Í október 2015 var framkvæmt svokallað ytra mat á Grunnskóla Fjallabyggðar. Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í grunnskólum er samkvæmt 35. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008 að:
• Veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda.
• Tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla.
• Auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum.
• Tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.
Með ytra mati er unnið að öllum þessum markmiðum og lögð sérstök áhersla á að efla og styðja innra mat og gæðastjórnun skóla, styðja skóla, stjórnendur og kennara í umbótum á eigin starfi, hvetja kennara til að vinna saman að því að bæta eigin starfshætti og vera skólum hvati til frekari skólaþróunar.
Matið var framkvæmt af Oddnýju Eyjólfsdóttur og Þóru Björk Jónsdóttur sérfræðingum hjá Menntamálastofnun, og fór fram á vettvangi 12. - 15. október 2015. Áður hafði farið fram gagnaöflun og undirbúningur. Á vettvangi var fylgst með í 30 kennslustundum, hjá yfir 80% kennara. Rýnihópaviðtöl voru við tvo hópa nemenda, foreldra, kennara, kennara sem koma að stoðþjónustu, aðra starfsmenn, fulltrúa skólaráðs. Slembiúrtak var notað við val á þátttakendum. Einnig voru viðtöl við aðstoðarskólastjóra og deildarstóra og einstaklingsviðtal við skólastjóra.
Fjallbyggð hefur nú fengið matsskýrslu senda frá Menntamálastofnun. Í skýrslunni er gerð grein fyrir niðurstöðum úr ytra mati á Grunnskóla Fjallabyggðar. Teknir voru fyrir fjórir matsþættir, þar af voru þrír fyrirfram ákveðnir en fjórði matsþátturinn var ákveðinn af sveitarfélagi og skóla. Þættirnir sem lagt var mat á voru stjórnun, nám og kennsla, innra mat og að ósk skóla og sveitarfélags var fjórði þáttur skóli án aðgreiningar.
Þær Oddný og Þóra Björk hafa kynnt niðurstöðurnar fyrir stjórnendum og starfsfólki grunnskólans sérstaklega og einnig var kynning fyrir bæjarfulltrúa og nefndarfólk í fræðslu- og frístundanefnd. Jónína Magnúsdóttir skólastjóri og Kristinn J. Reimarsson deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála hafa síðan verið með kynningarfundi fyrir skólaráð, foreldra og nemendur.
Í skýrslunni eru tilgreindir sterkir þættir í skólastarfinu út frá matsþáttunum og síðan eru tilgreind tækifæri til umbóta.
Að mati nemenda eru sterkir þættir:
- Hægt að treysta kennurum
- Gott að eiga góða vini og hafa einhver til að leita til
- Verkefnatímar og námsverið
- Hægt að fá meiri aðstoð ef þarf
Sterkir þættir að mati foreldra eru:
- Samheldni
- Lítill skóli
- Allir þekkjast vel
- Skólinn er í sátt við samfélagið
Í mjög stuttu máli má segja að niðurstaðan sé að í Grunnskóla Fjallabyggðar er lögð áhersla á að nemendum og starfsfólki líði vel í skólanum, umhyggja er sýnileg og lögð er rækt við að sinna hegðun og samskiptun en efla þarf árangur í námi - setja fram hvert á að stefna og gera kröfur til allra.
Í framhaldi matsins verður unnin áætlun um þær umbætur sem lagðar eru til. Mennta- og menningarmálaráðuneyti fylgist síðan með að þeim sé framfylgt.
Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.