Upplýsingapóstur frá bæjarstjóra

Héðinsfjörður 
Mynd: Bergþór Mortens
Héðinsfjörður
Mynd: Bergþór Mortens

Kæru íbúar Fjallabyggðar.

Upp er runninn 4. maí, dagurinn sem við höfum öll verið að bíða eftir. Dagur sem, ef vel tekst til, markar lok tímabils farsóttar en um leið upphaf leiðarinnar að eðlilegra lífi okkar og upphaf glímunnar við efnahagslegar afleiðingar Covid-19. Frá og með deginum í dag er s.s. slakað á ýmsum þáttum samkomubanns og möguleikar okkar til þess lífs sem við teljum eðlilegt með því auknir. Auknar tilslakanir eru svo væntanlegar í lok mánaðar að því er þríeykið segir okkur.

Stærsta tilslökunin er að sjálfsögðu sú að nú starfa skólar og leikskólar með eðlilegum hætti og íþróttaæfingar barna á grunnskólaaldri eru leyfðar. Eitthvað sem telja má mikið fagnaðarefni enda ljóst að börnin okkar hafa saknað hins reglulega skólalífs. Það er að mínu áliti morgunljóst að sú reynsla sem skólasamfélagið hefur á undanförnum vikum aflað sér í notkun tækni við kennslu og störf mun nýtast til framtíðar. Mitt mat er að við sem samfélag ættum jafnvel að gefa í hvað varðar kennslu í samræmi við breytta tíma og tækni. Tel að með nýtingu tækni sem nú fleygir fram þá getum við kennt börnunum okkar að fjarlægð frá stórborg þarf ekki að vera takmarkandi þáttur þegar starf er valið og búseta í heimabyggð.

Hvað varðar helstu þætti þess sem nú breytist í leik- og grunnskólastarfi má nefna eftirfarandi: Fjöldatakmörkum samkomubanns nær ekki til starfsemi leik- og grunnskóla, til að hægt sé að halda vistun og kennslu óskertri. Sama á við um dagforeldra, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar. Þar verða ekki takmarkanir á því hversu margir nemendur geti verið saman komnir eða nálægð þeirra í frímínútum og mötuneyti. Allir nemendur geta sem sagt mætt samtímis í skólann, farið í útiveru og verið í mötuneyti.

Hvað varðar íþrótta- og æskulýðsstarfsemi þá verður hún heimil inni sem úti. Íþróttaæfingar í Frístund og sund- og íþróttakennsla nemenda í Grunnskóla Fjallabyggðar fer af stað í íþróttamiðstöðvunum. Í þessari tilslökun verða Íþróttaæfingar og keppnir aftur leyfðar með ákveðnum skilyrðum og án áhorfenda. Snertingar eru þó óheimilar og virða skal tveggja metra regluna. Þá skal halda notkun á sameiginlegum búnaði í lágmarki. Ekki verður heimilt að nota búnings- og sturtuklefa. Innandyra mega ekki fleiri en fjórir æfa saman í einu rými og úti mega ekki fleiri en sjö æfa saman í hópi.

Sundlaugar og líkamsræktaraðstaða verða lokaðar enn um sinn en vonir standa til opnunar í næsta áfanga tilslökunar samkomubanns. 

Frá og með deginum í dag mun heilbrigðisþjónusta sem krefst snertingar eða nálægðar verða heimil, svo sem læknisskoðanir, tannlæknaþjónusta og sjúkraþjálfun. Nuddarar, hárgreiðslufólk og snyrtifræðingar geta nú tekið á móti viðskiptavinum á ný. Ljóst að margir munu fagna því að geta látið klippa sig, bæði þeir sem klipptir verða sem og aðstandendur og vinir.

Á vinnustöðum, veitingahúsum, í mötuneytum fullorðinna sem og verslunum þarf að gæta þess að ekki séu fleiri en 50 í sama rými. Hið sama á við um ráðstefnur og fundi, kennslu, fyrirlestra, próf og viðburði á borð við tónleika, íþróttaviðburði og kirkjuathafnir. Ætíð þarf að virða tveggja metra regluna í því sem við fullorðna fólkið tökum okkur fyrir hendur.

Með hliðsjón af tilslökunum sóttvarnalæknis munum við á skrifstofu Fjallabyggðar taka skref í átt að eðlilegri starfsemi. Frá og með deginum í dag verða allir starfsmenn við vinnu á skrifstofunni nema gild rök hnígi að öðru. Skrifstofan verður þó lokuð fyrir utanaðkomandi eitthvað áfram en mögulegt er að panta viðtal við starfsmenn og funda með þeim. Vonandi getum við fljótlega opnað að fullu fyrir aðgengi, en vegna smæðar vinnustaðarins treystum við okkur ekki lengra að sinni.

Eins og fram kom hér að ofan þá markar þessi dagur einnig upphaf hinnar raunverulegu glímu við efnahagslegar afleiðingar farsóttarinnar. Ljóst má vera að sú grein atvinnulífsins sem verst er að fara út úr undanförnum vikum og mun glíma við langvarandi afleiðingar er ferðaþjónustan. Til að bregðast við því, eins og bæjarfélagið getur, þá hafa fulltrúar ferðaþjónustu og bæjarfélags fundað og leitað leiða til varðstöðu um þessa mikilvægu atvinnugrein. Meginefni funda hefur verið að tryggja eftir mætti að allir aðilar sem að þessum málum koma innan Fjallabyggðar muni toga í sömu átt í komandi átaki sem ætlað er til að vekja athygli á Fjallabyggð sem áfangastað fyrir ferðaþyrsta Íslendinga. Fundir þessir og samtöl þeim tengd hafa verið ákaflega ánægjuleg og gaman að sjá hve hugmyndaríkt fólk í Fjallabyggð er og ákveðið að standa saman í gegn um þá erfiðleika sem nú eru augljóslega framundan.

Jafnframt hefur verið unnið að framgangi þeirrar samþykktar bæjarstjórnar sem kveður á um aðgerðir til varnar áhrifum farsóttarinnar á samfélagið og atvinnulífið í Fjallabyggð. Eins og áður hefur verið kynnt þá hefur verið ráðist í ýmsar aðgerðir svo sem frestun eindaga fasteignagjalda og aðrar aðgerðir sem gagnast til skemmri tíma. Nú er, í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar, unnið að yfirferð á framkvæmdaáætlun með það að markmiði að hún gagnist okkur sem best við að halda uppi atvinnu og bæta umgjörð og aðstöðu í bæjarfélaginu. Líklegt er að tillögur að áherslubreytingum í framkvæmdum verði kynntar í næstu viku.

Nú þegar bæjarfélagið okkar er að koma undan snjó þá kemur eðlilega ýmislegt í ljós í umhverfinu sem þarfnast lagfæringar, einnig kemur að líkindum töluvert upp af drasli ýmiskonar. Um leið og ég hvet íbúa til að safna lausu smárusli saman og koma í þar til gerð ílát þá bið ég ykkur að láta okkur vita um atriði sem þarfnast lagfæringar, svo sem skemmdir af völdum snjómoksturs, í netfangið fjallabyggd@fjallabyggd.is. Gott væri ef þið senduð myndir því það hjálpar við skilning á verkefninu á hverjum stað. Augljóslega er ekki mögulegt að bjarga öllu strax en skipulega verður unnið að úrbótum. Sama á við um aðrar umhverfisúrbætur sem ykkur kæru íbúar koma til hugar. Verið endilega í sambandi, við starfsfólk bæjarfélagsins gerum svo eins og mannafli og fjármunir leyfa okkur.

Ljóst er að margir hér í bæjarfélaginu, og um land allt, eiga nú um sárt að binda og eða sjá fram á efnahagslega erfiðleika. Nú ríður því á að við, samfélagið í Fjallabyggð, stöndum saman og sýnum hverju öðru þolinmæði, samkennd og samhug. Byggt á minni stuttu reynslu í þessu góða samfélagi veit ég að þar munum við öll standa okkur. Munum að við vitum sjaldnast hvaða baráttu sá er við hittum heyr, því skulum við ætíð gæta þess að vera góð hvert við annað.

Með góðri kveðju og ósk um gleðilegt sumar.

Elías Pétursson
bæjarstjóri