Sigurður V. Ásbjarnarson bæjarstjóri f.h. Fjallabyggðar og Björn Friðþjófsson framkvæmdastjóri f.h. Tréverks ehf. skrifuðu undir samninginn. Með þeim á myndinni eru Ármann V. Sigurðsson og Rögnvaldur S. Friðbjörnsson
Líkt og áður hefur komið hér fram á heimasíðunni átti Tréverk ehf. á Dalvík lægsta tilboð í
framkvæmdir við Grunnskóla Fjallabyggðar við Norðurgötu á Siglufirði.
Verkið felst í að byggja við núverandi skólahús nýja norðurálmu og minniháttar breytingar á eldra húsnæði
vegna tenginga við núverandi skólahús. Viðbyggingin er staðsteypt á tveimur hæðum með stóluðu köldu timburþaki sem er
klætt bárustáli. Húsið er einangrað og múrhúðað að innan og múrhúðað og málað að utan.
Stærð viðbyggingarinnar er 465 m² og 1752 m³.
Verkinu skal vera að fullu lokið eigi síðar en 15. ágúst 2014.
Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 148.590.482 kr. og bauð Tréverk ehf 146.217.633 kr. sem er 98,4% af áætlun. Á fundi
bæjarráðs Fjallabyggðar þann 21. janúar sl. var bæjarstjóra falið að undirrita samning við lægstbjóðanda.
Í morgun var gengið frá undirritun og skrifuðu þeir undir samninginn Sigurður V. Ásbjarnarson bæjarstjóri f.h. Fjallabyggðar og Björn
Friðþjófsson framkvæmdastjóri f.h. Tréverks ehf.
Á mynd f.v.: Ármann V. Sigurðsson, Sigurður Valur Ásbjarnarson, Rögnvaldur S. Friðbjörnsson og Björn Friðþjófsson.