hirðing á görðum eldri bæjarbúa og öryrkja hófst mánudaginn 23.06.2014.
Þjónustumiðstöð annast utanumhald og hefur þjónustan verið auglýst á heimasíðu bæjarfélagsins.

Bæjarstjóra falið að auglýsa þjónustu bæjarfélagsins í Tunnunni.

5.Kosningar í trúnaðarstöður samkvæmt samþykktum

Málsnúmer 1406011Vakta málsnúmer

Samkvæmt 43. gr. um kosningu og kjörgengi kemur m.a. neðanritað fram.

Kosningar í fastanefndir bæjarstjórnar, nefndir fyrir hluta sveitarfélags, nefndir til að fara með einstök verkefni eða málaflokka og aðrar nefndir og stjórnir sem sveitarfélag á aðild að, skulu vera leynilegar og hlutfallskosningar ef þess er óskað. Framkvæmd kosninga skal þá vera í samræmi við ákvæði 44. og 45. gr. sveitarstjórnarlaga. Ef ekki er kosið hlutfallskosningu til nefndar, sbr. 1. mgr. 43. gr., sveitarstjórnarlaga, skal bæjarstjórn gæta þess að fullnægja kröfum um kynjahlutfall skv. 2. tölul. 44. gr. laganna við skipun í viðkomandi nefnd. Sjá og sveitarstjórnarlög.

Nýkjörið bæjarráð leggur til að nefndarkjör verði lagfært í samræmi við lög og samþykktir bæjarfélagsins um kynjahlutfall sjá ofanritað.
Bæjarráð leggur til að minnihluti D-lista og meirihluti S-lista og F-lista leggi fram breytingar á fundi bæjarstjórnar eins fljótt og kostur er.


Um er að ræða neðantaldar nefndir.  
Hafnarstjórn, félagsmálanefnd, markaðs- og menningarnefnd, fræðslu- og frístundanefnd og skipulags- og umhverfisnefnd.


Samþykkt samhljóða.

6.Umferðaröryggi skólabarna í Fjallabyggð

Málsnúmer 1406008Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð aðalfundar Foreldrafélags Grunnskóla Fjallabyggðar frá 20. maí s.l. Fundarmenn skora á bæjaryfirvöld að ljúka uppsetningu stoppistöðvar við Aðalgötu í Ólafsfirði fyrir næsta skólaár.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að sjá um að umræddum framkvæmdum verði lokið á tilsettum tíma. Áætlaður kostnaður er um 1,2 m.kr.  Framkvæmdin kallar á viðauka í áætlun ársins og er bæjarstjóra falið að útfæra viðaukann sjá 14. mál, viðauka 4.

Bæjarstjóri lagði fram til kynningar umferðaröryggisáætlun Fjallabyggðar.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að taka saman fyrir næsta fund kostnað við frágang á þeim stoppistöðvum sem umferðaröryggisáætlun bæjarfélagsins tekur til.

7.Nýtt starf hafnarvarðar

Málsnúmer 1405046Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn um starf hafnarvarðar við hafnir Fjallabyggðar. Ein umsókn barst og er hún frá Kjartani Smára Ólafssyni.

Hafnarstjóri leggur til að Kjartan verði ráðinn enda hefur hann víðtæka reynslu af starfinu þar sem hann hefur leyst hafnarverði á Siglufirði af s.l 13. ár.

8.Styrkumsókn vegna Pæjumóts

Málsnúmer 1406050Vakta málsnúmer

Óskað er eftir styrk í tengslum við skemmtidagskrá á Pæjumóti Sparisjóðsins og Rauðku árið 2014.

Um er að ræða styrkumsókn að upphæð kr. 120.000.-

Bæjarráð samþykkir umræddan styrk, sjá 14. mál, viðaukatillögu 4.

Vakin er athygli á að samkvæmt venju skal sækja um styrki til sveitarfélagsins við gerð fjárhagsáætlunar.

9.Sumarleyfi bæjarstjórnar 2014

Málsnúmer 1406013Vakta málsnúmer

Nokkur umræða var um sumarleyfi bæjarstjórnar og er vísað í 8. gr. samþykkta bæjarfélagsins

Bæjarráð leggur til að fresta sumarfríi bæjarstjórnar þar til annað verður ákveðið.

10.Flugvöllur Siglufirði

Málsnúmer 1402062Vakta málsnúmer

Nokkur umræða hefur verið um Flugvöllinn á Siglufirði að undanförnu og felur bæjarráð bæjarstjóra fullt umboð til að taka upp viðræður um málið við Isavia.

Bæjarstjóri hefur fengið fund með framkvæmdarstjórn Isavia næstkomandi fimmtudag kl. 14.00 í Reykjavík.

11.Tilkynning um fundi bæjarstjórnar og bæjarráðs

Málsnúmer 1406055Vakta málsnúmer

Í 8. gr. samþykkta um stjórn Fjallabyggðar segir um fundi bæjarstjórnar.
"Bæjarstjórn Fjallabyggðar heldur reglulega fundi bæjarstjórnar einu sinni í mánuði að jafnaði til skiptis í fundarsal bæjarstjórnar í Ráðhúsinu á Siglufirði eða í Menningarhúsinu Tjarnarborg Ólafsfirði. Aukafundi skal halda þegar forseti eða bæjarstjóri telur það nauðsynlegt eða ef þriðjungur bæjarfulltrúa óskar þess. Bæjarstjórn er heimilt að fella niður reglulegan fund sinn, enda sé tillaga um slíkt samþykkt mótatkvæðalaust á næsta fundi bæjarstjórnar á undan. Bæjarstjórn er heimilt að fella niður reglulega fundi bæjarstjórnar vegna sumarleyfis".


Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að reglulegir fundi bæjarstjórnar verði annan miðvikudag hvers mánaðar kl. 17.00 eins og verið hefur.

Næsti fundur bæjarstjórnar er hinsvegar boðaður þann 3. júlí n.k. og er þar um undantekningu frá reglulegum fundartíma bæjarstjórnar.


Í 27. grein samþykkta um stjórn Fjallabyggðar segir um fundi bæjarráðs.

"Bæjarráð skal að jafnaði halda fund einu sinni í viku. Bæjarstjórn ákveður fundartíma bæjarráðs í upphafi kjörtímabils.
Aukafundi skal halda ef bæjarstjóri, formaður bæjarráðs eða a.m.k. tveir bæjarráðsmenn óska þess."

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að reglulegir fundi bæjarráðs verði á þriðjudögum kl. 17.00.

12.Breyting á samþykktum um stjórn Fjallabyggðar - Fjallskilanefnd

Málsnúmer 1406054Vakta málsnúmer

Meirihluti bæjarráðs vill kanna hvort vilji sé til að stofna sérstaka fjallskilanefnd þar sem búfénaður í Fjallabyggð hefur aukist á s.l. árum.

Bæjarráð samþykkir að vísa málinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir 2015.

13.Viðaukar við fjárhagsáætlun 2014 og 2015 - 2017

Málsnúmer 1401087Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir framkomnar tillögur um viðauka við fjárhagsáætlun 2014.

1. Sandburður í Ólafsfjarðarvatn, áætlaður kostnaður um kr. 4.500.000.-, sjá fundargerð 340, fundar bæjarráðs

2. Kaup á húsnæði Ólafsfirði kr. 500.000.- sjá fundargerð 343, fundar bæjarráðs

3. Áheyrnarfullttrúar fyrir B-lista en áætlaður kostnaður er um kr. 350.000.-, sjá fundargerð 103, fundar bæjarstjórnar

4. Tillaga um styrk til Pæjumóts kr. 120.000.-, fundargerð 344, fundar bæjarráðs

5. Tillaga um stoppistöð í Ólafsfirði kr. 1.200.000.-, fundargerð 344. fundar bæjarráðs

6. Tillaga um sérstaka Atvinnumálanefnd kr. 300.000.-, fundargerð 344. fundar bæjarráðs

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að setja upp tillögu að viðauka í samræmi við ofanritað fyrir næsta fund bæjarráðs.

14.Úttekt á eignum bæjarfélagsins

Málsnúmer 1406057Vakta málsnúmer

Bæjarráð leggur til að deildarstjóri tæknideildar geri úttekt á eignum bæjarins, viðhaldi og ásýnd, í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar 2015.
Í framhaldi af því verði Skipulags- og umhverfisnefnd falið að vinna aðgerðaáætlun í samvinnu við deildarstjóra tæknideildar.

 

15.Almenningssamgöngur í Fjallabyggð

Málsnúmer 1406058Vakta málsnúmer

Bæjarráð leggur til að skoðaður verði möguleikinn á bættum samgöngum á milli byggðarkjarnanna með tíðari ferðum.
Bæjarstjóra er falið að láta kanna og kostnaðargreina verkefnið.

16.Fjármál sveitarfélaga - bréf til sveitarstjórna

Málsnúmer 1310071Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélags dags. 12. júní 2014 en í bréfinu koma fram ábendingar um fjármál og áætlanir sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar.

17.Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra 2014

Málsnúmer 1401030Vakta málsnúmer

Fundargerð frá Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra frá 13.06.2014 lögð fram til kynningar.

18.Hornbrekka Ólafsfirði - Ársreikningur 2013 og endurskoðunarskýrsla

Málsnúmer 1406036Vakta málsnúmer

Fundargerð stjórnar Hornbrekku lögð fram til kynningar.

Reikningar fyrir árið 2013 sem og endurskoðunarskýrsla lögð fram til kynningar.

Fram kemur í reikningum að rekstrarhalli sé um 750 þúsund fyrir s.l. ár og er handbært fé í árslok um 26,2 m.kr. og hefur lækkað um 3 m.kr á milli ára.

19.Viðhald húsnæðis - ákvörðun aðalfundar húsfélagsins

Málsnúmer 1406019Vakta málsnúmer

Aðalfundur húsfélagsins Aðalgötu 46-58 í Ólafsfirði sem haldin var 17. maí s.l. samþykkti að taka tilboði í þakviðhald raðhússins.
Hlutur minni íbúða (52-58) er áætlaður 613 þús. á íbúð.
Sveitarfélagið á íbúðina nr 52.
Áætlaður kostnaður bæjarfélagsins er kr. 613 þús.

Bæjarráð samþykkir framkvæmdina fyrir hönd Fjallabyggðar.

20.Fasteignamat 2015

Málsnúmer 1406042Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Þjóðskrá Íslands , dags. 13, júní 2014. Þar kemur fram að allar fasteignir skal endurmeta fyrir 31. maí ár hvert. Fasteignamatið hækkar um 7,7% á milli ára að meðaltali en fyrir Fjallabyggð um 7,4 %.

Lagt fram til kynningar og er umræðu vísað til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015.

21.Fundir deildarstjóra Fjallabyggðar 2014

Málsnúmer 1401031Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð deildarstjóra Fjallabyggðar frá 11.06.2014.

Meirihluti bæjarráðs telur rétt að taka nokkur mál til nánari skoðunar á milli funda og þar með til frekari umræðu og ákvarðanatöku á næsta fundi bæjarráðs.
Um er að ræða ábendingar um neðantalin verkefni:

1. Lokafrágang á og að gámasvæði á Siglufirði en áætlaður kostnaður er um 7,8 m.kr.

2. Sameining íbúða í Skálarhlíð, en áætlaður kostnaður er um 7,5 m.kr.

3. Kaup á lausri kennslustofu fyrir leikskóla og er áætlaður kostnaður um 8,5 m.kr.

4. Hönnun á stækkun leikskóla en áætlaður kostnaður er um 1,5 m.kr.

5. Meirihluti bæjarráðs óskar einnig eftir upplýsingum frá tæknideild um kostnað við lagfæringar á vegi að skíðaskálanum í Ólafsfirði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að taka upp viðræður við Samgöngustofu/umferðarsvið um neðantalin málefni fyrir næsta fund í bæjarráði.

1. Nauðsynlegar lagfæringar á þjóðveginum um Ásinn á Siglufirði.

2. Kostnaðarhlutdeild í mokstri á miklum sandburði inn í Ólafsfjarðarvatn en áætlaður kostnaður er orðinn um 5,5 m.kr.

3.Farið verði yfir lagfæringar og framkvæmdir við þjóðveg að og í gegnum Siglufjörð.

4. Farið verði yfir lagfæringar og framkvæmdir við þjóðveg að og í gegnum Ólafsfjörð.

5. Einnig er bæjarstjóra falið að taka upp viðræður um aðkomu að framkvæmdum við veg að skíðaskálanum Ólafsfirði.  

6. Bæjarstjóra er falið að ræða einnig endurbætur á hafnarbryggju á Siglufirði og koma verkefninu á samgönguáætlun.


Bæjarstjóri upplýsti fundarmenn um að hann hafi fengið tvo fundi í vikunni með fulltrúum Samgöngustofu er varðar ofangreind málefni og eru þeir á miðvikudag og fimmtudag.


Bæjarstjóri upplýsti að hann hefur rætt við forstöðumann bókasafns bæjarfélagsins er varðar framkvæmdir við Ólafsveg 4.
Á þeim fundi kom fram hugmynd um aðgerðaráætlun sem miðar að opnun á þjónustu við íbúa strax í haust.


Bæjarráð felur deildarstjóra tæknideildar að kanna kostnað við að opna bókasafn á neðrihæð hússins í lok sumars. Þjónusta við íbúa í Ólafsfirði verði þar með tryggð er varðar bókasafnið og almenna þjónustu.  Forstöðumanni bókasafnsins er falið að miða búnaðaðarkaup fyrir umrædda þjónustu.


Bæjarráð telur þar með rétt að fresta fyrirhuguðu útboði á viðbyggingu við Ólafsveg 4 þar til frekari upplýsingar liggja fyrir.


Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að kanna fyrir næsta fund áætlaðan kostnað við umrædda hugmynd og framkvæmd.

Í ljósi ofanritaðs þ.e. funda með Samgöngustofu og úttektar tæknideildar á Ólafsvegi 4 mun bæjarráð taka til afgreiðslu ofanritaðar framkvæmdir og framkomnar ábendingar á næsta fundi bæjarráðs.

22.Rekstraryfirlit apríl 2014

Málsnúmer 1406028Vakta málsnúmer

Rekstraryfirlit fyrir tímabilið janúar til apríl lagt fram til kynningar.

Rekstrarniðurstaða tímabils er 6,1 m.kr. betri en tímabilsáætlunin gerir ráð fyrir. Tekjurnar eru 3,2 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir, gjöld 9,1 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir og fjármagnsliðir 0,2 m.kr. lægri.

23.Seðlabanki Íslands - breyting reglna um gjaldeyrismál

Málsnúmer 1406056Vakta málsnúmer

Fram hafa komið ábendingar um að störf hér á Siglufirði væru í hættu vegna nýrra lagasetningar um gjaldeyrismál.

Bæjarráð lýsir yfir áhyggjum af stöðu mála.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að rita þingmönnum kjördæmisins bréf er varðar málið og mun bæjarráð fylgjast náið með gangi mála.

Fundi slitið - kl. 19:00.