Trilludagar voru haldnir á Siglufirði í fjórða sinn síðastliðinn laugardag og þóttu þeir takast einstaklega vel og var góð stemning á bryggjunni allan daginn og veðrið lék við hátíðargesti.
Að þessu sinni voru það 11 eldhressir trillukarlar sem sáu um siglingarnar en það voru þeir Ellert Ólafsson á Önnu ÓF, Jóhannes Arelakis á Eddu SI, Ásgeir Frímanns á Blíðfara ÓF, Lúðvík Trausti Gunnlaugsson á Trausta EA, Reynir Karlsson á Júlíu Blíðu SI, Sverrir Kárason á Agga SI, Örvar Sævarsson á Degi SI, Sverrir Björnsson á Viggó SI, Andri Viðar Víglundsson á Kristínu ÓF, Sverrir Gunnarsson á Ásdísi RE og Halldór Bogi Sigurðsson á Dísu SI.
Áætlað er að um 600 manns hafi farið á sjó á Trilludögum í ár og tók hver sigling frá 40-60 mínútur. Sjóstangir voru um borð og komu allir í land með fisk á grillið.
Þegar í land komið var aflinn grillaður en að vanda stóðu vaskir Kiwanismenn vaktina í grilltjaldinu tilbúnir við flökun og skelltu aflanum á kolin og bauðst gestum að bragða á góðgætinu ásamt grilluðu grænmeti. Pylsur og drykkir voru einnig á boðstólum í boði Kjörbúðarinnar á Siglufirði.
Gafst þetta allt mjög vel og var þátttaka framar öllum vonum en ríflega 2000 manns gæddu sér á nýveiddum og grilluðum fiski í ár sem var gríðarleg fjölgun frá því í fyrra.
Síldargengið fór rúnt um miðbæinn og var með síldarsöltun, bryggjuball og harmonikkuleik við Síldarminjasafnið. Ungu tónlistarmennirnir okkar þeir Tryggvi og Júlíus Þorvaldssynir tóku nokkur vel valin lög og félagarnir þeir Stúlli og Danni léku ljúfa tóna fram eftir degi. Húlla dúllan mætti og skemmti gestum með sirkus og vísindum. Botninum var svo slegið í þennan frábæra dag með tónleikum Högna Egilssonar í Siglufjarðarkirkju og Bryggjuballi þar sem Landabandið hélt uppi sannkallaðri Trilludagsstemningu um kvöldið.
Fjallabyggð færir trillueigendum og trillukörlunum, Kjörbúðinni á Siglufirði, félögum úr Kiwanisklúbbnum Skildi á Siglufirði, Fiskmarkaðnum á Siglufirði og öllum þeim fjölmörgu sem að hátíðinni komu bestu þakkir fyrir þeirra þátttöku á Trilludögum 2019.
Myndir frá hátíðinni eru aðgengilegar hér