Tilkynning vegna yfirvofandi vinnustöðvunar félagsmanna innan BSRB

Ef samningar nást ekki milli sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB mun hluti starfsfólks sveitarfélagsins leggja niður störf frá og með mánudeginum 5. júní 2023 til og með miðvikudeginum 5. júlí 2023, þar sem Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþágu er innan BSRB. Að svo stöddu ná verkfallsboðanir til félagsmanna Kjalar sem starfa í sundlaugum, íþróttamannvirkjum, leikskólum, bæjarskrifstofu, þjónustumiðstöð og Fjallabyggðarhöfnum. Í íþróttamiðstöðvum Fjallabyggðar er verkfallið ótímabundið.

Félagsmenn Kjalar á umræddum starfsstöðvum sem ekki eru undanþegnir verkfallsboðun eru um 39 talsins. Ljóst er að verkfallsaðgerðirnar munu hafa áhrif á þjónustu Leikskóla og íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar en gert er ráð fyrir minniháttar skerðingu á starfsemi Fjallabyggðahafna, þjónustumiðstöðvar og bæjarskrifstofu Fjallabyggðar.  Reikna má með lokunum og breytingum á opnunartíma íþróttamiðstöðva og innan Leikskóla Fjallabyggðar meðan á verkfalli stendur. Leikskólar munu hafa samband við foreldra og forráðamenn varðandi útfærslu skólastarfs en gera má ráð fyrir því að börn þurfi að vera heima að öllu eða einhverju leyti á verkfallsdögum.

Ótímabundið verkfall hefst klukkan 00:00 mánudaginn 5. júní 2023 hjá félagsfólki í Kili sem starfar í sundlaugum og íþróttamiðstöðvum hjá Fjallabyggð.

Töluverðra áhrifa mun gæta í báðum starfsstöðvum íþróttamiðstöðva. Sundlaugar íþróttamiðstöðva eru lokaðar ef annar eða báðir starfsmenn sem skráðir eru á skipulagða vakt eru félagsmenn í Kili. Líkamsræktarsalir verða opnir ef einn starfsmaður á skipulagðri vakt er ekki félagsmaður í Kili. Þann tíma sem sundlaug er lokuð verður ekki hægt að fara í sturtu, sund eða pott eftir veru í líkamsrækt.

Ef til vinnustöðvunar kemur verður opnunartími íþróttamiðstöðva vikuna 5. – 11. júní sem hér segir.

Þegar samningar nást tekur við hefðbundinn opnunartími.

 

Leikskólar Fjallabyggðar.

Verkfallið hefst klukkan 00:00 mánudaginn 5. júní 2023 og lýkur klukkan 23:59 miðvikudaginn 5. júlí 2023.

Leikhólar.

Starfsstöðin Leikhólar Ólafsfirði verður lokuð á meðan á verkfalli stendur þar sem allir starfsmenn starfsstöðvarinnar, utan tveggja, leggja niður vinnu.

Leikskálar.

Skert starfsemi verður á þremur deildum. Nemendur þeirra deilda fá skertan vistunartíma, skerðingin er mismunandi eftir deildum. Foreldrar fá upplýsingapóst frá leikskólanum.