Umsókn um byggingarleyfi - Gránugata 12 Siglufirði

Málsnúmer 1802031

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 222. fundur - 12.02.2018

Lögð fram umsókn Gbess ehf., dagsett 9. febrúar 2018. Sótt er um leyfi til að byggja 1160fm iðnaðar- og verslunarhúsnæði ásamt íbúðum á efri hæð hússins, á lóðinni Gránugötu 12 sem fyrirtækið fékk úthlutað í september sl.
Vísað til umsagnar
Nefndin samþykkir að láta fara fram grenndarkynningu þar sem aðliggjandi lóðarhöfum er kynnt tillagan og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana í samræmi við 1. og 2. málgrein 44.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 224. fundur - 11.04.2018

Undir þessum lið mættu íbúar sem höfðu óskað eftir að mæta á fund nefndarinnar vegna yfirstandandi grenndarkynningar fyrirhugaðra byggingaráforma við Gránugötu 12.

Erindi svarað
Nefndin ítrekar að íbúar þurfa að skila inn skriflegum athugasemdum innan athugasemdafrests sem hefur verið framlengdur til 25. apríl nk. í stað 12. apríl.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 225. fundur - 30.04.2018

Undir þessum lið vék Ólafur Kárason af fundi.
Erindi dagsett 9. febrúar 2018 þar sem Gbess ehf. sótti um leyfi til að byggja iðnaðar- og verslunarhúsnæði ásamt íbúðum við Gránugötu 12 , var grenndarkynnt í samræmi við 1. og 2. málsgrein 44.gr skipulagslaga nr.123/2010.
Athugasemdir og ábendingar bárust frá tveimur aðilum.

1. Sigmundur Guðmundsson hrl. f.h. húseigenda við Aðalgötu 9, 11, 13, 15, 17 og 19, Norðurgötu 1 og Gránugötu 5. Dagsett 25. apríl 2018. Samantekt athugasemda:


a) Ekki eru talin vera skilyrði til þess að víkja frá gerð deiliskipulags á reitnum og grenndarkynning sbr. 1.mgr. 44.gr. skipulagslaga því ekki talin heimil. Vísað er í hverfisvernd sem tilgreind er í gildandi aðalskipulagi og nálægðar fyrirhugaðrar byggingar við afmarkað hverfisverndarsvæði á Þormóðseyri.

b) Fyrirhuguð framkvæmd er ekki talin vera í samræmi við byggðamynstur. Gatan sögð vera tengd því svæði sem nýtur hverfisverndar og með fyrirhugaðri byggingu er götumynd Gránugötu raskað.

c) Fjallað er um misræmi lóðarstærðar sem getið er um í gögnum grenndarkynningar og gildandi lóðarleigusamning. Einnig bent á óvissu um lóðarstærðir nágrannalóða.

d) Bent er á að gert sé ráð fyrir því í aðalskipulagi að ný íbúðarsvæði byggist upp að meðaltali í þéttleikanum 15 íbúðir á hektara. Fyrirhugaðar eru 8 íbúðir í húsinu við Gránugötu 12 sem er meiri þéttleiki en á skilgreindum íbúðasvæðum.

e) Talið er að umsókn um byggingarleyfi og fylgigögn hennar séu ófullnægjandi.

f) Bent er á að huga þarf að því hvort fyrirhuguð framkvæmd rúmist innan nýtingarhlutfalls svæðisins skv. aðalskipulagi og hvort uppfylltar séu reglur um eldvarnir og lágmarksfjarlægð byggingar frá lóðarmörkum.

g) Bent er á mikilvægi þess að rannsökuð verði áhrif byggingarinnar á umferð og kröfur um bílastæði á svæðinu. Ekki komi fram í umsókn um byggingarleyfi hvort útleiga íbúða sé til lengri eða skemmri tíma. Sé um að ræða útleigu til ferðamanna, má búast við verulega aukinni umferð. Ekki kemur fram á afstöðumynd hversu mörg bílastæði eru fyrirhuguð og því erfitt að átta sig á því hvort fjöldi þeirra sé í samræmi við reglur þar um.

h) Talið er mikilvægt að fyrir afgreiðslu málsins liggi fyrir nánari upplýsingar um starfsemi efnalaugar sem fyrirhuguð er í húsnæðinu, hvert sé fyrirhugað að leiða útblásturinn. Einnig að ítarleg skoðun fari fram á því hvert skuggavarp verði af byggingunni á nágrannalóðir.

2) Ólafur Kárason f.h. Nöf ehf. eiganda Aðalgötu 7, dagsett 25. apríl 2018.


a) Gerir ekki athugasemd við fyrirhugaða byggingu en bendir á að stilla hæð hennar til samræmis við húsnæðið við Gránugötu 4-6.
Afgreiðslu frestað
Tæknideild falið að vinna úr framkomnum athugasemdum. Afgreiðslu málsins frestað til næsta fundar.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 226. fundur - 14.05.2018

Erindi dagsett 9. febrúar 2018 þar sem Gbess ehf. sótti um leyfi til að byggja iðnaðar- og verslunarhúsnæði ásamt íbúðum við Gránugötu 12 , var grenndarkynnt í samræmi við 1. og 2. málsgrein 44.gr skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdir og ábendingar bárust frá tveimur aðilum.
Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 30. apríl sl. var tæknideild falið að vinna úr þeim athugasemdum sem bárust. Lögð fram svör við innsendum athugasemdum.
Synjað
Samkvæmt umsókn og fylgigögnum sem lögð voru fram, er gert ráð fyrir að hæð hússins sem telur tvær hæðir, sé 8,80m. Líklegt er að þessi hæð muni hafa í för með sér töluvert skuggavarp á íbúðir sem standa við Aðalgötu 9-15.
Umsókn um byggingarleyfi er því hafnað, en nefndin fer fram á að hæð hússins verði að hámarki 7,5m í mæni og óskar eftir að gerð verði greining á skuggavarpi samhliða nýrri umsókn um byggingarleyfi. Einnig að fram komi í byggingarlýsingu hversu mörg bílastæði komi til með að vera við húsið.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 229. fundur - 15.08.2018

Lögð fram umsókn dagsett 13. ágúst 2018 þar sem Ragnheiður Sverrisdóttir f.h. Gbess ehf. sækir að nýju um byggingarleyfi fyrir atvinnuhúsnæði við Gránugötu 12 á Siglufirði. Húsið hefur verið minnkað til norðurs, lækkað og íbúðum fækkað úr átta í fimm. Einnig er gert ráð fyrir bílastæðum á teikningu og búið að gera skuggavarp með tillit til nærliggjandi húsa.
Nefndin samþykkir að láta fara fram grenndarkynningu þar sem aðliggjandi lóðarhöfum er kynnt tillagan og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana í samræmi við 1. og 2. málgrein 44.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 231. fundur - 03.10.2018

Á 229.fundi skipulags- og umhverfisnefndar var samþykkt að grenndarkynna fyrirhugaða framkvæmd við Gránugötu 12, Siglufirði. Tillagan var grenndarkynnt frá 22.08.2018 til 1.10.2018. Athugasemdir bárust frá Vegagerðinni og sameiginlega frá íbúum/húseigendum við Aðalgötu 9, 11, 13, 15, 17 og Norðurgötu 1.
Lagt fram
Í athugasemdum frá íbúum er m.a. óskað eftir fresti á því að gera athugasemdir þar til fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir. Nefndin telur þær upplýsingar sem liggja fyrir vera fullnægjandi fyrir grenndarkynningu og hafnar því beiðni um frest.
Tæknideild er falið svara framkomnum athugasemdum fyrir næsta fund og verður þá tekin afstaða til fyrirliggjandi umsóknar um byggingarleyfi.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 233. fundur - 07.11.2018

Erindi dagsett 13. ágúst 2018 þar sem Gbess ehf. sótti um leyfi til að byggja iðnaðar- og verslunarhúsnæði ásamt íbúðum við Gránugötu 12 , var grenndarkynnt í samræmi við 1. og 2. málsgrein 44.gr skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdir bárust frá Vegagerðinni og sameiginlega frá íbúum/húseigendum við Aðalgötu 9, 11, 13, 15, 17 og Norðurgötu 1. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 3. október sl. var tæknideild falið að vinna úr þeim athugasemdum sem bárust. Lögð fram svör við innsendum athugasemdum.
Lagt fram
Nefndin óskar eftir að skipulag bílastæða verði endurskoðað með tillit til athugasemda Vegagerðarinnar og leyst með þeim hætti að bílum verði ekki bakkað beint út á Gránugötu án þess þó að hafa áhrif á þann fjölda bílastæða sem gert er ráð fyrir í tillögunni.