Tilkynning frá meirihluta bæjarstjórnar

Síðastliðinn mánudag afhenti Foreldrafélag Grunnskólans forseta bæjarstjórnar ályktun vegna breytinga á kennslufyrirkomulagi skólans frá og með næsta hausti. Í ályktuninni koma fram ýmsar spurningar og verður ályktunin lögð fram á næsta bæjarstjórnarfundi sem haldinn verður 17. maí næstkomandi.

Við samþykkt bæjarstjórnar á nýrri fræðslustefnu var skipaður starfshópur um samþættingu á skóla og frístundastarfi. Niðurstöðu hópsins er að vænta á næsta bæjarstjórnarfundi. Hópurinn hefur unnið að gerð fjölbreytilegrar dagskrár þar sem lengd viðvera, tónlistarnám og íþróttaiðkun barna í 1.-4. bekk eru skipulögð með það að markmiði að efla félagsleg tengsl barnanna og stuðla að samfelldri dagskrá skóla og frístundastarfs. Nú þegar hafa fjögur íþróttafélög lýst yfir áhuga á því að taka þátt í starfinu og er það fagnaðarefni. Samgöngur milli byggðakjarnanna verða samræmdar þeirri dagskrá sem nú er unnið að.

Þeim spurningum sem fram koma í ályktun foreldrafélagsins verður svarað þegar niðurstöður starfshópsins liggja fyrir.