Bæjarráð Fjallabyggðar

479. fundur 13. desember 2016 kl. 08:00 - 09:15 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Steinunn María Sveinsdóttir formaður, S lista
  • S. Guðrún Hauksdóttir aðalmaður, D lista
  • Sólrún Júlíusdóttir aðalmaður, B lista
Starfsmenn
  • Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri
  • Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála
Fundargerð ritaði: Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Krafa vegna framkvæmda við skólpdælustöð á lóð Síldarleitarinnar sf. Tjarnargötu 14-16

Málsnúmer 1612007Vakta málsnúmer

Bæjarráð bókar eftirfarandi:

Borist hefur tölvupóstur, dagsettur 2. desember 2016 frá Síldarleitinni sf., þar sem farið er fram á greiðslu vegna tjóns og rekstrartaps Síldarleitarinnar sf. vegna framkvæmda við skólpdælubrunn, sem dælir skólpi úr aðalræsi bæjarins 155 m út fyrir grjótvörnina.
Fullyrt er að allar framkvæmdir við fráveituna hafi verið án heimildar eða samþykkis lóðarleiguhafa.

Lóðarleiguhafa var gert viðvart löngu áður en framkvæmdir hófust og er Fjallabyggð í fullum rétti að staðsetja útrásarbrunninn þar sem hann er, en hann er 0.3 m inn á lóð Tjarnargötu 16. Rétt er að vitna í lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna lög nr. 9/2009 18.grein fyrri málsgrein, en þar segir:

"Skylt er landeigendum og lóðarhöfum að láta af hendi land, mannvirki og landsafnot og þola nauðsynlegar eignaskiptir vegna fráveituframkvæmda og lagna".

Ennfremur segir í samþykkt Fjallabyggðar um fráveitu og rotþrær 15. grein:

"Eigendum fasteigna er skylt að hlíta því að lagnir fráveitu sveitarfélagsins séu lagðar um lóðir þeirra eða lönd og fram fari nauðsynlegt viðhald og hreinsun. Fjallabyggð er skylt að halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um og færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið".

Samkvæmt upplýsingum frá tæknideild Fjallabyggðar höfðu framkvæmdir við útrásina mjög lítil áhrif á rekstur gistiheimilisins.

Bæjarráð Fjallabyggðar vísar öllum ásökunum á hendur bæjarfélagsins, sem fram koma í tölvupósti Síldarleitarinnar sf. alfarið á bug og hafnar kröfu fyrirtækisins.

Þá má benda á að fyrri útrás var staðsett örfáum metrum utan grjótvarnarinnar, en nú er skolpinu dælt í viðtaka 155 metra frá landi.

2.Fyrirspurn Sólrúnar Júlíusdóttur vegna samanburðar gjalda

Málsnúmer 1612012Vakta málsnúmer

Á 478. fundi bæjarráðs, 6. desember 2016, óskaði Sólrún Júlíusdóttir eftir því að samanburður gjalda á árunum 2014-2016 yrði skoðaður auk áætlaðra gjalda á árinu 2017. Gjöldin sem skoðuð yrðu, væru fasteignaskattar með öllu tilheyrandi, leikskólagjöld, lengd viðvera, skólamatur og tónskóli.

Bæjarstjóri kynnti svör við fyrirspurn.

Sólrún Júlíusdóttir óskar að eftirfarandi sé bókað.

"Í greinargerð bæjarstjóra er ekki svarað með fullnægjandi hætti fyrirspurn minni. Sem dæmi, þá byggjast svör að hluta til á prósentum í stað fjárhæða. Einhverjum gjöldum hjá leikskólanum var sleppt. Þá virðist vera tekin inn í dæmið meðaltalshækkun allra eigna, þ.m.t. atvinnuhúsnæði, sem skekkir myndina gagnvart þróun á fasteignamati íbúðarhúsnæðis.
Undirrituð leggur áherslu á að menn geri sér grein fyrir þeim breytingum á gjöldum og sköttum sem íbúar hafa tekið á sig á undanförnum árum, sem síðan leiðir til sterkrar stöðu sveitarsjóðs.

Undirrituð telur að það sé komið að þolmörkum í skattlagningu á íbúa sveitarfélagsins og hvetur til samráðs allra bæjarfulltrúa til að skoða álögur á bæjarbúa.

Undirrituð leggur því til að boðað verði til samráðs við íbúa sveitarfélagsins, á nýju ári, með því að halda íbúaþing um áherslur í rekstri sveitarfélagsins, fyrir gerð næstu fjárhagsáætlunar".

Bæjarstjóri óskaði að bókað væri að hann vísaði því á bug að fyrirspurn hafi verið svarað á ófullnægjandi hátt.

Meirihluti bæjarráðs vill ítreka að bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins samþykkti fjárhagsáætlun 2017, þmt. gjaldskrárhækkanir, án athugasemda. Þess má geta að sami bæjarfulltrúi hefur samþykkt gjaldskrárhækkanir og fjárhagsáætlanir áranna 2014, 2015 og 2016.

Lífsnauðsynlegt er fyrir bæjarsjóð að vera rekinn með rekstrarafgangi til þess að hægt sé að viðhalda góðu þjónustustigi og sinna innviðauppbyggingu og viðhaldi. Rekstrarniðurstaða ársins 2016 er lakari en rekstarniðurstaða ársins 2015, vegna mikilla launahækkana og hækkana á lífeyrisskuldbindingum og lækkandi tekna sjómanna og hafnarsjóðs vegna lægra fiskverðs.

3.Starf deildarstjóra fræðslu- frístunda- og menningarmála

Málsnúmer 1611090Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa beiðni um síðasta vinnudag til bæjarráðs.
Á 139. fundi bæjarstjórnar, 2. desember 2016, í tengslum við uppsögn Kristins J. Reimarssonar á starfi sem deildarstjóra fræðslu- frístunda- og menningarmála, var samþykkt að vísa beiðni hans um síðasta vinnudag til bæjarráðs.

Afgreiðslu frestað.

4.Launayfirlit tímabils 2016

Málsnúmer 1602012Vakta málsnúmer

Lagt fram mánaðarlegt launayfirlit fyrir nóvember 2016.

Niðurstaðan fyrir heildina er 1.008,1 m.kr. sem er 96,9% af áætlun tímabilsins sem var 1.040,0 m.kr.
Sumar deildir eru yfir áætlun tímabilsins samtals um 14,8 m.kr. á móti öðrum deildum sem eru undir áætlun, samtals um 46,7 m.kr.
Nettóniðurstaða er því 31,9 m.kr. undir áætlun tímabilsins.

5.Staðgreiðsla tímabils 2016

Málsnúmer 1603055Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar yfirlit yfir staðgreiðslu útsvars á tímabilinu 1. janúar til 30. nóvember 2016.
Innborganir nema kr. 908,5 milljónum sem er 94% af tímabilsáætlun, sem gerði ráð fyrir 963,2 milljónum.

Einnig var lagt fram yfirlit með samanburði við sjö önnur sveitarfélög fyrir sama tímabil.

6.Dagdvöl aldraðra

Málsnúmer 1609092Vakta málsnúmer

Í erindi til heilbrigðisráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar, dagsett 27. september 2016, sótti Fjallabyggð um fjölgun dagvistarrýma við dagdvöl aldraðra í Skálarhlíð á Siglufirði, úr sjö leyfum í tólf. Vísað var til þess að undanfarin ár hefði þátttaka eldra fólks í dagdvölinni verið langt umfram fjölda þessara sjö dagvistarýma eða rúmlega þreföld.
Hlutfall eldri borgara í Fjallabyggð er mjög hátt eða 19%, samanborið við landsmeðaltalið sem er 12%.

Í svari Velferðarráðuneytisins frá 30. nóvember 2016, kemur fram skilningur á mikilvægi dagdvalar sem stoðþjónustu við aldraða sem búa heima, en í fjárlögum þessa árs sé ekki gert ráð fyrir auknu fjármagni til fjölgunar dagdvalarrýma. Ef aðstæður breytast muni ráðuneytið hafa erindið í huga.

Bæjarráð lýsir yfir vonbrigðum sínum með niðurstöðuna.

7.Öldungaráð Fjallabyggðar

Málsnúmer 1610077Vakta málsnúmer

Á 137. fundi bæjarstjórnar 26. október 2016, var samþykkt að stofna sérstakt öldungaráð í Fjallabyggð.

Hlutverk öldungaráðs er að vera bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni og hagsmuni bæjarbúa 67 ára og eldri.
Ráðið á að stuðla að upplýsingagjöf og samstarfi, móta stefnu og gera tillögur til bæjaryfirvalda. Öldungaráðið er vettvangur samráðs bæjarbúa 67 ára og eldri, félagasamtaka þeirra, atvinnulífs og bæjarins og er virkur þátttakandi í allri stefnumótun málaflokksins eins og segir í samþykkt ráðsins.

Öldungaráðið verði skipað fulltrúum frá félögum eldri borgara í Ólafsfirði og Siglufirði auk fulltrúa sem bæjarstjórn Fjallabyggðar tilnefnir.

Lögð fram til kynningar tillaga að samþykkt fyrir öldungaráð.

Bæjarráð óskar eftir tilnefningum frá félagi eldri borgara í Ólafsfirði og á Siglufirði, tveimur frá hvoru félagi hið fyrsta.
Fulltrúi bæjarfélagsins verður kosinn á bæjarstjórnarfundi 14. desember 2016.

8.Göngubrú yfir Ólafsfjarðará

Málsnúmer 1504048Vakta málsnúmer

Í erindi Haraldar Marteinssonar, dagsettu 17. nóvember 2016, er óskað eftir afstöðu Fjallabyggðar til göngubrúar yfir Ólafsfjarðará, þar sem brúin sé að hruni komin.

Samkv. aðalskipulagi Fjallabyggðar 2008-2028, er göngubrúin ekki á skipulagðri gönguleið.
Brúin stendur á einkalandi Kálfsár og Þóroddsstaða.

Umsögn deildarstjóra tæknideildar lögð fram.

Töluverð hætta stafar af brúnni í dag og allt viðhald fram til þessa vegna brúarinnar hefur verið á vegum bæjarfélagsins.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir áætlun á kostnaði við að láta fjarlægja brúnna.

9.Hluthafafundur Seyru ehf - 16. desember 2016

Málsnúmer 1612014Vakta málsnúmer

Boðað er til hluthafafundar í Seyru ehf föstudaginn 16. desember 2016, þar sem m.a. verður kynning á fyrirhugaðri sölu á húseign félagsins.

Fulltrúi Fjallabyggðar er Ríkharður Hólm Sigurðsson.

10.Tilkynning um skil starfshóps um málefni Mentor og ný persónuverndarlöggjöf

Málsnúmer 1612009Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett 6. desember 2016, vegna skila starfshóps sem settur var saman til þess að bregðast við áliti Persónuverndar í máli nr. 1203/2015 og varðaði skráningu og meðferð persónuupplýsinga um nemendur í grunnskóla í rafræn upplýsingakerfi. Jafnframt voru lagðar fram leiðbeiningar og tillögur til sveitarfélaga og grunnskóla til þess að samræma viðbrögð og bæta framkvæmd svo hún uppfylli gildandi persónuverndarlöggjöf, með það að markmiði að undirbúa sveitarfélögin undir nýjar persónuverndarreglur sem áætlað er að taki gildi í maí 2018.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til kynningar í fræðslu- og frístundanefnd.

11.Úthlutun námsleyfa vegna skólaársins 2017-2018

Málsnúmer 1612016Vakta málsnúmer

Lögð fram tilkynning frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett 6. desember 2016, sem send var til grunnskóla, skólaskrifstofa, formanna fræðslunefnda og framkvæmdastjóra sveitarfélaga.

Þar kemur m.a. fram að úthlutun námsleyfa vegna skólaársins 2017-2018 sé lokið. Alls bárust Námsleyfasjóði 144 fullgildar umsóknir. Fjármagn til úthlutunar leyfði að veitt yrðu 35 námsleyfi. Aðeins var hægt að verða við um 24% þeirra beiðna sem fyrir lágu og því ljóst að mörgum fullgildum umsóknum varð að hafna.

Nöfn námsleyfishafa verða birt á vefsíðu Námsleyfasjóðs um miðjan desember nk.

12.Hjúkrunarheimili - minnisblað vegna uppgjörs og gjaldskrá

Málsnúmer 1612018Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar minnisblað samstarfsnefndar Sjúkratrygginga Íslands, SFV og Sambands íslenskra sveitarfélaga um fyrirkomulag og uppgjör á 1.500 m. kr. vegna aukinna útgjalda hjúkrunarheimila.

Bæjarráð fagnar auknu fjármagni til reksturs hjúkrunarheimila.

13.Samstarf við Ferðamálastofu

Málsnúmer 1611050Vakta málsnúmer

Á 476. fundi bæjarráðs, 22. nóvember 2016, var tekin fyrir ósk Ferðamálastofu um samstarfi við sveitarfélög vegna utanumhalds um gagnasafn með mögulegum viðkomustöðum ferðafólks.
Bæjarráð samþykkti að verða við beiðninni og fól markaðs- og menningarfulltrúa, Lindu Leu Bogadóttur verkefnið.

Afgreiðsla lögð fram til kynningar.

14.Upptaka frá UT-deginum - Nýjar persónuverndarreglur o.fl.

Málsnúmer 1612020Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett 6. desember 2016, vegna UT-dagsins, sem haldinn var 1. desember sl., en þar voru kynnt áhrif nýrrar ESB-löggjafar, sem verður innleidd í íslensk lög á næstu misserum, um persónuvernd og net og upplýsingaöryggi, á stofnanir ríkisins og sveitarfélög. Þessar nýju reglur fela í sér auknar kröfur á opinbera og einkaaðila í þessum efnum. Í niðurlagi bréfs sambandsins til allra sveitarfélaga kemur fram að afar mikilvægt að sveitarfélög fari nú þegar að huga að undirbúningi fyrir hina nýju löggjöf.
Sveitarfélög eru þess vegna hvött til að kynna sér upptöku af framsögum á UT-deginum á http://www.samband.is/vidburdir/fundir-og-radstefnur/atburdir/2016/12/01/eventnr/958 og upplýsingar á heimasíðu Persónuverndar http://www.personuvernd.is/ny-personuverndarloggjof-2018/.

15.Fundargerðir Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga - 2016

Málsnúmer 1601006Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 30. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga frá 24. nóvember 2016.

16.Fundargerðir nefnda og stjórna Fjallabyggðar - 2016

Málsnúmer 1601013Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð Skipulags- og umhverfisnefnd frá 7. desember 2016

Fundi slitið - kl. 09:15.