Hrafnavogar vígðir

Um 70 manns mættu þegar ný viðbygging við Menntaskólann á Tröllaskaga var vígð við hátíðlega athöfn föstudaginn 25. ágúst sl.

Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar stýrði athöfninni. Steinunn María Sveinsdóttir, formaður bæjarráðs þakkaði öllum sem að framkvæmdinni komu en Lára Stefánsdóttir, skólameistari ræddi mikilvægi bættrar aðstöðu og gaf salnum nafnið Hrafnavogar. Kristján Þór og Kristinn G. Jóhannsson, listmálari klipptu svo á borða og opnuðu salinn formlega. 

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra sagði í ávarpi sínu að Menntaskólinn á Tröllaskaga væri samfélaginu við utanverðan Eyjafjörð mjög mikilvægur. Frá upphafi hafi frumkvæði og sköpun einkennt skólastarfið, haft áhrif bæði nær og fjær og verið mörgum fyrirmynd. Góð útkoma skólans í könnuninni „stofnun ársins“ sýndi ánægju starfsfólks. Könnun ráðuneytis hefði sýnt veikleika í félagslífi nemenda og skort á mataraðstöðu fyrir þá og starfsmenn. Nýi salurinn myndi bæta úr þessu, bæði yrði þar félagsaðstaða nemenda og mötuneyti.

Þeir aðilar sem komu að framkvæmdinni eru eftirfarandi:

Arkitekt og verkfræðihönnun:
AVH ehf.

Aðalverktaki:
BB Byggingar ehf.

Undirverktakar:
Árni Helgason ehf. - Jarðvinna
Ingvi Óskarsson ehf. - Raflagnir
JVB pípulagnir ehf. - Lagnavinna
Blikk og tækniþjónustan ehf. - Loftræsting
Múriðn ehf. - Múrverk
Hamraborg ehf.  - Þakpappavinna
GÞ málverk ehf. - Málningarvinna
Klemenz Jónsson ehf. - Dúklagning
Raftákn - Hönnun rafmagns