Húsnæði MTR
Vakin er athygli á eftirtöldum málefnum sem hafa verið í vinnslu hjá bæjaryfirvöldum í Fjallabyggð.
1. Óhagstætt lán bæjarsjóðs greitt upp
Nýlega greiddi Bæjarsjóður Fjallabyggðar upp óhagstætt lán, sem tekið var af Ólafsfjarðarkaupstað árið 2003. Lánið bar 5.63% verðtryggða vexti og eftirstöðvar lánsins, sem var til 26 ára voru 128 mkr.
Bæjarsjóður fjármagnaði uppgreiðsluna með því að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á 80 mkr. með 3.3% verðtryggðum vöxtum og 48 mkr. voru teknar af handbæru fé bæjarsjóðs.
Mismunur á vöxtum er 5.63% - 3.30% eða 2.33%. Ávinningur bæjarsjóðs af þessum aðgerðum er um 30 mkr. miðað við, að 13 ár voru eftir af óhagstæða láninu.Þess má geta,að vaxtaberandi skuldir bæjarsjóðs um síðustu áramót voru 536mkr.,en voru 632mkr. í árslok 2014 og í áætlun þessa árs er reiknað með að þær verði 488mkr. í árslok.
2. Viðbygging við Menntaskólann á Tröllaskaga er að verða að raunveruleika
MTR var tekinn í notkun árið 2010 í gamla Gagnfræðaskólanum í Ólafsfirði eftir nokkrar endurbætur.
Skólinn var ekki fullbyggður, því að það vantaði matar-, félags-, og fundaraðstöðu fyrir nemendur og starfsmenn.Fullur vilji hefur verið hjá bæjaryfirvöldum, að ráðast í viðbygginguna, en fjármagn hefur skort.
Hreyfing komst á málið á síðari hluta síðasta árs, eftir viðræður við Menntamálaráðuneytið(Ríkið) og Akureyrarbæ.
Kostnaðarskipting við viðbygginguna er byggð á gömlu fyrirkomulagi sveitarfélaganna um skiptingu kostnaðar á uppbyggingu framhaldsskóla á Eyjafjarðarsvæðinu, en hún er eftirfarandi:
Ríkið 60%
Fjallabyggð 20%
Sveitarfélög á Eyjafjarðarsvæðinu 20% (skipt eftir íbúafjölda)
Nú er staðan þannig, að ríkið ætlar að greiða sitt framlag með leigufyrirkomulagi til 5-10 ára. Akureyrarbær hefur samþykkt að greiða sinn hlut og fljótlega verður sent bréf til hinna sveitarfélaganna á Eyjafjarðarsvæðinu varðandi málið. Kostnaðaráætlun viðbyggingarinnar er tæplega 100 mkr. að viðbættum stofnbúnaði.
Hönnun byggingarinnar er komin á fulla ferð og reiknað er með að bjóða framkvæmdina út í júlí og hefja framkvæmdir í ágúst. Áætlað er að verkinu ljúki á næsta sumri og viðbyggingin tekin í notkun í ágúst 2017.
Gunnar I.Birgisson bæjarstjóri