Byggðasamlag um málefni fatlaðra.

Málsnúmer 1312030

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 95. fundur - 12.12.2013

Í framhaldi af aukaþingi SSNV sem haldið var 5. desember sl. kynnti forseti tillögu um að Fjallabyggð gerðist aðili að byggðasamlagi um málefni fatlaðra.

Jafnframt voru kynntar samþykktir fyrir byggðasamlagið sem koma munu til afgreiðslu á stofnfundi.

Hlutverk byggðasamlagsins er að veita, fyrir hönd aðildarsveitarfélaganna, fötluðu fólki, sem á lögheimili í aðildarsveitarfélögunum, þjónustu í samræmi við lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum.

Til máls tóku Sigurður Hlöðvesson, Ingvar Erlingsson og Egill Rögnvaldsson.

Eftirfarandi tillaga var samþykkt með 9 atkvæðum.
"Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkir að gerast aðili að byggðasamlagi um málefni fatlaðs fólks á grundvelli 94. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Aðilar að byggðasamlaginu eru: Akrahreppur, Blönduósbær, Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Sveitarfélagið Skagaströnd.
Miðað er við að stofnfundur byggðasamlagsins verði haldinn fyrir lok janúar 2014.
Bæjarstjórn Fjallabyggðar veitir forseta bæjarstjórnar umboð til þess að sækja stofnfundinn og staðfesta aðild sveitarfélagsins með undirritun samþykkta sem eru stofnskjal byggðasamlagsins, skv. 94. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Umboðið nær einnig til áritunar stofnefnahags, með fyrirvara um breytingar sem kunna að verða á því skjali."

Bæjarráð Fjallabyggðar - 330. fundur - 28.01.2014

Lögð fram til kynningar dagskrá stofnfundar Byggðasamlags um málefni fatlaðs fólks, sem haldinn verður á Sauðárkróki miðvikudaginn 29. janúar 2014.

Lögð var fram tillaga um breytingar í skipan í stjórn samlagsins.

Ingvar Erlingsson, aðalmaður

Margrét Ósk Harðardóttir, varamaður


Samþykkt samhljóða.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 79. fundur - 30.01.2014

Deildarstjóri gerði félagsmálanefnd grein fyrir vinnu þjónustuhóps vegna rekstraráætlunar málefna fatlaðra fyrir árið 2014. Eins og áður hefur komið fram er byggðasamlag um málefni fatlaðs fólks að glíma við verulegan samdrátt í tekjuframlagi frá Jöfnunarsjóði fyrir árið 2014. Þrátt fyrir skert framlag er ekki gert ráð fyrir skerðingu á grunnþjónustu á árinu.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 331. fundur - 04.02.2014

Á stofnfundi nýs byggðasamlags sem haldinn var 29. janúar 2014 á Sauðárkróki, undirrituðu fulltrúar níu sveitarfélaga samþykktir nýs byggðasamlags sem fengið hefur nafnið Rætur bs.

Tilgangur samlagsins er að fara með málefni fatlaðs fólks á vestanverðu Norðurlandi. Aðildarsveitarfélög byggðasamlagsins eru; Akrahreppur, Blönduósbær, Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Sveitarfélagið Skagaströnd.

Lagt fram til kynningar.