Vatnsveður í Fjallabyggð

Úr Ólafsfirði
Mynd: Slökkvilið Fjallabyggðar
Úr Ólafsfirði
Mynd: Slökkvilið Fjallabyggðar

Mikið vatnsveður hefur gengið yfir Fjallabyggð síðustu vikuna fyrst með úrkomu í formi élja og síðar rigningu sem olli usla á Siglufirði í síðustu viku og Ólafsfirði um helgina.

Þriðjudaginn 28. september hlýnaði snögglega eftir snjókomu fyrr um daginn og nóttina sem var til þess að snjó leysti í mikilli rigningu og tók vatn að safnast fyrir á götum Siglufjarðar. Slökkvilið Fjallabyggðar, starfsmenn Þjónustumiðstöðvar og Björgunarsveitin Strákar unnu hörðum höndum að því að koma fólki til aðstoðar þar sem vatn flæddi inn í hús á nokkrum stöðum.

Tveir af þremur dælubrunnum sem sinna fráveitukerfi bæjarins höfðu undan vatnselgnum en flöskuháls myndaðist við þriðja brunninn þar sem yfirfallslögn hafði ekki undan. Staðbundið vandamál skapaðist því á einu svæði. Úrbætur verða gerðar og með því ætti fráveitukerfi bæjarins að standast áhlaup líkt og varð þann dag.

Laugardagskvöldið 2. október var mikil rigning á Tröllaskaga. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var úrkomumagn á Ólafsfirði 124mm þann sólarhringinn og 77mm á Siglufirði. Um nóttina var óvissustigi almannavarna lýst yfir á svæðinu.  Síðdegis á laugardag fékk slökkvilið fyrstu tilkynningu um að vatn væri farið að flæða inn í hús í Ólafsfirði sem ágerðist þegar leið að miðnætti. Þegar varð ljóst að um stórt verkefni væri að ræða og voru Björgunarsveitin Tindur og Björgunarsveitin Strákar kallaðar út í verðmætabjörgun. Úrkoman og ákefðin var mikil alla nóttina og ef eitthvað var bætti í um tíma. Í fyrstu var talið að fráveitukerfi bæjarins væri ekki að standast áhlaup veðursins. Síðar kom í ljós að lækur við Hornbrekku hafði flætt yfir bakka sína þar sem ræsi undir Ólafsfjarðarveg hafði ekki undan vatnsstraumnum, sem venjulega fer beint í Ólafsfjarðarvatn. Því tók vatn að flæða inn að þéttbýli Ólafsfjarðar. Um leið og það uppgötvaðist var hægt að fara í aðgerðir við að koma vatni frá bænum og fékk Þjónustumiðstöðin og slökkvilið stórvirka vinnuvél til þess að reisa varnargarða á tveimur stöðum. Þannig var hægt að vinna á því vatnsmagni sem þegar hafði flætt inn í bæinn.

Slökkvilið og björgunarsveitir unnu að aðgerðum í um 20 húsum á Ólafsfirði. Björgunarsveitir fengu aðstoð frá öðrum björgunarsveitum í Eyjafirði og slökkvilið fékk aðstoð frá Slökkvilið Dalvíkur og Slökkviliði Akureyrar. Aðgerðir stóðu í tæpan sólarhring.

Bæjarstjórn og bæjarstjóri vilja koma kærum þökkum til allra þeirra viðbragðsaðila sem unnu að aðgerðum báða þessa daga. Ljóst er að ef þeirra nyti ekki við hefði ástandið orðið mun verra. Einnig fá íbúar kærar þakkir fyrir dugnað og þolinmæði á meðan unnið var úr aðstæðum.