Deiliskipulag - Hesthúsasvæði Siglufirði

Málsnúmer 1008138

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 96. fundur - 01.09.2010

Farið var yfir stöðu mála varðandi deiliskipulag við hesthúsasvæðið á Siglufirði.

Nefndin samþykkir að setja svæðið í deiliskipulag ef fjárheimild fæst.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 100. fundur - 11.10.2010




Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi fyrir svæði fyrir frístundabúskap, Siglufirði. Gerðar voru nokkrar athugasemdir við tillögurnar sem tæknideild er falið að koma til hönnuðar. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagið verði sent í auglýsingu með áorðnum breytingum. Sigurður Hlöðversson lét bóka að hann sé mótfallinn því að á deiliskiplagstillögunni sé gert ráð fyrir fjárhúsabyggð.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 101. fundur - 25.10.2010

Bæjarráð vísaði málinu aftur til umfjöllunar í skipulags- og umhverfisnefnd þar sem fyrirliggjandi eru breytingar á uppdrætti tillögunnar.

Nefndin gerir ekki athugasemdir á framkomnum tillögum en gerir tillögu að tveimur breytingum á teikningum, annars vegar að byggingareitur fyrir hesthús neðan vegar í daghólfi verði felldur út og hins vegar að fjárhúsalóðum verði fækkað úr átta í sex og stefna mænisás fjárhúsa verði norður suður.

 

Bæjarráð Fjallabyggðar - 188. fundur - 26.10.2010

101. fundur skipulags- og umhverfisnefndar frá 25. október bókaði að nefndin gerði ekki athugasemdir á framkomnum tillögum en gerir tillögu að tveimur breytingum á teikningum, annars vegar að byggingareitur fyrir hesthús neðan vegar í daghólfi verði felldur út og hins vegar að fjárhúsalóðum verði fækkað úr átta í sex og stefna mænisáss fjárhúsa verði norður suður.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar Fjallabyggðar samþykkir, með áorðnum breytingum skipulags- og umhverfisnefndar, tillögu að nýju deiliskipulagi, "Svæði fyrir hesthús, hestaíþróttir og frístundabúskap, Siglufirði". Tillagan er sett fram á uppdrætti og í greinargerð dags. 08.10.2010 og felur í sér að skilgreina betur núverandi svæði fyrir hesthús í Siglufirði með tilliti til aðkomu, umhverfis- og skipulagsþátta og afmarka og skilgreina nýja byggingarreiti fyrir hesthús og gerði. Jafnframt er skilgreint svæði og byggingarreitir fyrir frístundabúskap. Tillagan verði auglýst skv. 25. gr. laga nr. 73 / 1997 m.s.br.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 105. fundur - 29.12.2010

Lagðar eru fram til kynningar þær athugasemdir sem bárust á auglýsingartíma deiliskipulags, svæðis fyrir hesthús, hestaíþróttir og frístundabúskap, Siglufirði.

Athugasemdir sem bárust voru 3, frá Þorsteini Jóhannessyni, Helgu Lúðvíksdóttur og Guðný Róbertsdóttur og Örlygi Kristfinnssyni.

Hönnuði og tæknideild falið að koma með hugmyndir að svörum fyrir næsta fund.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 108. fundur - 14.02.2011

Tillaga að deiliskipulagi, "Svæði fyrir hesthús, hestaíþróttir og frístundabúskap, Siglufirði" var í auglýsingu frá 15. nóvember til 27. desember 2010.  Athugasemdir sem bárust voru 3.

 Svör við athugasemdum.

1. Athugasemd vegna nálægðar skipulagssvæðis við mýrlendi og Leirurnar.

Sendandi:Guðný Róbertsdóttir og Örlygur Kristfinnsson

Dagsett: 27. desember 2010

Móttekið: 27. desember 2010

Svar:

Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar ábendinguna. Við gerð umrædds deiliskipulags og Aðalskipulags Fjallabyggðar 2008-2028 voru mörk mýrarinnar hafðar til hliðsjónar við ákvörðun um afmörkun skipulagssvæðis. Í skipulaginu kemur fram að frágangur við öll gripahús, ný og núverandi þ.m.t. frárennsli, úrgangur og sorpmál skulu unnin samkvæmt reglugerðum. Þannig skal mengun haldast í lágmarki og eru framkvæmdirnar ekki taldar hafa áhrif á lífríki mýrarinnar. Skipulags- og umhverfisnefnd telur einnig brýnt að vinna áfram að markvissri verndun smádýra-, fugla- og gróðurlífs á Leirunum.

 

2. Athugasemd vegna hugsanlegrar snjósöfnunar á vegum við hesthús.

Sendandi: Helga Lúðvíksdóttir

Dagsett: 20. desember 2010

Móttekið: 21. desember 2010

Svar:

Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar athugasemdina. Eftir endurskoðun á skipulaginu er niðurstaðan sú að hugsanleg snjósöfnun á vegi er talin óveruleg. Um er að ræða einnar hæðar hús með stutta hlið byggingarreits að vegi, 15 m að lengd. Að auki er fjarlægð milli byggingarreits og vegar 11 m og eru því ekki talin hafa veruleg áhrif á snjósöfnun á veginum.

 

3.  Athugasemd vegna afleiddra umhverfisáhrifa af búfjárhaldi í sveitarfélaginu.

Sendandi: Þorsteinn Jóhannsson

Móttekið: 19. nóvember 2010

Svar:

Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar fyrir greinagóða athugasemd. Í framhaldi af þeirri ákvörðunartöku um að leyfa frístundabúskap í Siglufirði var einnig tekin ákvörðun um að móta reglur er varða lausagöngu búfjár í sveitarfélaginu. Mótun þessara reglna er nú í vinnslu. Ljóst er að lausaganga búfjár getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þróun gróðursamfélaga í sveitarfélaginu. Því mun sveitarfélagið taka mið af innsendum athugasemdum við gerð reglnanna.

Til bráðabirgða mun sveitarfélagið styðjast við 5. gr. 3. mgr. samþykktar um búfjárhald í Fjallabyggð en þar segir: ?Leyfi til búfjárhalds skuldbindur  ekki bæjarfélagið til að sjá leyfishöfum fyrir beitilandi eða annarri aðstöðu til búfjárhalds.? Þar til fyrrgreindar reglur taka gildi mun ofangreind samþykkt gilda.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 127. fundur - 15.12.2011

Skipulagsstofnun hefur yfirfarið gögn um deiliskipulag fyrir hesthús, hestaíþróttir og frístundabúskap, Siglufirði og getur ekki tekið afstöðu til þess fyrr en skýrt hefur verið hvernig tekið hefur verið mið af hættmati sem fyrir liggur hjá Veðurstofunni dags. 8. apríl 2008, og umsögn heilbrigðiseftirlits um fráveitur og fyrirkomulag taðþróa. Jafnframt þarf að gera betur grein fyrir og setja skilmála um eftir atvikum: Vatnsveitu og rafveitu. Frágang stíga og gatna, og breidd stíga. Landmótun og frágangi á æfinga- og keppnissvæði, þ.e. ef um nýframkvæmd er að ræða. Lóðarstærðir. Hvort nýta megi ris, eins og algengt er á hesthúsasvæðum, þótt ákvæði sé um að húsin séum á einni hæð. Yfirfara að tákn í skýringum passi við línugerð á uppdrætti. Þar sem gert er ráð fyrir fjölmörgum framkvæmdum utan lóða, s.s. bílastæðum, kerrustæðum, vallarhúsi ofl. er mikilvægt að skýra hvort um sameiginleg eða sameiginlegt svæði sé að ræða og þá hver mörk þeirra eða þess eru.

Nefndin leggur til að hesthús nr. 5 og 6 á teikningu verði tekin út þar sem þau eru inn á hættusvæði B. jafnframt verði fjárhús nr. 2, 4 og 6 tekin út og reiturinn skilgreindur sem beitarhólf. Tæknideild er falið að fylgja öðrum athugasemdum eftir.