Uppfærð frétt frá 13. desember 2019.
Fjallabyggð vill þakka viðbragðsaðilum, fyrirtækjum og einstaklingum sem tryggðu öryggi íbúa og önnuðust björgunaraðgerðir í liðinni viku fyrir fórnfúst og óeigingjarnt starf. Það starf sem þeir hafa innt af hendi er ómetanlegt fyrir íbúa Fjallabyggðar og verður seint fullþakkað.
Til að draga megi lærdóm af því ástandi sem skapaðist í sveitarfélaginu ákvað bæjarráð á fundi sínum þann 13. desember að óska eftir greinargerðum frá viðbragðsaðilum, Rauða krossinum, HSN og stofnunum Fjallabyggðar.
Ljóst er að mikil vinna er framundan við yfirferð verkferla, undirbúning og framtíðarskipulag almannavarna í sveitarfélaginu, því víða er að finna brotalamir þar.
Þegar úrvinnslu greinargerða verður lokið hefst kortlagning þeirra þátta sem brýnust verða til úrbóta.
Fjallabyggð vill benda íbúum á heimasíðu Almannavarna www.almannavarnir.is en þar er að finna margvíslegt fræðsluefni um meðal annars viðbragðsáætlanir fyrir heimili og hvernig hægt er að undirbúa bæði íbúa og heimili til að takast á við náttúruhamfarir.