Átak í afþreyingar- og umhverfismálum í Siglufirði

Málsnúmer 1106092

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 218. fundur - 21.06.2011

Fyrir bæjarráði liggja fimm erindi í tengslum við fund bæjarstjóra með forsvarsmönnum Rauðku, Valló, Báss, Selvíkur og Golfklúbbs Siglufjarðar 16. júní 2011.
Þau eru eftirfarandi:

a) Rauðka óskar eftir viðræðum við Fjallabyggð um viðbótarlóð undir væntanlegt hótel á suðurkanti smábátahafnarinnar í Siglufirði.

b) Rauðka og Valló óska eftir viðræðum við Fjallabyggð um nýjan langtímasamning um rekstur skíðasvæðis í Skarðsdal og aðkomu að byggingu nýs skíðaskála.

c) Rauðka og Selvík óska eftir viðræðum við Fjallabyggð um skipulagsmál við ofanverða Gránugötu í tengslum við kaup Selvíkur á fasteign Egilssíldar ehf.

d) Rauðka og Golfklúbbur Siglufjarðar sækja um land undir golfvöll í Hólsdal.

e) Rauðka og Bás lýsa yfir áhuga á að koma að með Fjallabyggð umbreytingu á landfyllingu sunnan innri hafnar.

Bæjarráð samþykkir að bæjarfulltrúar og nefndarfólk Fjallabyggðar sem getur komið því við, mæti til kynningarfundar um ofangreind erindi, föstudaginn 24. júní kl. 11 í Kaffi Rauðku, Siglufirði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 219. fundur - 28.06.2011

Bæjarráð lýsir ánægju með þann framkvæmdahug sem fram kemur í áformum Rauðku ehf og tengdra aðila.
Bæjarráð samþykkir að hefja viðræður við aðila og leggur hér með fram tillögur sem fyrsta skref í viðræðum á milli aðila.
Bæjarstjóra er falið að boða til fundar um næstu skref.
Bæjarráð vill koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri svo aðilar geri sér ekki óraunhæfar væntingar um fjárhagslega aðkomu sveitarfélagsins. 
Fjallabyggð, eins og önnur sveitarfélög, er bundin af lögum til þess að sinna ákveðnum skyldum og hefur til þess markaða tekjustofna.
Um fjármál sveitarfélaga gilda strangar reglur. Þær er nú verið að þrengja enn frekar.
Bæjarráð vill auk þess benda á samþykkta þriggja ára áætlun sveitarfélagsins, sem aðgengileg er á heimasíðu Fjallabyggðar. Hún hefur ekki að geyma neitt sem tengist umræddum erindum nema hvað varðar golfvallarsvæðið.
Þrátt fyrir það er bæjarfélagið tilbúið til þess að beita tiltækum úrræðum s.s. í skipulagsmálum svo ná megi árangri í atvinnu- umhverfis- og afþreyingarmálum. Bæjarráð mun vísa neðanrituðum áformum Rauðku ehf. og tengdra aðila til fagnefnda 

A. Svar vegna máls nr. 1106092. Byggingaráform um Hótel.
Í erindi segir : "Á næstu vikum líkur fyrsta áfanga í uppbyggingu Rauðku ehf. Annar áfangi hefur verið í undirbúningi síðustu mánuði. Um er að ræða byggingu á hóteli á suðurkanti smábátahafnarinnar. Hótelið yrði byggt að hluta til á lóð félagsins, svokallaðri Sunnulóð. Um væri að ræða tvílyft hús í stíl við aðrar byggingar í nágrenninu. Núverandi hönnun gerir ráð fyrir 64 herbergjum, alls um 1.500 fermetra að grunnfleti í þremur álmum. Ein álman yrði byggð á uppfyllingu. Lítil smábátahöfn yrði fyrir innan hótelið. Rauðka ehf óskar hér með eftir viðræðum við Fjallabyggð um viðbótarlóð undir væntanlegt hótel."

Bæjarráð Fjallabyggðar felur Skipulags- og umhverfisnefnd að afgreiða umsókn Rauðku ehf, eins fljótt og auðið verður. Bæjarráð leggur áherslu á að unnið verði hratt í máli þessu þar sem mikið getur verið í húfi. Um er að ræða uppbyggingu sem skapar störf í lengd og bráð og framtíðartekjur fyrir bæjarfélagið í formi fasteignarskatta. Bæjarráð lýsir því hér með yfir að fullur vilji er til þess að ráðast í stækkun svæðisins um leið og búið er að samþykkja teikningar af umræddu húsi og lóðarblöð. Bæjarráð leggur áherslu á að tryggt verði að af umræddum framkvæmdum verði. Ljóst er að í mikið er ráðist af hálfu bæjarfélagsins, en gera má ráð fyrir því að gatnagerðargjald muni standa undir stækkun svæðisins að stórum hluta.

B. Svar vegna máls nr. 1106092. Skíðasvæði í Skarðsdal.
Í erindi segir :
"Þann 1. október 2009 skrifuðu Fjallabyggð og Valló ehf undir samning um rekstur á skíðasvæðinu í Skarðsdal. Samningurinn var gerður til 3 ára. Mikill árangur hefur náðst í fjölgun skíðagesta á skíðasvæðið þrátt fyrir misjafnt tíðafar á háannatímanum. Mikið verk er fyrir höndum við áframhaldandi uppbyggingu og markaðssetningu skíðasvæðisins. Aðstandendur Valló ehf. sjá mikla möguleika í eflingu á skíðasvæðinu ef unnið er með langtímahassmuni að leiðarljósi. Markviss vinnubrögð og fagmennska skipta þar meginmáli. Til að gera skíðasvæðið í Skarðsdal samkeppnishæft þurfa nokkur atriði að koma til. Ákveða hvort flytja eigi skíðaskála og neðstu lyftu, malbika þarf veg og bílastæði. Koma upp nýrri lyftu til að tengja Bungulyftu. Þá þarf að byggja nýjan og stærri skíðaskála. Rauðka ehf lýsir hér með yfir áhuga á að koma að byggingu nýs skíðaskála ef að um semst. Aðstandendur Valló ehf hafa fullan hug á að standa að þessari uppbyggingu með Fjallabyggð. Óskar Valló ehf því hér með eftir viðræðum við Fjallabyggð um nýjan langtímasamning milli aðila um rekstur skíðasvæðisins."

Í framhaldi af þessum ábendingum og/eða óskum vill Bæjarráð Fjallabyggðar taka fram:
1. Bæjarráð telur eðlilegt að skýrsla "Nefndar um uppbyggingu skíðasvæðisins í Skarðsdal", frá árinu 2009, verði höfð til hliðsjónar við mótun skíðasvæðisinns. Í skýrslunni er m.a. lagt til að skáli, bílastæði og neðstalyfta verði flutt af snjóflóðahættusvæði.
2. Bæjarráð telur að vegagerð að skíðasvæðum sé á könnu Vegagerðarinnar. Bæjarráð mun gera það sem í þess valdi stendur til þess að af nauðsynlegri vegagerð geti orðið.
3. Bæjarráð telur einnig rétt að kanna hvort og þá hvernig Ofanflóðasjóður kemur að flutningi mannvirkja s.s. skíðalyftna og skíðaskála af snjóflóðahættusvæði.
4. Bæjarráð mun ekki setja sig á móti því að rekstraraðili byggi nýjan skíðaskála, og að tekið verði tillit til fjárfestingar rekstraraðila á svæðinu við framlengingu samnings. Bæjarráð telur rétt að hefja viðræður um nýjan langtímasamning við Valló ehf. Bæjarráð telur rétt að vísa erindinu hér með til umfjöllunar Frístundanefndar og Skipulags- og umhverfisnefndar. 

C. Svar vegna máls nr. 1106092, Rif á húsnæði Selvíkur við Gránugötu.
Í erindi segir :
"Fyrir skömmu keypti Selvík ehf., systurfyrirtæki Rauðku ehf., fasteign, vélar og tæki fyrirtækisins Egilssíld ehf. Tilgangur kaupanna var að tryggja að sú starfsemi sem í húsnæðinu væri félli að starfssemi og uppbyggingu Rauðku ehf. Mikil aukning ferðamanna með hjólhýsi og í húsbílum hefur kallað á aukna þörf fyrir stærra og betra tjaldstæði. Einn af möguleikunum til að bæta svæðið er sú að rífa þá byggingu sem starfssemi Egilssíldar er í verði rifin til að opna og bæta svæðið. Þar sem skipulagsmál við ofanverða Gránugötu hafa umtalsverð áhrif á starfsemi Rauðku ehf þá óskar félagið hér með eftir viðræðum við Fjallabyggð um framtíðarskipulag á svæðinu."

Bæjarráð felur bæjarstjóra að boða forsvarsmenn Selvíkur ehf. á næsta fund Skipulags- og umhverfisnefndar.
Bæjarráð leggur áherslu á að Skipulags- og umhverfisnefnd láti vinna skipulag af svæðinu í samvinnu við umsækjendur. Sú vinna byggir m.a. á ákvörðun um rif á umræddri eign. 

D. Svar vegna máls nr. 1106092. Bygging golfvallar.
Í erindi segir :
"Undanfarna mánuði hafa Golfklúbbur Siglufjarðar og Rauðka ehf. skoðað möguleika á byggingu á golfvelli í Hólsdal. Sameiginleg niðurstaða aðila málsins er að framkvæmdin verði í höndum Rauðku ehf. Rauðka ehf mun leggja framkvæmdinni til 40 miljónir króna í fyrsta áfanga. Golfklúbbur Siglufjarðar mun verða aðili að skipulagi og fyrirkomulagi mála. Samkomulag er við verktakafyrirtækið Bás ehf. um vinnu við fyrsta áfanga vallarins. Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur samþykkt að leggja framkvæmdinni til 16 miljónir króna á næstu fjórum árum. Lagt er til að sú upphæð gangi beint frá Fjallabyggð til golfklúbbsins/verktaka sem gagngreiðsla við frágangi á malarnámum. Með bréfi þessu sækir Rauðka ehf því um land fyrir golfvöll. Golfvöllurinn yrði byggður á fyrirliggjandi hönnun sem Golfklúbbur Siglufjarðar hefur látið gera."

Bæjarráð hefur nú þegar fjallað um málið og hefur því verið lokið í bæjarstjórn. Skýr skilyrði frá Rauðku ehf um fjármögnun og rekstrafyrirkomulag voru forsenda samþykktar bæjarstjórnar. Að svo komnu máli telur Bæjarráð ekki forsendur til þess að breyta fyrri samþykkt í grundvallaratriðum. Bæjarráð samþykkir að Rauðka ehf verði framkvæmdaraðili í stað sjálfeignarstofnunarinnar eins og fyrri samþykkt gerir ráð fyrir, enda verði staðið við þau skilyrði sem sett voru af hálfu Rauðku ehf s.l. haust, sem bæjarstjórn gerði einnig að sínum skilyrðum. Skipulag svæðisins er nú í skoðunarferli. Náist víðtæk sátt um svæðið mun bæjarráð, að óbreyttu, leggja til land undir golfvöll í Hólsdal samkvæmt fyrri samþykkt. Bæjarráð vill ítreka að ekki er hægt að gefa út framkvæmdarleyfi fyrr en búið er að samþykkja deiliskipulag svæðisins. Stjórnendur golfklúbbsins hafa unnið að deiliskipulagi golfvallarsvæðisins og kynnt sín áform hagsmunaaðilum svæðisins sem og skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar. 

E. Svar vegna máls nr. 1106092. Umhverfismál - tanginn.
Í erindi segir:
"Með tilkomu Héðinsfjarðargangna og aukinni áherslu á ferðamennsku í Siglufirði skipta umhverfismál í orðið auknu máli.
Uppfylling í innanverðum firðinum hefur stækkað til muna á síðustu árum. Lítið skipulag hefur verið á þessari stækkun og frágangur oft til lítils sóma. Verktakafyrirtækið Bás ehf rekur steypustöð neðst á tanganum og fiskverkunarfyrirtæki innar á landfyllingunni. Bás ehf og Rauðka ehf lýsa hér með áhuga á að koma að með Fjallabyggð umbreytingu á svæðinu þar sem landfyllingunni yrði breytt að stórum hluta í útivistarsvæði með tjaldstæði, grunnu vatni og hólmum. Verkfræðistofan Teikn á Lofti á Akureyri hefur teiknað grunnhugmynd af svæðinu sem fylgir með erindinu."

Umrætt svæði er skipulagt sem iðnaðarsvæði. Bæjarráð er sammála því að svæðið er ekki til sóma eins og það er.
Bæjarráð hefur falið umhverfisfulltrúa og Skipulags- og umhverfisnefnd að ljúka við hreinsun svæðisins og er þar einnig lögð rík áhersla á umbreytingu svæðisins.
Teikningar af svæðinu hafa verið samþykktar í fagnefnd bæjarfélagsins. Svæðið á að verða í takt við framkomnar hugmyndir sem útivistar svæði og friðland.
Bæjarráð og Hafnarstjórn vinna nú að verkefni um "hafnsækna starfsemi" og er sú vinna rétt hafinn. Fram kom í kynningu á verkefninu að Rauðka ehf og Bás ehf myndu sækja um flutning á verktakafyrirtækinu Bás ehf, inn á hafnarsvæðið við Óskarsbryggju til að ná fram sínum hugmyndum. Það er skoðun bæjarráðs að flutningur á starfsemi verktakafyrirtækisins Bás ehf sé ekki tímabær þar til séð verður hvað þessar hugmyndir um "hafnsækna starfsemi" hafi í för með sér.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 117. fundur - 06.07.2011

Bæjarráð hefur vísað fjórum eftirfarandi erindum til umfjöllunar Skipulags og umhverfisnefndar. Þau eru:

 

a) Rauðka óskar eftir viðræðum við Fjallabyggð um viðbótarlóð undir væntanlegt hótel á suðurkanti smábátahafnarinnar í Siglufirði.

 

Nefndin tekur jákvætt í erindið og felur tæknideild að útvega lóðarblöð.

 

b) Rauðka og Valló óska eftir viðræðum við Fjallabyggð um aðkomu að byggingu nýs skíðaskála.

 

Nefndin tekur jákvætt í erindið og bendir á að verið er að vinna að deiliskipulagi svæðisins.

 

c) Rauðka og Selvík óska eftir viðræðum við Fjallabyggð um skipulagsmál við ofanverða Gránugötu í tengslum við kaup Selvíkur á fasteign Egilssíldar ehf.

 

Nefndin tekur jákvætt í erindið og óskar eftir tillögum að breyttu skipulagi á svæðinu.

 

d) Rauðka og Golfklúbbur Siglufjarðar sækja um land undir golfvöll í Hólsdal.

 

Nefndin bendir á að verið er að vinna deiliskipulag að svæðinu.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 224. fundur - 03.08.2011









Til umræðu og afgreiðslu eru bréf eftirtalinna aðila.


1. Afgreiðsla frístundanefndar og umsögn á erindi bæjarráðs á erindum frá Rauðku ehf./Valló ehf., dags. 11. júlí 2011.


2. Bréf íþrótta- og tómstundafulltrúa frá 13. júlí 2011.


3. Ábendingar frá lögmanni bæjarfélagsins dags. 25. júlí 2011.


4. Umsögn Skíðafélags Ólafsfjarðar dags. 27. júlí 2011.


5. Umsögn stjórnar Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar dags. 28. júlí 2011.


6. Umsögn Skíðafélags Siglufjarðar dags. 28. júlí 2011.


 


Í bréfunum koma fram ábendingar sem bæjarfulltrúar þurfa að hafa í huga í viðræðum bæjarráðs við Valló ehf. um frekari samvinnu í uppbyggingu skíðasvæða í Fjallabyggð.


Bæjarráð óskar eftir skriflegri greinargerð og þar með skriflegum áherslum og fyrirhuguðum áformum Valló ehf. m.a. í ljósi framlagðra gagna.
Frekari umræðu er frestað til næsta fundar bæjarráðs þegar umrædd gögn verða lögð fram.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 242. fundur - 10.01.2012

Egill Rögnvaldsson vék af fundi við umfjöllun þessa dagskrárliðar.
Bæjarráð telur brýnt að viðræðum og samningum milli aðila verði lokið sem fyrst með heildstæðum samningi sbr. erindi Rauðku ehf. og tengdra aðila frá 21. júní 2011.

Að öðru leyti vísar bæjarráð til fyrri bókana í skipulags- og umhverfisnefnd sem og í bæjarráði og er lögð áhersla á bókun frá 28. júní 2011.

Rétt er einnig að minna á áherslur og afgreiðslu bæjarstjórnar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012-2015.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 248. fundur - 28.02.2012

Egill Rögnvaldsson vék af fundi undir þessum dagskrárlið.
Bæjarstjóri lagði fram tillögu um að fá Valtý Sigurðsson lögmann til að setja upp samning við Rauðku ehf. í samræmi við bókun á 242. fundi bæjarráðs, þar sem lögð er áhersla á að lokið verði sem fyrst við heildstæðan samning sbr. erindi frá Rauðku ehf. og tengdra aðila frá 21. júní 2011 sem og áherslur bæjarstjórnar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 - 2015.

Bæjarráð samþykkir tillögu bæjarstjóra.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 256. fundur - 03.05.2012

Bæjarstjóri lagði fram undirritað samkomulag við Rauðku ehf. sem og tillögu að samþykktum fyrir Leyning ses.
Bæjarstjóri fór yfir tildrög málsins en þau eru;

Rauðka ehf. fyrirtæki starfandi í ferðamannaiðnaði vill auka fjölbreytni í þjónustu fyrir almenning og ferðamenn. Fjallabyggð hefur sýnt þessum framkvæmdum áhuga og samþykkti þann 28. febrúar 2012 að hefja skyldi viðræður milli Rauðku ehf. og félaga því tengdu um hugmyndir um fjárfestingar og uppbyggingu á Siglufirði og aðkomu Fjallabyggðar að því. Einnig var samþykkt að Valtýr Sigurðsson hrl. leiddi viðræðurnar sem oddamaður.

Í fram komnum gögnum er gerð grein fyrir hverju verkefni fyrir sig, kveðið á um tímaáætlanir, skyldur samningsaðila og tryggingar fyrir efndum, tengingar verkefnanna innbyrðis og meðferð ágreiningsefna og vanefndaúrræða.

Bæjarráð samþykkir samning og samþykktir eins og þær liggja fyrir fundinum og vísar þeim til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 40. fundur - 14.05.2012

Samkomulagið var lagt fram til kynningar.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 137. fundur - 31.05.2012

Valtýr Sigurðsson sækir um framkvæmdaleyfi fyrir golfvelli í Hólsdal fyrir hönd Leynings ses. samkvæmt meðfylgjandi framkvæmdalýsingu.

 

Erindi samþykkt. 

Bæjarráð Fjallabyggðar - 281. fundur - 18.12.2012

Þann 28. apríl 2012 var undirritað samkomulag milli Fjallabyggðar annars vegar og Rauðku ehf. hins vegar um víðtækar framkvæmdir til eflingar ferðaþjónustu í byggðarlaginu. Í samkomulaginu er ákvæði um lausn ágreiningsefna. Á grundvelli samkomulagsins eru lagðar fram málsmeðferðarreglur og tilnefnir bæjarráð tvo fulltrúa til að leysa fram kominn ágreining.

 

Bæjarráð tilnefnir Ólaf H. Marteinsson og Ingvar Erlingsson.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 297. fundur - 28.05.2013

Bæjarráð samþykkir eftirfarandi breytingu á skipuðum fulltrúum sínum í sáttanefnd sveitarfélagsins og Rauðku.
Nýir fulltrúar eru Unnar Már Pétursson, viðskiptafræðingur og Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður bæjarfélagsins og koma þeir í stað Ólafs H. Marteinssonar og Ingvars Erlingssonar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 305. fundur - 30.07.2013

Fram hefur komið fyrirspurn um skipulag og hönnun lóða á og við hafnarsvæðið á Siglufirði og að ráðhúsi bæjarfélagsins.

Gert hefur verið samkomulag um afhendingu lóða, sjá samning við Rauðku ehf.

Bæjarráð telur eðlilegt að gengið verði frá lóðarblöðum fyrir umræddar lóðir og felur tæknideild að koma fram með tillögur að lóðarblöðum umræddra lóða.

Ljóst er að tjaldsvæðið á lóð nr. 1 við Snorragötu þarfnast lagfæringar og hefur verið gert samkomulag við Rauðku ehf. um að láta kanna kostnað við þær lagfæringar í tengslum við væntanlegar skipulagshugmyndir af svæðinu.

Bæjarráð telur rétt að tæknideild bæjarfélagsins taki málið til skoðunar og tillögugerðar í vetur.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 364. fundur - 12.11.2014

Lagt fram bréf frá Róberti Guðfinnssyni dags. 8. nóvember 2014, þar sem hann óskar eftir fundi með fulltrúum Fjallabyggðar.
Róbert var boðaður á fundinn og fór hann yfir sín mál og samstarf við Fjallabyggð.
Leggur hann áherslu á að bæjarfélagið móti stefnu til framtíðar er varðar aðkomu bæjarfélagsins að þeim verkefnum sem eftir á að vinna.
Leggur hann áherslu á Leirutangann og lóð undir tjaldsvæði við hús Egilssíldar við Gránugötu.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 174. fundur - 19.11.2014

Lagt fram bréf Róberts Guðfinnssonar fyrir hönd Rauðku ehf. þar sem fjallað er um þau svæði sem út af standa í samkomulagi sem Fjallabyggð og Rauðka ehf. gerðu með sér árið 2012.

Í tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að veita fjármagni í deiliskipulagsvinnu á miðbæjarsvæði Siglufjarðar og tanganum við innri höfn á Siglufirði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 372. fundur - 11.12.2014

Lögð fram til kynningar fundargerð fundar frá 9. desember 2014 sem fulltrúar bæjarfélagsins, Leyningsáss og fleiri, áttu með fulltrúum Vegagerðarinnar um tillögur að veglínum að nýjum byrjunarstað skíðasvæðisins í Skarðsdal.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 514. fundur - 15.08.2017

Ríkharður Hólm Sigurðsson vék af fundi undir þessum lið.

Lagt fram erindi frá Róberti Guðfinnssyni, dags. 5. ágúst sl., þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvernig bæjaryfirvöld hyggist standa við samkomulag sem gert var við Rauðku ehf. árið 2012 og fjallar m.a. um útivistarsvæðið á Leirutanga. Í því er kveðið á um að Fjallabyggð skuli gera svæðið að útivistarsvæði og að byggð sé einungis meðfram þjóðvegi og í samræmi við skipulag vestan lóðar Bás ehf.

Fjallabyggð hefur látið hanna svæðið sem útivistarsvæði og nýtt deiliskipulag fyrir svæðið tók gildi árið 2015. Vinnu við fyrsta áfanga verður brátt lokið.

Þann 22.6.2016 hafnaði bæjarstjórn beiðni Bás ehf. um stækkun lóðar á svæðinu og veitti Bás ehf. afnot af viðbótarsvæði við lóð fyrirtækisins til 1. júní 2017.

Bæjarráð ítrekar fyrri samþykkt bæjarstjórnar og samþykkir að Bás ehf. verði ekki áfram veitt afnot af viðbótarsvæði við lóð fyrirtækisins og óskar eftir viðræðum við forsvarsmenn Bás ehf. um málið.