Erindi dagsett 9. febrúar 2018 þar sem Gbess ehf. sótti um leyfi til að byggja iðnaðar- og verslunarhúsnæði ásamt íbúðum við Gránugötu 12 , var grenndarkynnt í samræmi við 1. og 2. málsgrein 44.gr skipulagslaga nr.123/2010.
Athugasemdir og ábendingar bárust frá tveimur aðilum.
1. Sigmundur Guðmundsson hrl. f.h. húseigenda við Aðalgötu 9, 11, 13, 15, 17 og 19, Norðurgötu 1 og Gránugötu 5. Dagsett 25. apríl 2018. Samantekt athugasemda:
a) Ekki eru talin vera skilyrði til þess að víkja frá gerð deiliskipulags á reitnum og grenndarkynning sbr. 1.mgr. 44.gr. skipulagslaga því ekki talin heimil. Vísað er í hverfisvernd sem tilgreind er í gildandi aðalskipulagi og nálægðar fyrirhugaðrar byggingar við afmarkað hverfisverndarsvæði á Þormóðseyri.
b) Fyrirhuguð framkvæmd er ekki talin vera í samræmi við byggðamynstur. Gatan sögð vera tengd því svæði sem nýtur hverfisverndar og með fyrirhugaðri byggingu er götumynd Gránugötu raskað.
c) Fjallað er um misræmi lóðarstærðar sem getið er um í gögnum grenndarkynningar og gildandi lóðarleigusamning. Einnig bent á óvissu um lóðarstærðir nágrannalóða.
d) Bent er á að gert sé ráð fyrir því í aðalskipulagi að ný íbúðarsvæði byggist upp að meðaltali í þéttleikanum 15 íbúðir á hektara. Fyrirhugaðar eru 8 íbúðir í húsinu við Gránugötu 12 sem er meiri þéttleiki en á skilgreindum íbúðasvæðum.
e) Talið er að umsókn um byggingarleyfi og fylgigögn hennar séu ófullnægjandi.
f) Bent er á að huga þarf að því hvort fyrirhuguð framkvæmd rúmist innan nýtingarhlutfalls svæðisins skv. aðalskipulagi og hvort uppfylltar séu reglur um eldvarnir og lágmarksfjarlægð byggingar frá lóðarmörkum.
g) Bent er á mikilvægi þess að rannsökuð verði áhrif byggingarinnar á umferð og kröfur um bílastæði á svæðinu. Ekki komi fram í umsókn um byggingarleyfi hvort útleiga íbúða sé til lengri eða skemmri tíma. Sé um að ræða útleigu til ferðamanna, má búast við verulega aukinni umferð. Ekki kemur fram á afstöðumynd hversu mörg bílastæði eru fyrirhuguð og því erfitt að átta sig á því hvort fjöldi þeirra sé í samræmi við reglur þar um.
h) Talið er mikilvægt að fyrir afgreiðslu málsins liggi fyrir nánari upplýsingar um starfsemi efnalaugar sem fyrirhuguð er í húsnæðinu, hvert sé fyrirhugað að leiða útblásturinn. Einnig að ítarleg skoðun fari fram á því hvert skuggavarp verði af byggingunni á nágrannalóðir.
2) Ólafur Kárason f.h. Nöf ehf. eiganda Aðalgötu 7, dagsett 25. apríl 2018.
a) Gerir ekki athugasemd við fyrirhugaða byggingu en bendir á að stilla hæð hennar til samræmis við húsnæðið við Gránugötu 4-6.
Afgreiðslu frestað