Fiskeldi

Málsnúmer 1704014

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 510. fundur - 18.07.2017

Bæjarstjóri dreifði drögum að viljayfirlýsingu milli Fjallabyggðar og Arnarlax hf. um samstarf við undirbúning og könnun á forsendum þess að sett verði upp starfsstöð Arnarlax hf. í Ólafsfirði vegna fiskeldis í Eyjafirði.

Bæjarráð samþykkir drögin og verður viljayfirlýsingin undirrituð í Tjarnarborg föstudaginn 21. júlí n.k. kl. 15. Bæjarráð fagnar þessari viljayfirlýsingu því að með starfsemi Arnarlax hf. munu skapast tugir nýrra starfa í Ólafsfirði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 545. fundur - 06.03.2018

Lagt fram bréf bæjarstjóra til Hafrannsóknarstofnunar.
Í bréfinu er óskað eftir upplýsingum um burðarþol og áhættumat fyrir sjókvíaeldi í Eyjafirði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 546. fundur - 13.03.2018

Tekið fyrir svarbréf Hafrannsóknarstofnunar við bréfi bæjarstjóra vegna áhættumats og burðarþols í Eyjafirði. Í svarbréfinu kemur fram að mælingar séu nýhafnar og búast megi við niðurstöðu um burðarþol eftir u.þ.b. ár. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir fer fram áhættumat.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 600. fundur - 10.04.2019

Lögð fram drög að bréfi bæjarstjóra til Hafrannsóknarstofnunar vegna bréfs sem barst frá forstjóra stofnunarinnar 8.3.2018.

Bæjarráð samþykkir drögin og felur bæjarstjóra að senda bréfið.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 610. fundur - 25.06.2019

Lagt fram svarbréf Héðins Valdimarssonar sviðsstjóra Umhverfisráðs Hafrannsóknarstofnunar, dags. 19.06.2019 við fyrirspurn bæjarráðs frá 9. apríl sl., þar sem óskað var upplýsinga um burðarþolsmat og áhættumat sjókvíeldis í Eyjafirði. Í svari kemur fram verið sé að vinna úr gögnum varðandi mælingar á burðarþoli og að niðurstöðu megi vænta um miðjan september. Þá kemur fram að áhættumat verði tilbúið nokkru síðar.

Bæjarráð óskar eftir að fá sent burðarþol frá Eyjafirði í september þegar það liggur fyrir.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 620. fundur - 17.09.2019

Lagt fram til kynningar erindi Héðins Valdimarssonar fh. Hafrannsóknastofnunar, dags. 06.09.2019 þar sem eftirfarandi kemur fram: Í bréfi Hafrannsóknastofnunar frá 19.6.2019 var ykkur gefið svar við fyrirspurn til forstjóra stofnunarinnar um hvenær vænta megi burðarþols- og áhættumats fyrir Eyjafjörð. Í svari var talað um miðjan september 2019. Nú hafa verið sett ný lög um fiskeldi sem kveða á um svæðaskiptingu vegna burðarþols og áhættumats. Tenging burðarþols og áhættumats verður nánari. Þetta er mun umfangsmeiri vinna en áður, meðal annars með umsagnarskyldu annarra stofnana, sem lengir ferlið að burðarþoli og áhættumati verulega. Samlestri nýju laganna við þau gömlu er ekki lokið þannig að umhverfi þessarar vinnu er þar að auki ekki frágengið og því ljóst að erfitt er að segja til um hve langan tíma hún tekur. En víst er að fyrri tímasetning burðarþols og áhættumats fyrir Eyjafjörð stendur ekki.

Bæjarráð lýsir vonbrigðum sínum með þann drátt sem orðið hefur á vinnu við burðarþol og áhættumat sjókvíeldis í Eyjafirði og bendir á að nú í haust er ár liðið frá því niðurstöðu var fyrst að vænta.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að skrifa bréf til Hafrannsóknastofunnar í samræmi við það sem fram kom á fundinum.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 625. fundur - 22.10.2019

Lögð fram drög að bréfi bæjarráðs til Hafrannsóknarstofnunnar, dags. 18.10.2019 þar sem óskað er eftir því að fá tímasetningar á áhættumati og burðarþoli fyrir Eyjafjörð.

Bæjarráð samþykkir drögin og felur bæjarstjóra að senda bréfið á Héðinn Valdimarsson sviðstjóra Hafrannsóknarstofnunar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 653. fundur - 26.05.2020

Lögð er fram fundargerð 9. fundar stjórnar Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) dags. 6. maí 2020, fundargerð 3475. fundar bæjarstjórnar Akureyrarbæjar dags. 19. maí 2020 og svar Hafrannsóknarstofnunar við spurningum SSNE varðandi burðar- og áhættumat í Eyjafirði dags. 12. maí 2020.

Bæjarráð Fjallabyggðar tekur undir margt sem fram kemur í seinni samþykktri bókun bæjarstjórnar Akureyrar sem og bókun stjórnar SSNE varðandi stöðu mögulegs fiskeldis í Eyjafirði. Bæjarráð leggst hinsvegar eindregið gegn samþykktri fyrri bókun bæjarstjórnar Akureyrar á sama fundi um sama mál, þar sem lagt er að sjávarútvegsráðherra að banna allt laxeldi í sjó í Eyjafirði, án frekari umræðu og samráðs sveitarfélaga á svæðinu.
Með uppbyggingu undanfarinna ára hefur laxeldi í sjó haslað sér völl sem mikilvæg atvinnugrein á Íslandi um leið og í ljós hafa komið miklir möguleikar til frekari þróunar greinarinnar. En á sama tíma og ljóst er að miklir möguleikar eru til þróunar og vaxtar greinarinnar þá er einnig ljóst að varlega þarf að stíga til jarðar. Gæta þarf að áhrifum, jákvæðum sem neikvæðum, á náttúru og hugsanlegum áhrifum á aðrar atvinnugreinar sem og samfélög í heild. Því telur bæjarráð nauðsynlegt að gaumgæfa allar hliðar máls og að það sé best gert með öflugu samtali og samráði allra sveitarfélaga við Eyjafjörð með þátttöku íbúa og þekkingarsamfélags.

Bæjarráð Fjallabyggðar leggur til við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann óski nú þegar eftir mati á burðarþoli Eyjafjarðar m.t.t. fiskeldis og að í beinu framhaldi verði unnið áhættumat fyrir erfðablöndun vegna mögulegs fiskeldis í Eyjafirði.

Að síðustu ítrekar bæjarráð mikilvægi þess að áfram verði unnið í anda þess samráðs sem verið hefur með sveitarfélögum í firðinum og að virðing sé ætíð borin fyrir sjónarmiðum þeirra sem sjá tækifæri framtíðar í fiskeldi.

Bæjarstjóra falið að koma ofangreindum sjónarmiðum á framfæri við ráðherra, sveitarfélögin við Eyjafjörð og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.