Safnadagur

Vertu gestur í heimabyggð á eyfirskum safndegi Söfnin í Eyjafirði opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi laugardaginn 3. maí. Tilefnið er eyfirski safnadagurinn en markmiðið með deginum er að vekja athygli á þeirri fjölbreyttu og áhugaverðu safnaflóru sem Eyjafjörður hefur upp á að bjóða. Söfnin munu þennan dag kynna starfsemi sína og að þessu sinni verður áherslan á innra starf safna. Af því tilefni gefst gestum Minjasafnsins á Akureyri kostur á því að láta greina gersemar úr fórum sínum og á Byggðasafninu Hvoli á Dalvík verður hægt að fylgjast með hvernig safnmunir eru skráðir. Í Gamla bænum Laufási verður kynning og sýnikennsla á torfhleðslu en torfbær krefst mikils viðhalds og þá gildir að hafa handverkið í lagi. Á Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði verða bátasmiðir að vinna að safnkostinum í Bátahúsinu, viðtalasafn við iðnverkafólk verður kynnt á Iðnaðarsafninu og á Safnasafninu verður safnastefna þess kynnt. Auk þess bjóða söfnin uppá margt annað áhugavert þar má til dæmis nefna listflug, upplestur, leiðsögn, tónlist og kvikmyndasýningu. Eftirfarandi söfn verða opin frá 11-17 og aðgangur er ókeypis: Amtsbókasafnið, Davíðshús, Flugsafn Íslands, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Listasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús, Sigurhæðir, Byggðasafnið Hvoll á Dalvík, Gamli bærinn Laufás, Holt - hús Öldu Halldórsdóttur í Hrísey, Hús hákarla-Jörundar í Hrísey, Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar, Safnasafnið, Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði, Smámunasafn Sverris Hermannssonar og Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði.
Safnarútur - skildu bílinn eftir heima !
Safnarúta 1: Frá Upplýsingamiðstöð ferðamanna, Hafnarstræti 82, kl. 10  Fer á Smámunasafn Sverris Hermannssonar, Safnasafnið og Gamla bæinn Laufás. Leiðsögumaður með í för. Heimkoma kl 15.
Safnarúta 2: Frá Upplýsingamiðstöð ferðamanna, Hafnarstræti 82, kl. 10 Fer á Byggðasafnið Hvol á Dalvík, Náttúrugripasafnið í Ólafsfirði, Þjóðlagasetrið á Siglufirði og Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði. Leiðsögumaður með í för. Heimkoma kl 17 Hríseyjarferð: Farið með safnarútu 2 út á Árskógssand - siglt til Hríseyjar, leiðsögn í Húsi hákarla-Jörundar og Ölduhúsi - siglt með ferju með leiðsögn til Dalvíkur og farið á Byggðasafnið Hvol. Lágmarks fjöldi farþega í safnarúturnar er 10 manns.
Safnastrætó : Frá Nætursölunni kl. 13, 14, 15 og 16 á milli safnanna á Akureyri. Þennan dag munu söfnin einnig gefa út sameiginlegan kynningarbækling um söfnin í Eyjafirði.

Verkefnið er afrakstur samstarfs safnafólks í Eyjafirði styrkt af Akureyrarstofu, Menningarráði Eyþings, Sérleyfisbílum Akureyrar og leiðsögumönnum á Norðurlandi