Varðskipið Freyja komið heim

Laugardaginn 6. nóvember lagðist að bryggju á Siglufirði varðskipið Freyja eftir fimm daga siglingu frá Rotterdam. Mikið fjölmenni lagði leið sína á Hafnarbryggjuna til að fagna komu skipsins til heimahafnar á Siglufirði.

Freyja kom í fylgd varðskipsins Týs, þyrlu Landhelgisgæslunnar og björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Að auki keyrðu viðbragðsaðilar á Norðurlandi í samfloti frá Strákagöngum skipinu til heiðurs auk þess sem séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar skaut þremur heiðursskotum úr fallbyssu þegar skipið kom siglandi inn fjörðinn.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, og Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar fluttu ávarp á bryggjunni og óskuðu Landhelgisgæslunni og íslensku þjóðinni til hamingju með varðskipið Freyju. Hljómsveitin Landabandið úr Fjallabyggð spilaði tónlist fyrir gesti meðan beðið var og gestum bauðst svo að ganga um borð og skoða skipið.

Fjallabyggð færði Landhelgisgæslu Íslands gjafir í tilefni af þessum merka viðburði;  vegglistaverkið Póseidon eftir listamanninn Aðalheiði S. Eysteinsdóttur en verkið er táknmynd guðsins og verndara sæfara. Það ber kórónu á höfði sem tákn um þríforkinn og konung sjávar. Grænt, brúnt og blátt standa fyrir liti sjávar og vindurinn í hári og skeggi fyrir vinda úthafsins. Hann lítur til hliðar þar sem hann fylgist með öllu sem fram fer allt um kring.

Póseidon var einn af Grísku guðunum 12, guð sjávar, storms og jarðhræringa, og drottnaði yfir úthöfunum. Hann var verndari sæfara og eru margar goðsagnir og munnmæli af aðstoð hans við þá. Heimkynni Póseidons eru sögð vera í Atlantis þeirri frægu sjávarborg. 

Aðalheiður er fædd og uppalin á Siglufirði en bjó á Akureyri í 30 ár þar sem hún lærði og stundaði list sína. Hún hefur sýnt rúmlega 200 einkasýningar í 14. löndum og verið athafnasamur myndlistarmaður bæði hér heima og erlendis. Aðalheiður hefur nokkrum sinnum hlotið starfslaun ríkisins og var bæjarlistamaður á Akureyri árið 2000. Hún hefur hlotið Menningarverðlaun DV og viðurkenningar frá Eyrarrósinni fyrir menningarmiðlun. Verk Aðalheiðar má finna í ýmsum einkasöfnum víða um heim og í opinberri eigu á Íslandi.  Aðalheiður býr og starfar í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Að auki voru gæslunni færðar fjórar bækur;

Svipmyndir úr síldarbæ í tveim bindum eftir Örlyg Kristfinnsson.
„Svipmyndir úr síldarbæ er safn svipmynda og frásagna af fólki sem setti mark sitt á síldarbæinn Siglufjörð fram eftir síðustu öld“.

Saga úr Síldarfirði eftir Örlyg Kristfinnsson
Örlygur myndlistarmaður segir í þessari bók sögu sem kemur okkur við. Hann segir hvernig síldarbær varð til – iðandi af lífi með alþjóðlegum blæ. Þar sem silfur hafsins varð gjaldmiðillinn sem greiddi dugmiklu alþýðufólki leið úr örbyggð til bjargálna og breytti íslensku samfélagi á undraskömmum tíma.

Siglufjörður – Ljósmyndir 1872-2018
Í bókinni er sagan rakin í 140 völdum ljósmyndum og stuttum textum á íslensku og ensku. Samtímis því að skoða meginþættina í sögu staðarins er skyggnst ofan í hið smáa og hversdagslega, athafnir hinna fullorðnu og leiki barnanna svo dæmi séu nefnd.
Höfundar bókarinnar eru starfsmenn Síldarminjasafns Íslands þau Anita Elefsen safna- og sagnfræðingur, Steinunn M. Sveinsdóttir sagnfræðingur og Örlygur Kristfinnsson, fyrrum safnstjóri

Vonast Fjallabyggð til þess að listaverkið sómi sér vel á góðum stað í Freyju og að bækurnar komi sé vel fyrir áhöfn skipsins.

Fjallabyggð óskar íbúum sínum og landsmönnum öllum til hamingju með hið stórglæsilega varðskip Freyju. Megi ferðum þess og verkefnum um norðurslóðir fylgja gæfa og gott gengi.

Ljósmyndir við komu Freyju til heimahafnar