Staðardagskrá 21

Siglufjarðarkaupstaður hefur hafið vinnu við fyrstu útgáfu staðardagkrá 21 á Siglufirði. HVAÐ ER STAÐARDAGSKRÁ 21? Staðardagskrá 21 er sérstök heildaráætlun bæja- og sveitarfélaga um hvernig þau eigi að þróast með sjálfbærum hætti. Áætlunin tekur ekki einungis til umhverfismála heldur nær hún til vistfræðilegra, efnahagslegra og félagslegra þátta. Hér er því um að ræða langtímaáætlun um þróun samfélagsins fram á næstu öld. Hún snýst um hagkvæmar og áþreifanlegar aðgerðir, um lífstíl og hegðun, um neyslu og daglegt líf fólksins. Áætlunin á að hafa það að markmiði að koma á sjálfbærri þróun í hverju samfélagi og skila því aftur í jafn góðu ástandi til þeirra sem við því taka. Í staðardagskrá 21 eru sett fram skýr markmið og leiðir að sjálfbærri þróun, þ.e.a.s. aðgerðir til að stuðla að og viðhalda umhverfis-gæðum. Staðardagskrá 21 kemur okkur öllum við. HVERS VEGNA ÞARF AÐ VERA STAÐARDAGSKRÁ 21 Á SIGLUFIRÐI? Á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál í Río de Janeiro árið 1992 skuldbundu um 180 þjóðir sig til að taka þátt í verkefninu og búa til Staðardagskrá fyrir hvert samfélag og var Ísland þar á meðal. Hvert sveitarfélag kemur þar að. því þarf að útbúa slíka dagskrá m.a. fyrir Siglufjörð. Staðardagskrá 21 er heildaráætlun um þróun einstakra samfélaga og með henni gefst íbúum sem og öðrum er hér koma að verki kjörið tækifæri til að hafa áhrif á langtíma skipulag þessara mála. HVERJIR KOMA AÐ ÞESSU VERKI? Vinnuhópur var settur á laggirnar í nóvember 2005 til að vinna að gerð stöðumats og framkvæmdaráætlunnar í staðardagskrá 21. Valinn var átta manna vinnuhópur . Í vinnuhópnum eru m.a. Jón Dýrfjörð, Marin Gústafsdóttir, Ómar Möller, Jónína Magnúsdóttir, María Elín Sigurbjörsdóttir, Örlygur Kristfinnsson og Egill Rögnvaldsson. Allir íbúar á Siglufjarðar koma á einn eða annan hátt hér að verki. Staðardagskrá 21 er ekki einkamál ákveðinna þröngra hópa heldur varðar þetta samfélagið í heild sinni. Auk íbúa eru það fyrirtæki, stofnanir og stjórnkerfið sem þurfa að koma að gerð verkefnisins. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér á siðunni undir liðnum umhverfismál/Staðardagskrá.