Tillaga um Kristinn í nýtt starf deildarstjóra

Kristinn J. Reimarsson
Kristinn J. Reimarsson

Þann 16. október sl. var auglýst laust til umsóknar nýtt starf deildarstjóra fræðslu- frístunda- og menningarmála. Alls sóttu 9 einstaklingar um starfið.
Á 417. fundi bæjarráðs, 6. nóvember 2015, var samþykkt að fela bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að fara yfir umsóknir um starf deildarstjóra fræðslu- frístunda- og menningarmála, taka viðtöl við þá umsækjendur sem helst koma til greina og að því loknu leggja tillögu fyrir bæjarráð.

Á fundi bæjarráðs í gær, fimmtudaginn, 3. desember var lögð fram tillaga bæjarstjóra og formanns bæjarráðs þar sem gerð er tillaga um að ráða Kristinn J. Reimarsson í starf deildarstjóra fræðslu- frístunda- og menningarmála frá 1. janúar 2016.

Bæjarráð samþykkti samhljóða framkomna tillögu. Samþykkt bæjarráðs bíður svo staðfestingu bæjarstjórnar en næsti bæjarstjórnarfundur verður miðvikudaginn 16. desember.

Kristinn hefur starfað sem markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar sl. tvö ár. Áður hafði Kristinn starfað sem sviðsstjóri frístunda- og menningarsvið Grindavíkurbæjar í fimm ár, verið verkefnastjóri hjá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts í tvö ár og íþróttafulltrúi Akraneskaupstaðar í fimm ár.