Vel heppnaðar kvikmyndasýningar

Orri Vigfússon, Odile Bouteiller og Marc Bouteiller.
Orri Vigfússon, Odile Bouteiller og Marc Bouteiller.
Á laugardaginn voru sýndar þrjár franskar kvikmyndir í Fjallabyggð sem hluti af Franskri kvikmyndahátíð á Norðurlandi. Tvær sýningar voru í Bláa húsinu á Siglufirði og ein sýning í  Tjarnaborg í Ólafsfirði.  
Við upphaf fyrstu sýningar flutti Ingvar Erlingsson, forseti bæjarstjórnar, stutt ávarp og þakkaði hann sendiherranum og Orra þann áhuga sem þeir sýna Fjallabyggð með því að koma með kvikmyndasýningar til sveitarfélagsins og þannig efla alþjóðlega menningu á svæðinu. 

Hugmyndin að sýningunum hér kviknaði í heimsókn franska sendiherrans, Marc Bouteiller, og Orra Vigfússonar til Siglufjarðar í fyrrasumar. Sendiherrann var mættur til Fjallabyggðar á laugardaginn ásamt eiginkonu sinni og Orra Vigfússyni. Var sendiherrann ánægður með hvernig til tókst með sýningarnar og hefur hann fullan hug á því að koma með fleiri sýningar til Fjallabyggðar í tengslum við árlegar sýningar frönsku kvikmyndahátíðarinnar á Norðurlandi.  

Á myndinni er Orri Vigfússon ásamt sendiherranum og eiginkonu hans.
(Mynd: Gunnlaugur S. Guðleifsson).