Í tengslum við starfsmannahald í þjónustumiðstöð lögðu
Ólafur H. Marteinsson og Sólrún Júlíusdóttir fram svo hljóðandi tillögu um útboð á snjómokstri í Fjallabyggð:
"Bæjarráð samþykkir að snjómokstur í Fjallabyggð verði boðinn út ekki síðar en frá og með 1. febrúar 2011.
Markmið með útboði á snjómokstri er:
Að viðhalda svipuðu þjónustustigi og verið hefur.
Að lækka kostnað.
Að minnka fjárfestingu í vélum og tækjum."
Tillaga samþykkt með 2 atkvæðum. Helga Helgadóttir greiddi atkvæði gegn tillögunni.
Ólafur H. Marteinsson og Sólrún Júlíusdóttir lögðu fram svo hljóðandi tillögu um mannahald ofl. í þjónustumiðstöð:
"Bæjarráð felur bæjarstjóra/deildarstjóra tæknideildar að aðlaga mannahald þjónustumiðstöðva að breyttum verkefnum eftir að samþykkt hefur verið að bjóða snjómokstur út.
Markmiðið er að þegar aðlögun er lokið verði fastir starfsmenn 5.
Komi til uppsagna munu þær miðast við 31/12/2010.
Helstu verkefni þjónustumiðstöðvar verða:
Eftirlit, viðgerðir og nýframkvæmdir á vegum veitna.
Dýraeftirlit.
Viðhald fasteigna.
Viðhald gatna.
Viðhald hafnarmannvirkja.
Samstarf við vinnuskóla.
Snyrting opinna svæða.
Viðburðir og hátíðir.
Ofl.
Tillaga samþykkt með 2 atkvæðum. Helga Helgadóttir greiddi atkvæði gegn tillögunni.
Eftirfarandi bókun var lögð fram.
"Undirritaðir fulltrúar S og T- lista geta ekki stutt tillögu um starfsmannahald í þjónustumiðstöð Fjallabyggðar og fyrirhugað útboð á snjómokstri.
Á síðasta kjörtímabili var unnin ítarleg úttekt á starfsemi þjónustumiðstöðvar Fjallabyggðar og samþykkt í bæjarstjórn að tilhögun á snjómokstri yrði óbreytt frá því sem verið hefur, þar sem ólíklegt þótti að útboð snjómoksturs skilaði bæjarfélaginu aukinni hagræðingu.
Ekki hafa verið lögð fram nein reikningsleg gögn sem styðja þessa ákvörðun meirihlutans nú og teljum við því eðlilegt að halda þeirri stefnu sem fyrir liggur auk þess sem við teljum að með einkavæðingu á snjómokstri muni þjónusta við íbúa versna, líkt og hefur sýnt sig hjá sveitarfélögum þar sem snjómokstur hefur verið boðinn út.
Fulltrúar S og T- lista geta ekki samþykkt uppsagnir starfsmanna þjónustumiðstöðvar á sama tíma og bæjarstjórn hefur sent frá sér harðorð mótmæli vegna niðurskurðar og uppsagna á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar.
Að framansögðu óskum við eftir skriflegum rökstuðningi vegna þeirrar ákvörðunar að bjóða snjómoksturinn út og að verkefni þjónustumiðstöðvar verði skilgreind enn frekar."
Helga Helgadóttir, S- lista
Bjarkey Gunnarsdóttir, T- lista
Formaður bæjarráðs, Ólafur H. Marteinsson gerði grein fyrir fundargerð.