Bæjarráð Fjallabyggðar

715. fundur 21. október 2021 kl. 08:00 - 10:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
  • S. Guðrún Hauksdóttir formaður, D lista
Starfsmenn
  • Elías Pétursson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Elías Pétursson bæjarstjóri

1.Hraðhleðslustöð í Ólafsfirði

Málsnúmer 2109073Vakta málsnúmer

Lögð er fram umsögn deildarstjóra tæknideildar dags. 13.10 2021, óskað var eftir umsögninni á 711. fundi bæjarráðs í kjölfar fyrirspurnar Jóns Valgeirs Baldurssonar f.h. H-lista. Í umsögn deildarstjóra kemur fram að hann hafi verið í samskiptum við ýmsa aðila vegna málsins og að tillaga liggi fyrir þess efnis að sett verði upp hraðhleðslustöð við Kjörbúðina og þrjár hæghleðslustöðvar við íþróttamiðstöðina. Fram kemur í minnisblaðinu að stækka þurfi heimtaugar og að huga verði að gjaldtöku.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að vinna málið áfram á þeim forsendum sem fram koma í framlagðri umsögn, einnig samþykkir bæjarráð að fela deildarstjóra að skoða möguleika á að sækja um styrki vegna hleðslustöðva og að gera ráð fyrir hlut sveitarfélagsins í uppsetningu þeirra á fjárhagsáætlun komandi árs.

2.Vinnustund - endurnýjun samnings.

Málsnúmer 2110050Vakta málsnúmer

Fram eru lögð drög að samningi við Advania um leigu og hýsingu á Vinnustund, um er að ræða endurnýjun á núgildandi samningi.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð samþykkir framlögð samningsdrög og felur deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála að undirrita samninginn f.h. sveitarfélagsins.

3.Rekstraryfirlit - 2021

Málsnúmer 2101007Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri lagði fram og fór yfir átta mánaða rekstraruppgjör sveitarfélagsins.

4.Tilboð í ræstingu í tónlistarskólanum á Siglufirði

Málsnúmer 2110061Vakta málsnúmer

Lagt er fram minnisblað deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála dags. 19. október 2021 er varðar opnun tilboða í ræstingu í skólahúsnæði Tónlistarskólans á Tröllaskaga, Siglufirði. Þrjú tilboð bárust í verkið, Guðrún Björg Elínardóttir bauð kr. 5.576.250,-, Minný ehf. bauð kr. 6.912.200,-, og Spikk&Span ehf. bauð kr. 5.450.805,-.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð samþykkir að ganga að tilboði lægstbjóðanda, Spikk&Span ehf. og felur deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála að ganga frá og undirrita verksamning f.h. sveitarfélagsins.

5.Merkingar á og við stofnanir sveitarfélagsins.

Málsnúmer 2109024Vakta málsnúmer

Lagt er fram minnisblað deildarstjóra tæknideildar dags. 18. október 2021, í minnisblaðinu er farið yfir ástand merkinga við stofnanir Fjallabyggðar og lagðar til úrbætur.
Vísað til umsagnar
Bæjarráð þakkar framlagt minnisblað og felur deildarstjóra tæknideildar að meta kostnað við að skipta út núverandi máluðum undirstöðum skilta og setja í stað þeirra undirstöður úr ryðfríu efni. Einnig felur bæjarráð deildastjóra tæknideilda að afla upplýsinga um eiganda upplýsingaskilta við innkomu í báða byggðakjarna og óska eftir að þau verði lagfærð, ef ekki verður orðið við því þá verði þau fjarlægð.

6.Viðauki við fjárhagsáætlun 2021

Málsnúmer 2101004Vakta málsnúmer

Lögð er fram beiðni deildarstjóra tæknideildar um viðauka við gildandi fjárhagsáætlun vegna viðgerða og úrbóta á fráveitu á Siglufirði og Ólafsfirði. Óskað er eftir 3,0 millj.kr. vegna endurnýjunar á lögn við Eyrarflöt , 2,5 millj.kr. vegna nýrrar þrýstilagnar frá dælubrunni við Gránugötu og 3,5 millj.kr. vegna skólpdælu í dælubrunn við Ósinn á Ólafsfirði.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð samþykkir framlagða ósk um viðauka og felur deildarstjóra fjármála- og stjórnsýslu að útbúa hann og leggja fyrir bæjarráð.

7.Erindi til bæjarráðs - Beiðni um framkvæmdastyrk

Málsnúmer 2110060Vakta málsnúmer

Lagt er fram erindi Golfklúbbs Fjallabyggðar dags, 14. október 2021 ásamt fylgiskjölum, í erindinu óskar golfklúbburinn eftir framkvæmdastyrk að fjárhæð 30 millj.kr. vegna uppbyggingar og framkvæmda á Skeggjabrekkuvelli. Einnig fer stjórn klúbbsins þess á leit að fá að koma á fund bæjarráðs til að fylgja erindi golfklúbbsins eftir.

Á fundinn mættu f.h. stjórnar GF; Rósa Jónsdóttir, Björn Kjartansson og Sigurbjörn Þorgeirsson.
Vísað til umsagnar og afgreiðslu
Bæjarráð þakkar fulltrúum Golfklúbbs Fjallabyggðar fyrir góðar umræður á fundinum og samþykkir að vísa framlögðu erindi til gerðar fjárhagsáætlunar.

8.Kvennaathvarfið - Umsókn um rekstrarstyrk fyrir árið 2022

Málsnúmer 2110044Vakta málsnúmer

Fram er lagt erindi Samtaka um kvennaathvarf dags. 6. október 2021, í erindinu er farið yfir helstu þætti starfs samtakanna ásamt að óskað er eftir 100.000,- kr. styrks til starfseminnar.
Vísað til umsagnar og afgreiðslu
Bæjarráð þakkar erindið og samþykkir að vísa erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar.

9.Breyting á reglugerð nr. 1212/2015 vegna reikningsskila sveitarfélaga

Málsnúmer 2110045Vakta málsnúmer

Lagt er fram til kynningar bréf Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins dags. 11. október 2021, efni bréfsins er að kynna breytingu á reglugerð 1212/2015 vegna reikningsskila sveitarfélaga.

10.Erindi frá Samgöngufélaginu varðandi uppsetningu búnaðar til útsendinga útvarps í öllum jarðgöngum á Íslandi

Málsnúmer 2110047Vakta málsnúmer

Lagt er fram erindi Samgöngufélagsins dags. 13. október 2021 er varðar útsendingu útvarps í jarðgöngum o.fl.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar erindið og tekur undir þau sjónarmið sem þar koma fram um nauðsyn þess að nú þegar verði ráðist í að setja upp búnað til útvarpssendinga í jarðgöngum.

11.Mannamót Markaðsstofa landshlutanna 2022

Málsnúmer 2110051Vakta málsnúmer

Lagður er fram tölvupóstur Rögnvalds Helgasonar f.h. Markaðsstofu Norðurlands dags. 13. október 2021. Efni póstsins er að vekja athygli á Mannamóti Markaðsstofa landshlutanna sem haldið verður 20. janúar 2022 og að opnað hafi verið fyrir skráningar á sýninguna.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð samþykkir að fela markaðs- og menningarfulltrúa að sækja sýninguna f.h. sveitarfélagsins.

12.Tilraunaveiði á urriða

Málsnúmer 2110055Vakta málsnúmer

Lagður er fram til kynningar tölvupóstur Þorvaldar Hreinssonar f.h. Veiðifélags Ólafsfjarðar dags. 13. október 2021, efni tölvupóstsins er að kynna fyrir landeigendum við Ólafsfjarðarvatn fyrirhugaðar tilraunaveiðar á urriða.

13.Útboð á sorphirðu

Málsnúmer 2110065Vakta málsnúmer

Lagt er fram minnisblað deildarstjóra tækideildar dags. 18. október 2021, í minnisblaðinu leggur deildarstjóri til að samningi vegna sorphirðu verði sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara líkt og kveðið er á um í verksamningi. Einnig óskar deildarstjóri heimildar til að bjóða verkið út að nýju.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu deildarstjóra tæknideildar og felur honum að segja upp samningi með áskildum fyrirvara og hefja undirbúning útboðs á sorphirðu í Fjallabyggð. Drög að verklýsingu nýs útboðs skulu lögð fyrir bæjarráð.

14.Skýrsla um framtíðarskipan úrgangsmála á Norðurlandi 2018 og 2019

Málsnúmer 2110054Vakta málsnúmer

Lögð er fram til kynningar skýrsla um framtíðarskipan úrgangsmála á Norðurlandi sem unnin var á árunum 2018 og 2019 fyrir Eyþing/SSNE og SSNV.

15.Viðbragðsáætlun Almenningar - Drög

Málsnúmer 2110063Vakta málsnúmer

Lögð er fram til kynningar viðbragðsáætlun Vegagerðarinnar, útgáfa 2.0, dags. 6 október vegna hættu á jarðskriði um Almenninga og skriðu- og grjóthruns hættu á veg frá Hraunum til Siglufjarðar. Viðbragðsáætlunin er unnin af Mannvit hf. í samstarfi við Vegagerðina og byggð á sniðmáti frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Um er að ræða viðbrögð vegna mögulegs jarðskriðs á veginum sem veldur broti eða missigi sem fyrst og fremst er talið geta skapað hættu fyrir vegfarendur. Ennfremur hættu sem stafar af grjóti sem hrunið hefur inn á veg. Markmið viðbragðsáætlunarinnar er að tryggja skipuleg viðbrögð og vöktun á veginum til að tryggja öryggi vegfarenda sem best.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð fagnar framkominni viðbragðsáætlun vegna hættu á jarðskriði, skriðföllum og grjóthruni á ofangreindum vegarkafla sem og því aukna öryggi vegfarenda sem felst í áætluninni. Að því sögðu þá telur bæjarráð að framlögð áætlun sé enn ein staðfesting þess að ekki sé valkostur að bíða með gerð jarðganga frá Siglufirði yfir í Fljót. Bæjarráð hvetur samgönguráðherra og Alþingi eindregið til þess að setja nú þegar í gang vinnu við verkhönnun jarðganga byggða á fyrirliggjandi forathugun og í framhaldinu að bjóða verkið út.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma bókun bæjarráðs á framfæri við ráðherra og þingmenn.

16.Fundargerðir Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) - 2021

Málsnúmer 2101049Vakta málsnúmer

Fram er lögð til kynningar fundargerð 30. fundar stjórnar Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra(SSNE) dags. 13. október 2021.

Fundi slitið - kl. 10:00.