Deiliskipulag suðurbæjar Siglufjarðar

Málsnúmer 2306030

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 796. fundur - 07.07.2023

Óskað var eftir tilboði fjögurra aðila í vinnu deiliskipulags fyrir suðurbæ Siglufjarðar. Tilgangur skipulagsins er fyrst og fremst að þétta byggð, með því að deiliskipuleggja íbúðarlóðir inn á milli þegar byggðra lóða og nýta þannig betur það byggingarland sem við höfum, þar sem undirlendi fyrir nýja byggð er af skornum skammti á Siglufirði. Einnig til að svara eftirspurn eftir lóðum og hafa þær til taks þegar kallið eftir þeim kemur.

Tilboð barst frá þremur aðilum:
Yrki arkitektum
Landslagi ehf.
Eflu verkfræðistofu

Tilboðin voru sambærileg varðandi tímaáætlun en einhver munur var á tímafjölda sem áætlaður var í verkið. Afrakstur vinnunnar verður samt alltaf sá sami, þ.e. fullgerðir skipulagsuppdrættir ásamt greinargerð að loknu því ferli sem sett er upp í skipulagslögum.

Lægsta tímaverðið var hjá Yrki Arkitektum og leggur skipulagsfulltrúi til að samið verði við þau um vinnu á þessu verkefni sem mun hefjast í ágúst 2023.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð samþykkir að taka tilboði Yrki Arkitekta vegna deiliskipulagsvinnu suðurbæjar Siglufjarðar. Deildarstjóra tæknideildar falið að útbúa viðauka vegna deiliskipulagsvinnu.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 302. fundur - 06.09.2023

Lagt fram minnisblað Yrkis Arkitekta dags. 1.9.2023 þar sem velt er upp nokkrum spurningum varðandi vinnu við deiliskipulag suðurbæjar Siglufjarðar.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Skipulagsfulltrúa falið að svara spurningunum í samræmi við umræðu sem fram fór á fundinum.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 303. fundur - 04.10.2023

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi suðurbæjar Siglufjarðar unnin af Yrki arkitektum. Gunnar Ágústsson hjá Yrki arkitektum fór yfir tillöguna í gegnum fjarfundarbúnað.
Nefndin samþykkir að tillagan verði kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum á opnum fundi í samræmi við 3.mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og í framhaldi af því auglýst með a.m.k. 6 vikna athugasemdafresti.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 306. fundur - 06.12.2023

Lögð fram að nýju tillaga að deiliskipulagi suðurbæjar Siglufjarðar sem auglýst var með athugasemdafresti frá 19.10.2023-1.12.2023. Einnig lagðar fram umsagnir og athugasemdir sem bárust á kynningartímanum auk samantektar frá Yrki Arkitektum.

Athugasemdir bárust frá fjórum einstaklingum og umsagnir bárust frá Veðurstofu Íslands, Minjastofnun Íslands og Rarik.
Nefndin samþykkir að fella út lóðir við Háveg 64 og 67 í samræmi við athugasemdir Veðurstofu Íslands. Einnig er lagt til að fækka íbúðum og draga úr byggingarmagni á nýjum lóðum syðst á suðurgötu svo nýbyggingar verði ekki stór hluti heildarbyggingarmagns svæðisins, eins og Veðurstofan bendir á í umsögn sinni. Lagfæra skal orðalag í gr.3.2.1 í greinargerð og bæta við upplýsingum um umsagnarskyld hús á svæðinu, þ.e. Suðurgötu 58,60 og Háveg 59. Nefndin samþykkir að skipuleggja græn svæði syðst á Suðurgötu og Laugarvegi, auk þess að leiksvæði við Laugarveg mun halda sér í óbreyttri mynd.

Málið verður tekið upp að nýju á næsta fundi skipulags- og umhverfisnefndar þegar búið er að uppfylla ofangreindar breytingar á deiliskipulagsuppdrætti og greinargerð.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 307. fundur - 04.01.2024

Lögð fram uppfærð tillaga deiliskipulags suðurbæjar Siglufjarðar í samræmi við yfirferð á síðasta fundi nefndarinnar. Breytingar eftir auglýsingu er að finna undir kafla 6.2 í greinargerð deiliskipulagsins.
Samþykkt
Nefndin samþykkir framlagðar breytingar og leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagið verði samþykkt og sent til Skipulagsstofnunar í samræmi við 42.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 309. fundur - 13.03.2024

Lögð fram yfirferð Skipulagsstofnunar á deiliskipulagi suðurbæjar Siglufjarðar dags. 28.2.2024. Einnig lögð fram umsögn Veðurstofu Íslands eftir seinni yfirferð stofnunarinnar á skipulagstillögunni dags. 5.3.2024, þar sem brugðist hafði verið við ábendingum þeirra.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Eftir auglýsingu deiliskipulagstillögunnar og umsögn VÍ voru m.a. gerðar þær breytingar að felldar voru út lóðir og byggingarreitir við Háveg 64 og 67 ásamt Suðurgötu 93 og 95. Íbúðum við Suðurgötu 79-89 var einnig fækkað töluvert til að koma á móts við umsögn VÍ. Tillagan hefur því þegar verið endurskoðuð m.t.t. þess sem fram kemur í umsögn VÍ. Ekkert af því sem fram kemur í nýrri umsögn VÍ breytir afstöðu nefndarinnar hvað varðar nýjar lóðir við Suðurgötu 79-89. Nefndin leggur hinsvegar til að í kafla 2.6. í greinargerð deiliskipulagsins verði það sérstaklega áréttað að mælt sé með að ný hús sem byggð verða á Suðurgötu 79-89 áður en nýtt hættumat við Strengsgil liggur fyrir, séu byggð með viðeigandi styrkingum. Þar með telur nefndin skipulagið uppfylla skilyrði í reglugerð 505/2000, með síðari breytingum.

Nefndin lítur svo á að færist hættumatslína B niður fyrir byggð, sé um tímabundið ástand að ræða þar til varnarmannvirki hafa verið endurbætt.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 241. fundur - 21.03.2024

Á 309. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var lögð fram yfirferð Skipulagsstofnunar á deiliskipulagi suðurbæjar Siglufjarðar dags. 28.2.2024. Einnig lögð fram umsögn Veðurstofu Íslands eftir seinni yfirferð stofnunarinnar á skipulagstillögunni dags. 5.3.2024, þar sem brugðist hafði verið við ábendingum þeirra.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Eftir auglýsingu deiliskipulagstillögunnar og umsögn VÍ voru m.a. gerðar þær breytingar að felldar voru út lóðir og byggingarreitir við Háveg 64 og 67 ásamt Suðurgötu 93 og 95. Íbúðum við Suðurgötu 79-89 var einnig fækkað töluvert til að koma á móts við umsögn VÍ. Tillagan hefur því þegar verið endurskoðuð m.t.t. þess sem fram kemur í umsögn VÍ. Ekkert af því sem fram kemur í nýrri umsögn VÍ breytir afstöðu nefndarinnar hvað varðar nýjar lóðir við Suðurgötu 79-89. Nefndin leggur hinsvegar til að í kafla 2.6. í greinargerð deiliskipulagsins verði það sérstaklega áréttað að mælt sé með að ný hús sem byggð verða á Suðurgötu 79-89 áður en nýtt hættumat við Strengsgil liggur fyrir, séu byggð með viðeigandi styrkingum. Þar með telur nefndin skipulagið uppfylla skilyrði í reglugerð 505/2000, með síðari breytingum.
Arnar Þór Stefánsson tók til máls.

Nefndin lítur svo á að færist hættumatslína B niður fyrir byggð, sé um tímabundið ástand að ræða þar til varnarmannvirki hafa verið endurbætt.
Samþykkt
Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar með 7 atkvæðum.