Viðbygging við Leikskála formlega tekin í notkun

Fjöldi foreldra og gesta mætti við athöfnina
Fjöldi foreldra og gesta mætti við athöfnina

Í gær, fimmtudaginn 3. nóvember, var formlega tekin í notkun viðbygging við leikskólann Leikskála á Siglufirði.

Ávarp fluttu Olga Gísladóttir leikskólastjóri, Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri og Steinunn María Sveinsdóttir formaður bæjarráðs.
Börn á elstu deild leikskólans sungu tvö lög og svo sáu börnin með aðstoð Steinunnar um að klippa á borða sem tákn um formlega opnun húsnæðisins.
Af þessu tilefni bárust leikskólanum nokkrar gjafir;
- Kvenfélagið Von gaf flettisófa, 6 matarstóla, myndavél og ipad.
- Bettýarsjóður gaf 450.000 krónur til leikfangakaupa og
- foreldrafélag Leikskála  gaf flettisófa og hitamæli.
Eftir að búið var að klippa á borða var börnum, starfsfólki og foreldrum boðið upp á kaffiveitingar og skoðun á hinu nýja rými.

Skólinn er nú fimm deilda leikskóli með rúmlega 70 börn.

Laugardaginn 12. nóvember verður leikskólinn opinn frá klukkan 13:00-16:00. Þá gefst fólki kostur á að skoða húsnæði leikskólans.

Í byrjun febrúar 2016 sl. var samið við Berg ehf um að taka að sér verkið sem fólst í að byggja við núverandi leikskóla tvær leikskóladeildir, samtals 267 m2 og gera breytingar i eldra húsnæði sem fólust í endurbótum á starfsmannaaðstöðu og uppsetningu á loftræstikerfi fyrir allt húsið.
Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 122.519.995 kr. Í útboði var gert ráð fyrir að verkið myndi klárast fyrir opnun skólans í ágúst eða eftir sumarfrí. Berg ehf skilaði inn frávikstilboði upp á 127.551.000 kr. miðað við skil á verki þann 10. október sem er 104,1% af kostn.áætlun.

Hönnuðir að húsnæðinu voru Ævar Harðarson arkitekt og Mannvit ehf verkfræðihönnun

Eftirtaldir verktakar komu að verkinu:

Aðalverktaki: Berg ehf. Siglufirði
Undirverktakar:
-Bás ehf. steypusala og jarðvinna. Siglufirði
-Tréverk ehf. uppsteypa með Berg. Dalvík
-JVB ehf. pípulagnir. Ólafsfirði
-Andrés Stefánsson raflagnir. Siglufirði
-Blikkrás loftræsting. Akureyri
-Málaraverkstæðið málningarvinna. Siglufirði
-Múriðn ehf. múrvinna og flísalögn. Akureyri
-Klemenz ehf. dúklagning. Akureyri
-JE vélaverkstæði ehf. stálvirki í þak. Siglufirði
-SR vélaverkstæði járnsmíði og steinsögun. Siglufirði
-Ingvi Óskarsson ehf. steinborun. Ólafsfirði
-Höfuðverk ehf. þakpappavinna. Reykjavík
-L/7 ehf. gólfílögn. Siglufirði
-Efla ehf. þjöppupróf.
-Ölur ehf. innréttingar. Akureyri
-Byko ehf. gluggar og hurðir. Akureyri

Vígsluterta
Boðið var upp á þessa fínu tertu að lokinni athöfn.