Bæjarráð Fjallabyggðar

660. fundur 14. júlí 2020 kl. 08:15 - 08:50 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Helga Helgadóttir formaður, D lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
Starfsmenn
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
  • Elías Pétursson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Götulýsing 1. áfangi

Málsnúmer 1903002Vakta málsnúmer

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar, dags. 07.07.2020. Þar sem óskað er eftir viðauka vegna aukins kostnaðar við götulýsingu vegna áfanga 1 og 2 samtals 8 mkr.

Bæjarráð samþykkir viðauka nr. 20/2020 við framkvæmdaáætlun 2020 vegna götulýsingar kr. 8 millj. vegna aukins kostnaðar við 1. og 2. áfanga og felur bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar að leggja fram tillögu að verkefni sem hægt er að fresta til þess að koma til móts við aukinn kostnað vegna götulýsingar.

2.Ólafsvegur 34 - íbúð 301

Málsnúmer 1907006Vakta málsnúmer

Lagt fram undirritað kauptilboð í íbúð 301 að Ólafsvegi 34, Ólafsfirði.

Bæjarráð samþykkir framlagt kauptilboð og heimilar bæjarstjóra að ganga frá sölu íbúðarinnar.

3.Viðbragðsáætlun Fjallabyggðahafna - 2020

Málsnúmer 2001086Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Umhverfisstofnunar, dags. 29. 06.2020 þar sem fram kemur að Viðbragðsáætlun Fjallabyggðahafna við bráðamengun hafs og stranda er samþykkt sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 1010/2012

4.Hafnasambandsþing 2020

Málsnúmer 2007012Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Hafnasambands Íslands, dags. 03.07.2020 þar sem fram kemur að Hafnarsambandsþing 2020 verður haldið í Ólafsvík 24. -25. september nk. og óskað eftir tilnefningu sveitarfélaga á þingið eigi síðar en 1. september nk.

Bæjarráð samþykkir að bæjarstjóri og formaður hafnarstjórnar sæki þingið.

5.Beiðni um fjárhagsupplýsingar - Höfnin

Málsnúmer 2007013Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 06.07.2020 þar sem óskað er eftir fjárhagsstöðu hafna sbr. ársreikning 2019, fjárhagsáætlunar 2020 og fyrirhugaðra framkvæmda hafnarsjóðs 2019-2021. Einnig er óskað eftir afriti af ársreikningi 2019. Umbeðnar upplýsingar verða notaðar í greinargerð um fjárhagsstöðu hafna fyrir Hafnasamband Íslands. Þá eru sveitarfélög hvött til að taka þátt í könnun um áhrif Covid-19 á hafnarsjóði.
Lagður fram ársreikningur Fjallabyggðar 2019 ásamt umbeðnum upplýsingum um fjárhagsstöðu hafnarsjóðs og fyrirhugaðar framkvæmdir 2019-2021. Hafnarstjóra falið að svara könnun.

6.Markaðsherferð vegna atvinnu- og íbúaþróunar

Málsnúmer 2007015Vakta málsnúmer

Lögð fram aðgerðaráætlun auglýsingastofunnar Pipars/TBWA dags. 06.07.2020 vegna markaðsherferðar sveitarfélagsins vegna atvinnu- og íbúaþróunar.

Bæjarráð óskar eftir umsögn deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og markaðs- og menningarfulltrúa vegna kynningarherferðar fyrir ferðamenn sem nú er komin í kynningu svo og hvernig fyrirhugaðri vinnu og utanumhaldi við markaðsherferð vegna atvinnu- og íbúaþróunar verður háttað af hálfu sveitarfélagsins.

7.Frá bæjarstjórn Akureyrar vegna fyrirhugaðrar lokunar fangelsins á Akureyri

Málsnúmer 2007016Vakta málsnúmer

Lögð fram bókun bæjarstjórnar Akureyrar, dags. 08.07.2020 vegna ákvörðunar Fangelsismálastofnunar að loka fangelsinu á Akureyri.
Í bókun segir:
Bæjarstjórn Akureyrar mótmælir harðlega þeirri ákvörðun Fangelsismálastofnunar að loka fangelsinu á Akureyri án nokkurs samráðs við bæjaryfirvöld eða aðrar sveitarstjórnir á svæðinu. Yfirlýst stefna stjórnvalda hefur verið að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni og því skýtur það skökku við að fangelsismálayfirvöld taki einhliða og án nokkurs fyrirvara ákvörðun um að loka fangelsinu á Akureyri og leggja þar með niður fimm störf í bænum. Bæjarstjórn krefst þess að stjórnvöld grípi tafarlaust í taumana og ógildi þessa ákvörðun.
Bent skal á að samlegðaráhrif í starfi lögreglunnar á Norðurlandi eystra og fangelsisins á Akureyri eru og hafa um áratugaskeið verið afar mikil. Fram til þessa hafa fangaverðir á vegum Fangelsismálastofnunar einnig sinnt föngum sem gista fangageymslur lögreglunnar vegna rannsóknar mála, ölvunar eða af ýmsum öðrum ástæðum. Ef ákvörðun um að loka fangelsinu á Akureyri verður ekki afturkölluð, þurfa frá og með næstu mánaðamótum að jafnaði tveir af fimm lögreglumönnum á vakt að sinna fangavörslu flesta daga ársins. Þessi ákvörðun mun því að óbreyttu kalla á stóraukið fjármagn til löggæslu á Norðurlandi eystra en að öðrum kosti skerðist löggæsla á svæðinu svo um munar. Lögreglan á Akureyri hefur einnig með höndum eftirlit og útkallslöggæslu á Grenivík, Svalbarðseyri, í Eyjafjarðarsveit, Hörgársveit og sveitum og þjóðvegum þar í kring. Vandséð er hvernig þrír lögreglumenn geta sinnt allri slíkri löggæslu í umdæminu.
Bæjarstjórn Akureyrar telur með öllu ólíðandi að Fangelsismálastofnun geti í trássi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda í byggðamálum og án samráðs við sveitarstjórnir á svæðinu tekið slíka ákvörðun um að flytja fimm störf af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið og þar með sett löggæslu á svo stóru svæði landsins í algjört uppnám.

Bæjarráð tekur eindregið undir bókun bæjarstjórnar Akureyrar og hvetur Fangelsismálastofnun og dómsmálaráðherra til þess að endurskoða ákvörðun sína.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda erindið áfram til Fangelsismálastofnunar, dómsmálaráðherra og þingmanna kjördæmisins.

8.Gangamót Greifans, 23. júlí

Málsnúmer 2007017Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Hjólreiðafélags Akureyrar (HFA) dags. 09.07.2020 þar sem fram kemur að Gangamót Greifans og Hjólreiðafélags Akureyrar, verður haldið fimmtudaginn 23. júlí nk.. Mótið er hluti af Hjólreiðahátíð Greifans, eins og verið hefur síðustu ár.
Óskað er eftir formlegu samþykki sveitarfélagsins fyrir því að mótið verði haldið. Sömuleiðis er óskað eftir upplýsingum um hvort fyrirhugaðar séu framkvæmdir á leiðinni, fram að mótsdegi eða á mótsdeginum sjálfum. Þá er einnig óskað eftir því að sveitarfélagið aðstoði við að koma upplýsingum um mótið til íbúa og aðstoði við að útvega búnað sem gæti þurft til að setja upp í tengslum við umferðarstýringu, keilur, borðar, aðvörunar- og hjáleiðaskilti og fleira í þeim dúr. HFA gerir ráð fyrir að sveitarfélagið veiti samþykki fyrir sitt leyti, berist engar athugasemdir fyrir 17. júlí nk.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar og markaðs- og menningarfulltrúa að vinna málið áfram.

Fundi slitið - kl. 08:50.