28.04.2006
Ársreikningur Siglufjarðarkaupstaðar fyrir árið 2005 var afgreiddur í fyrri umræðu í bæjarstjórn og vísað til síðari umræðu. Rekstrarniðurstaða A og B hluta bæjarsjóðs var jákvæð um rúmar 14 milljónir króna sem er um 30 milljónum króna betri niðurstaða en gert var ráð fyrir. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 16,5 milljóna króna halla. Engin lán voru tekin á árinu 2005 og hafa skuldir lækkað verulega þrátt fyrir framkvæmdir fyrir um 53 milljónir króna.Í niðurstöðu reikninga hafa lífeyrisskuldbindingar verið uppreiknaðar og gjaldfærast um 29 milljónir króna vegna þessa.Nánar um niðurstöðu reikninga þegar þeir hafa verði afgreiddir í bæjarstjórn.
Lesa meira
28.04.2006
Með hvaða hætti getum við íbúar Siglufjarðar nýtt okkur auðlindir bæjarfélagsins án þess að spilla afkomumöguleikum komandi kynslóða?Staðardagskrá 21 er stefnumótun í samræmi við viðamikla áætlun um sjálfbæra þróun sem gerð var á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1992. Hugtakið sjálfbær þróun felur í sér umhyggju fyrir velferð komandi kynslóða. Undanfarið hefur vinnuhópur unnið að gerð Staðardagskrár fyrir Siglufjörð og er hægt að nálgast þau drög að klikka á Staðardagskrámerkið hér til hliðar. Staðardagskrá 21 er ekki einkamál sveitarstjórnar eða ákveðinna nefnda. Allir íbúar eiga að hafa tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.Athugasemdum er hægt að koma á framfæri með því að senda tölvupóst á arnar@siglo.is eða senda bréf til Arnars H. Jónssonar umhverfis- og garðyrkjustjóra Gránugötu 24, 580 Siglufjörður.Í hvaða verkefni á að ráðast? Hvað er vel gert og hvað ekki? Hvernig viltu að bæjarfélagið þitt verði árið 2020?Sendu okkur línu og legðu þannig þitt af mörkum til að skapa spennandi framtíðarsýn fyrir Siglufjörð. Til að fá frekari upplýsingar eða til að koma ábendingum á framfæri er bent á að hafa samband við Arnar Heimir Jónsson í síma 695-3113.
Lesa meira
26.04.2006
Framboðsfrestur vegna sveitarstjórnakosninganna 27. maí 2006 rennur út kl. 12.00 á hádegi laugardaginn 6. maí 2006.Yfirkjörstjórn í sameinuðu sveitarfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar verður með aðsetur á bæjarskrifstofunni á Siglufirði, Gránugötu 24., 2. hæð. Þar mun hún taka á móti framboðum á milli kl. 10.00 og 12.00 á hádegi laugardaginn 6. maí 2006.Yfirkjörstjórn í sameinuðu sveitarfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar25. apríl 2006. Guðgeir Eyjólfsson formaðurArndís FriðriksdóttirÁmundi Gunnarsson
Lesa meira
19.04.2006
Á páskadag var stofnuð sjálfseignarstofnunin Síldarminjasafn Íslands. Stofnendur eru Félag áhugamanna um minjasafn og Siglufjarðarkaupstaður. Stofnframlög hvors aðila fyrir sig eru húseignir, lóðir og allir munir þeir sem fram að þessu hafa myndað Síldarminjasafnið. Tilgangurinn með með þessari breytingu er að einfalda eignarhald og rekstur, enn fremur að skerpa og styrkja stöðu safnsins á landsvísu. Í samræmi við það var nafninu breytt úr Síldarminjasafnið á Siglufirði í Síldarminjasafn Íslands ses. Þjóðminjasafnið skipar nú fulltrúa í stjórn safnsins og er það Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður. Auk hennar voru kjörnir í þriggja manna stjórn, Runólfur Birgisson, bæjarstjóri og Hafþór Rósmundsson formaður Fáum. Varamenn eru Ólafur Kárason, formaður bæjarráðs, Hinrik Aðalsteinsson, ritari Fáum og Ágúst Georgsson frá Þjóðminjasafninu. Þá var Örlygur Kristfinnsson ráðinn forstöðumaður Síldarminjasafnsins.
Lesa meira
19.04.2006
Siglufjarðarkaupstaður hefur hafið vinnu við fyrstu útgáfu staðardagkrá 21 á Siglufirði.
HVAÐ ER STAÐARDAGSKRÁ 21?
Staðardagskrá 21 er sérstök heildaráætlun bæja- og sveitarfélaga um hvernig þau eigi að þróast með sjálfbærum hætti.
Áætlunin tekur ekki einungis til umhverfismála heldur nær hún til vistfræðilegra, efnahagslegra og félagslegra þátta. Hér er því um að ræða langtímaáætlun um þróun samfélagsins fram á næstu öld.
Hún snýst um hagkvæmar og áþreifanlegar aðgerðir, um lífstíl og hegðun, um neyslu og daglegt líf fólksins.
Áætlunin á að hafa það að markmiði að koma á sjálfbærri þróun í hverju samfélagi og skila því aftur í jafn góðu ástandi til þeirra sem við því taka.
Í staðardagskrá 21 eru sett fram skýr markmið og leiðir að sjálfbærri þróun, þ.e.a.s. aðgerðir til að stuðla að og viðhalda umhverfis-gæðum.
Staðardagskrá 21 kemur okkur öllum við.
HVERS VEGNA ÞARF AÐ VERA STAÐARDAGSKRÁ 21 Á SIGLUFIRÐI?
Á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál í Río de Janeiro árið 1992 skuldbundu um 180 þjóðir sig til að taka þátt í verkefninu og búa til Staðardagskrá fyrir hvert samfélag og var Ísland þar á meðal. Hvert sveitarfélag kemur þar að. því þarf að útbúa slíka dagskrá m.a. fyrir Siglufjörð. Staðardagskrá 21 er heildaráætlun um þróun einstakra samfélaga og með henni gefst íbúum sem og öðrum er hér koma að verki kjörið tækifæri til að hafa áhrif á langtíma skipulag þessara mála.
HVERJIR KOMA AÐ ÞESSU VERKI?
Vinnuhópur var settur á laggirnar í nóvember 2005 til að vinna að gerð stöðumats og framkvæmdaráætlunnar í staðardagskrá 21. Valinn var átta manna vinnuhópur .
Í vinnuhópnum eru m.a. Jón Dýrfjörð, Marin Gústafsdóttir, Ómar Möller, Jónína Magnúsdóttir, María Elín Sigurbjörsdóttir, Örlygur Kristfinnsson og Egill Rögnvaldsson.
Allir íbúar á Siglufjarðar koma á einn eða annan hátt hér að verki. Staðardagskrá 21 er ekki einkamál ákveðinna þröngra hópa heldur varðar þetta samfélagið í heild sinni. Auk íbúa eru það fyrirtæki, stofnanir og stjórnkerfið sem þurfa að koma að gerð verkefnisins.
Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér á siðunni undir liðnum umhverfismál/Staðardagskrá.
Lesa meira
19.04.2006
Siglufjarðarkaupstaður óskar eftir að ráða leiðbeinendur við Vinnuskólann í sumar. Umsækjendur munu starfa með ungu fólki við fjölbreytt verkefni s.s. við uppbyggingu og viðhald grænna svæða í bæjarfélaginu. Æskilegt er að umsækjendur séu orðnir 20 ára. Hæfniskröfur: Reynsla og eða menntun í störfum tengdum ungu fólki, ánægja af útivist og garðyrkju. Létt lund, stundvísi og snyrtimennska. Skriflegri umsókn skal skilað á skrifstofu Siglufjarðarkaupstað fyrir 30. apríl næstkomandi. Í umsókninni þarf að koma fram; Almennar upplýsingar, menntun, fyrri störf og annað sem umsækjandi telur viðeigandi. Upplýsingar um launakjör eru veittar á skrifstofu Siglufjarðarkaupstaðar í síma 460-5600.
Lesa meira
18.04.2006
Nýverið hlaut Siglufjarðarkaupstaður styrk úr Leonardo da Vinci sjóð Evrópusambandsins. Styrkurinn er ætlaður til mannaskipta/starfsmannaskipta fyrir leiðbeinendur og stjórnendur fyrirtækja og stofnana. Styrkupphæðinn verður notuð fyrir nokkra sjórnendur bæjarins til að kynna sér sveitarfélag eða sveitarfélög innan Evrópusambandsins. Nánar má sjá lista yfir þá sem fengu úthlutað á slóðinni www.leonardo.is Siglufjarðarkaupstaður er fyrsta sveitarfélagið hér á landi sem fær úthlutað úr sjóðnum. Gert er ráð fyrir að verkefnið fari að stað seinnipartinn á þessu ári.
Lesa meira
06.04.2006
Félags- og skólaþjónustan ÚtEy í samstarfi við leikskóla í Dalvíkurbyggð, Ólafsfirði og Siglufirði fengu úthlutað 250.000 kr styrk frá Menntamálaráðuneytinu úr Þróunarsjóði leikskólanna út á væntanlegt samstarfverkefni sem ber heitið ,, Stærðfræðin í leik og starfi leikskólans”. Umsjónarmaður verkefnisins er Þóra Rósa Geirsdóttir, kennsluráðgjafi.Úthlutun úr þróunarsjóði er mikil viðurkenning á því starfi sem ætlað er að vinna. ( meira) Stærðfræðin í leik og starfi leikskólansVerkefnið byggir á því að flétta þætti stærðfræðinnar markvisst og sýnilega inn í starf og námssvið leikskólanna. Unnið verður með rúmfræði og mælingar (mynstur, lengd, þyngd, flötur, rúm, tími) og með reikniaðgerðirnar fjórar út frá lausnaleit á talnasviðinu 1-10. Áherslan í stærðfræðinni verður á verklega hlutbundna vinnu, hugtök í máli og myndum og munnlega tjáningu. Ekki verður lögð áhersla á táknmál stærðfræðinnar að öðru leiti en að lesa úr tölustöfunum 1-10 og forma þá. Stærðfræðin verður tengd markvissri málörvun, tónlist, sköpun, náttúrurskoðun og umhverfisfræðslu. Gert er ráð fyrir að vinnan með stærðfræðina verði hluti af hefðbundinni þemavinnu leikskólanna sem snýr að hausti, vetri og vori. Verkefnið tengir en frekar leik- og grunnskóla saman í eina heild. Stærðfræðinni hættir til að vera afmarkað verkefni í grunnskóla og falinn hluti af námi leikskólabarna. Þekking leikskólakennara á stærðfræði ungra barna og markvisst átak til að efla þann þátt skólastarfsins er lóð á vogarskálarnar í þá átt að efla og styrkja þekkingu barna á sviðið stærðfræðinnar og þá sem hluta af daglegu lífi og umhverfi öllu.
Lesa meira