Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar

169. fundur 30. júlí 2014 kl. 17:00 - 17:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Guðmundur J Skarphéðinsson formaður, F lista
  • Hilmar Þór Elefsen varaformaður, S lista
  • Kristjana Rannveig Sveinsdóttir varamaður, S lista
  • Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir aðalmaður, D lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, B lista
  • Ármann Viðar Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar
  • Arnar Freyr Þrastarson tæknifulltrúi
Fundargerð ritaði: Arnar Freyr Þrastarson tæknifulltrúi

1.Breyting á deiliskipulagi Vesturtanga

Málsnúmer 1405044Vakta málsnúmer

Á 167. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var samþykkt að óveruleg breyting á deiliskipulagi Vesturtanga yrði grenndarkynnt nálægum lóðarhöfum. Grenndarkynning fór fram skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lauk henni þann 8. júlí síðastliðinn. Engar athugasemdir bárust.

 

Nefndin samþykkir framlagða deiliskipulagsbreytingu og felur tæknideild að senda auglýsingu um staðfestingu deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda og í framhaldinu til Skipulagsstofnunar.

2.Umsókn um stöðuleyfi fyrir lausa kennslustofu á lóð Leikskála

Málsnúmer 1407037Vakta málsnúmer

Fjallabyggð sækir um stöðuleyfi fyrir lausa kennslustofu á lóð leikskólans Leikskála að Brekkugötu 2 á Siglufirði til bráðabirgða. Kennslustofan yrði staðsett sunnan við núverandi leikskólabyggingu.

 

Nefndin samþykkir stöðuleyfi fyrir bráðabirgða kennslustofu.

3.Beiðni um lagfæringu á gangstétt og leyfi fyrir bílastæði

Málsnúmer 1407051Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Hilmari Þ. Hreiðarssyni og Sigríði Ó. Salmannsdóttur þar sem þau óska eftir að gangstétt við fasteign sína að Hvanneyrarbraut 74 á Siglufirði verði endurnýjuð. Gangstéttin sé brotin og við það að ganga niður í garð þeirra, auk þess sem hún valdi slysahættu fyrir gangandi vegfarendur. Aukinheldur óska þau eftir leyfi nefndarinnar til að gera bílastæði norðan við fasteign sína.

 

Nefndin samþykkir leyfi fyrir bílastæði en vísar erindi um endurnýjun gangstéttar til gerð fjárhagsáætlunar ársins 2015 þar sem búið er að ráðstafa fjármunum til gangstétta fyrir árið 2014.

4.Gönguleið vestan brúar

Málsnúmer 1407007Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Þorsteini Ásgeirssyni þar sem hann óskar eftir því að gamli vegurinn vestan við Ósinn í Ólafsfirði verði lagfærður sem göngu- og hjólastígur, en hann er oft umflotinn vatni og því ekki fær vegfarendum.

 

Nefndin samþykkir að ofangreind gönguleið verði lagfærð, en mælist til þess að Vegagerðin komi að gerð áningarstaðar á svæðinu vestan Óss líkan þeim sem er í Héðinsfirði og á Saurbæjarás, Siglufirði.
Nefndin felur tæknideild að senda bréf til Vegagerðarinnar er varðar málið.

5.Umsókn um byggingarleyfi, Aðalgata 26

Málsnúmer 1406063Vakta málsnúmer

Á 168. fundi nefndarinnar voru fyrirhugaðar breytingar á Aðalgötu 26 samþykktar, þó ekki leyfi fyrir bílalúgu á austurhlið hússins. Deildarstjóri tæknideildar hefur skoðað útfærslu á aðkomu að bílalúgu og þarf að breyta Grundargötu milli Aðalgötu og Eyrargötu í einstefnugötu til norðurs svo hægt verði að setja upp bílalúgu á austurhlið Aðalgötu 26.

 

Nefndin telur það ekki mögulegt að gera Grundargötu að einstefnugötu þar sem göturnar austan og vestan við Grundargötu, Lækjargata og Norðurgata eru báðar einstefnugötur til norðurs. Að auki þyrfti að fjarlægja gangstétt við bílalúgu og þar með þröngva gangandi vegfarendur út á götuna.

 

Af öllu framansögðu, hafnar nefndin gerð bílalúgu á austurhlið hússins.

6.Lokun vegar við Hannes Boy

Málsnúmer 1407054Vakta málsnúmer

Borist hefur ábending um að vegur um bátadokk með fram Hannes Boy hafi verið lokað án leyfis.

 

Nefndin ítrekar bókun 79. fundar bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 13. júní 2012 þar sem segir meðal annars: "Að höfðu samráði við lögreglu er yfirhafnarverði heimilt að loka götunni tímabundið". Einnig bendir nefndin á að umræddur vegur er einstefnu vistgata og því þurfa ökumenn að sýna gangandi vegfarendum sérstaka tillitssemi og víkja fyrir þeim.

7.Ósk um leyfi til að halda hænur og hana

Málsnúmer 1407027Vakta málsnúmer

Guðmundur Ó. Einarsson óskar eftir leyfi nefndarinnar til að halda hænur og hana að Hvanneyrarbraut 52 á Siglufirði. Meðfylgjandi er samþykki íbúa Hvanneyrarbrautar 48 og 50.

 

Samkvæmt samþykkt um búfjárhald samþykkir nefndin leyfi fyrir hænur en hafnar leyfi fyrir hana.

8.Umsókn um lóð, Skútustígur 4

Málsnúmer 1407061Vakta málsnúmer

Einar Á. Sigurðsson og Stefanía G. Ámundadóttir sækja um lóðina Skútustíg 4 á Saurbæjarási, Siglufirði undir frístundahús.

 

Einnig lagður fram lóðarleigusamningur fyrir áðurnefnda lóð.

 

Nefndin samþykkir úthlutun og lóðarleigusamning með fyrirvara um greiðslu lóðarúthlutunargjalds.

9.Lóðarleigusamningur, Ægisgata 8

Málsnúmer 1407026Vakta málsnúmer

Lagður fram lóðarleigusamningur fyrir Ægisgötu 8, Ólafsfirði.

 

Erindi samþykkt.

10.Lóðarleigusamningur, Laugarvegur 15

Málsnúmer 1407029Vakta málsnúmer

Lagður fram lóðarleigusamningur fyrir Laugarveg 15 á Siglufirði.

 

Erindi samþykkt.

11.Starf tæknifulltrúa

Málsnúmer 1407035Vakta málsnúmer

Umsóknarfrestur í starf tæknifulltrúa Fjallabyggðar er runninn út og bárust fjórar umsóknir. Lagt fram til kynningar minnisblað deildarstjóra tæknideildar þar sem fram kemur að Írisi Stefánsdóttur verði boðin staðan.

12.Aðalgata Siglufirði, vistgata

Málsnúmer 1407046Vakta málsnúmer

Að beiðni fyrirtækja við Aðalgötu á Siglufirði hefur verið merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða við Aðalgötu 34. Einnig hafa gulir stólpar verið fjarlægðir og munu blómaker koma í stað þeirra.

13.Rekstraryfirlit maí 2014

Málsnúmer 1407018Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar rekstraryfirlit fyrir maí 2014.

Niðurstaða fyrir hreinlætismál er 8,5 millj. kr. sem er 98% af áætlun tímabilsins sem var 8,7 millj. kr.

Niðurstaða fyrir skipulags- og byggingarmál er 8,5 millj. kr. sem er 95% af áætlun tímabilsins sem var 9,0 millj. kr.

Niðurstaða fyrir umferðar- og samgöngumál er 42,6 millj. kr. sem er 95% af áætlun tímabilsins sem var 45,0 millj. kr.

Niðurstaða fyrir umhverfismál er 12,0 millj. kr. sem er 112% af áætlun tímabilsins sem var 10,7 millj. kr.

Niðurstaða fyrir eignasjóð er -58,4 millj. kr. sem er 127% af áætlun tímabilsins sem var -46,0 millj. kr.

Niðurstaða fyrir þjónustumiðstöð er 10,2 millj. kr. sem er 108% af áætlun tímabilsins sem var 9,7 millj. kr.

Niðurstaða fyrir veitustofnun er -2,9 millj. kr. sem er -102% af áætlun tímabilsins sem var 2,8 millj. kr.

Fundi slitið - kl. 17:00.