Útlánaaukning á bókasafninu

Þessari ungu dömu finnst gaman að skoða bækur
Þessari ungu dömu finnst gaman að skoða bækur

Bókasafnsdagurinn - Dagur læsis var í gær og af þvi tilefni var gestum bókasafnsins boðið upp á kaffi og vöfflur.

Markmið dagsins er fyrst og fremst að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í samfélaginu og minna á í leiðinni að það er gaman að koma á bókasafnið. Í tilefni dagsins og að Sumarlestrinum er formlega lokið tóku starfsmenn bókasafnsins til og brydduðu upp hinum ýmsu skemmtilegheitum og skelltu svo í vöfflur. Fjöldi fólks kom við á bókasöfnunum í gær og var gerður góður rómur af þessari uppákomu. Bókasafnið í Fjallabyggð, bæði á Siglufirði og í Ólafsfirði hefur verið í mikilli sókn síðasta ár og hefur aðsókn að þeim og þá jafnframt útlán aukist töluvert.

Í nýliðnum ágústmánuði voru útlán á Siglufirði 553 á móti 352 á árinu 2013. Þetta er aukning um 57%. Fyrstu átta mánuði ársins eru útlán orðin 4.129 á móti 3.093 á sama tíma á árinu 2013. Í Ólafsfirði er hlutfallsleg aukning töluvert meiri en á Siglufirði. Í ágústmánuði voru útlán 395 á móti 136 í ágústmánuði 2013 sem gerir 190% aukning útlána þegar þessir mánuðir eru bornir saman 2013 og 2015. Fyrstu átta mánuði ársins eru útlán í Ólafsfirði 2.907 á móti 1.766 fyrir sama tímabil á árinu 2013 sem er aukning upp á 64%.

Sylvía og Emma
Þessar ungu stúlkur nutu sína á bókasafninu í gær og gripu í spil.

Brynja og Brynja
Brynja I. Hafsteinsdóttir og Brynja Stefánsdóttir áttu gott spjall yfir kaffi og vöfflum.

Sólrún Júlíusdóttir
Bæjarfulltrúinn, Sólrún Júlíusdóttir, nýtti aðstöðuna á bókasafninu til verkefnavinnu.

Stelpur Ólafsfirði
Þessum stelpum fannst mjög gaman að glugga í bækur um naglaskraut á bókasafninu Ólafsfirði.

Vilhjálmur Hróarsson
Villi, bókavörður í Ólafsfirði, stóð í ströngu í gær við að sinna gestum og baka vöfflur.  Naut hann dyggrar aðstoðar konu sinnar Ástu Sigurfinnsdóttur.