Timburkurl

Bæjarráð og Skipulags- og umhverfisnefnd hafa  farið yfir hugmyndir um nýtingu á timburkurli sem kemur frá gámasvæðum í Fjallabyggð, samþykkt hefur verið að það verði nýtt samkvæmt þeim hugmyndum.

Nú á næstu dögum verður farið í það verkefni að kurla allt timbur sem safnast hefur saman á gámasvæðið á Siglufirði. Óvenjumikið magn hefur safnast saman enda voru rifin þrjú hús í sumar og timbrinu safnað saman til frekari úrvinnslu. Ætlunin er að nota timburkurlið til að móta land og gera ógróin og óslétt svæði að snyrtilegum grænum svæðum.

Timburkurl er bæði verðmætt og gott efni til landmótunar  t.d. má nota það til að gera hljóðmanir, göngustíga og  setja í runnabeð. 

Það kurl sem til fellur núna verður keyrt á uppfyllinguna austan Snorragötu þar sem það verður sléttað út og keyrð mold yfir síðan verður sáð grasfræi í næsta vor til prýði fyrir bæinn.  Með þeirri aðgerð er litið svo á að landfyllingum á svæðinu sé lokið og fegrun svæðisins sem útivistarsvæði sé hafin.

Af gefnu tilefni skal það tekið fram að séð verður til þess að engin meindýr verða flutt með kurlinu enda er það kurlað beint á bíla.