Tökur hefjast á Ófærð 2 á Siglufirði

Ólafur Darri Ólafsson í Ófærð
Ólafur Darri Ólafsson í Ófærð

Tökur á annarri sjónvarpsþáttaröðinni af Ófærð hefjast á Siglufirði þann 14. október nk.

Vinna við upptökur krefst m.a. þess að götum og bílastæðum verði lokað tímabundið og leikmynd verði komið upp þar sem hún þjónar tilgangi sögunnar. Þá hefur bæjarráð gefið sérstakt leyfi til þess að loka bílastæðum við ráðhústorg tímabundið, til þess að setja dautt fé á ráðhústorgið og til þess að fjarlægja málningu af stæði fyrir hreyfihamlaða við Ráðhúsið en það yrði málað aftur að upptökum loknum. Íbúar Fjallabyggðar verða upplýstir um gang mála í formi dreifibréfa og eða á samfélagsmiðlum meðan á tökum stendur.

Bæjarráð Fjallabyggðar leggur áherslu á að aðstandendur þáttaraðarinnar eigi í góðu samstarfi við lögreglu, Vegagerðina, Matvælastofnun, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra og aðra aðila sem við á hverju sinni.

Tengiliðir Fjallabyggðar við aðstandendur þáttaraðarinnar eru þau Ármann Sigurðsson, deildarstjóri tæknideildar og Linda Lea Bogadóttir, markaðs- og menningarfulltrúi.