Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar

148. fundur 13. janúar 2025 kl. 15:30 - 17:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Viktor Freyr Elísson formaður
  • Jakob Kárason varaformaður
  • Karen Sif Róbertsdóttir varam.
  • Katrín Freysdóttir aðalm.
Starfsmenn
  • Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri
Fundargerð ritaði: Ríkey Sigurbjörnsdóttir Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála.
Bryndís Þorsteinsdóttir boðaði forföll og ekki náðist í varamann hennar.

1.Foreldrafélag Grunnskóla Fjallabyggðar. Samstarf um forvarnarfræðslu

Málsnúmer 2201023Vakta málsnúmer

Fjallabyggð og Foreldrafélag Grunnskóla Fjallabyggðar gerðu með sér samkomulag vegna forvarnarstarfs í Grunnskóla Fjallabyggðar, á árunum 2022-2024 þar sem foreldrafélagið var styrkt árlega um 300.000 kr. til forvarna- og fræðslustarfs. Gildistími samkomulags er liðinn.
Í 6. grein samkomulagsins, sem undirritað var 22.03.2022 er heimild til framlengingar um eitt ár í senn, tvisvar sinnum. Fræðslu- og frístundanefnd leggur til og samþykkir fyrir sitt leyti að nýta framlengingarákvæði og framlengja samkomulagið fyrir árið 2025.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar.

2.Upphaf skóladags á unglingastigi grunnskólans

Málsnúmer 2404025Vakta málsnúmer

Þrátt fyrir aukna vitundarvakningu um mikilvægi svefns þá sofa margir unglingar of lítið og hópur þeirra sem sofa of stutt fer stækkandi milli ára sem er mikið áhyggjuefni. Á sama tíma og fleiri unglingar sofa of stutt sýna rannsóknir að andleg líðan þeirra fer versnandi en ljóst er að tengsl svefns og andlegrar heilsu eru töluverð.

Nokkur umræða hefur áður farið fram um að seinka byrjun á skóladeginum hjá 8. - 10. bekk í Grunnskóla Fjallabyggðar og hefur staðið til að kanna hug forráðafólks elstu nemenda til slíkrar breytingar.
Árgangarnir myndu þá byrja seinna að morgni en stjórnendur og starfsfólk skólans útfæra fyrirkomulagið eins og best hentar í skólastarfinu í samstarfi við fulltrúa nemenda og forráðafólks.
Samþykkt
Undir þessum lið sat Ása Björk Stefánsdóttir skólastýra Grunnskóla Fjallabyggðar. Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir að lögð verði könnun fyrir foreldra 7.-9. bekkjar um hugsanlega seinkun á upphafi skóladags nemenda á unglingastigi frá og með næsta hausti. Skólastýra framkvæmir könnunina.

3.Bréf frá MMS og leiðbeiningar vegna innleiðingar á Frigg - nemendagrunni

Málsnúmer 2501011Vakta málsnúmer

Frigg er nýr gagnagrunnur utan um skráningu upplýsinga um íslenska nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskóla sem nú er í smíðum. Upplýsingarnar hafa fram til þessa verið vistaðar hjá mismunandi aðilum í mismunandi kerfum en verða með Frigg á einum miðlægum stað þvert á skóla, skólastig og landsvæði.

Gagnagrunnurinn mun m.a. halda utan um skráningu barna og ungmenna í, úr og milli skóla og námsárangur nemenda í hinu nýja samræmda námsmati, Matsferli, á síðari stigum.

Frigg er samstarfsverkefni mennta og barnamálaráðuneytisins, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Stafræns Ísland (SÍ) og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) um samræmt verklag við nemendaumsýslu og innleiðingu þvert á skóla og sveitarfélög.
Fyrsta skrefið í innleiðingunni er að innrita öll börn fædd 2019 í grunnskóla haustið 2025 í gegnum Frigg, í gegnum samræmda umsókn á Ísland.is.
Lagt fram til kynningar
Undir þessum lið sátu Kristín María Hlökk Karlsdóttir skólastýra Leikskóla Fjallabyggðar og Ása Björk Stefánsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar.
Lagt fram til kynningar.

4.Leikskóli Fjallabyggðar - Starfsmannakönnun í nóvember 2024

Málsnúmer 2501023Vakta málsnúmer

Gæðaráð Leikskóla Fjallabyggðar lagði fyrir starfsmannakönnun sl. haust samkvæmt endurbótaáætlun leikskólans. Tilgangurinn var að fylgja eftir niðurstöðum síðustu starfsmannakönnunar. Svarhlutfall var 94,6%.
Undir þessum lið sat Kristín María Hlökk Karlsdóttir skólastýra Leikskóla Fjallabyggðar. Skólastýra fór yfir niðurstöður könnunarinnar. Fræðslu- og frístundanefnd þakkar Gæðaráði leikskólans fyrir frumkvæðið að könnuninni og hvetur til áframhaldandi vinnu til að bæta starfsumhverfi enn frekar.

Fundi slitið - kl. 17:00.