Tilkynning frá Almannavörnum sunnudaginn 24. janúar 2021

Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra:

  • Rýmingu aflétt á Siglufirði
  • Vegfarendur og ferðalangar hafi varann á, á svæðum þar sem snjóflóð geta fallið

Ákveðið hefur verið að aflétta rýmingu húsa á sunnanverðum Siglufirði sem rýmd voru í öryggisskyni á miðvikudag vegna snjóflóðahættu. Dregið hefur úr veðrinu frá því í gær og á föstudag og minni úrkoma hefur mælst á sjálfvirkum úrkomumælum. Vindur fyrir Norðurlandi hefur jafnframt snúist meira til austurs en það er talið draga úr hættu á snjóflóðum úr Hafnarfjalli.

Áfram er hætta af völdum snjóflóða þar sem snjóalög kunna enn að vera óstöðug, m.a. sunnan við leiðigarðinn Stóra-Bola, þó rýmingu húsa neðan garðsins hafi verið aflétt. Þar þarf að sýna sérstaka aðgæslu. Þó er fólk beðið um að vera ekki á ferli ofan við varnargarða.

Tilefni er til þess að árétta að óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi er enn við líði. Stór snjóflóð hafa fallið undanfarna daga á Tröllaskaga, m.a. við Smiðsgerði í austanverðum Skagafirði, á Öxnadalsheiði og á Ólafsfjarðarveg, síðast núna í morgun þegar snjóflóð féll yfir veginn um Öxnadalsheiði. 

Vegfarendur og ferðalangar þurfa því að hafa varann á þegar þeir fara um svæði þar sem snjóflóð geta fallið.

Búist er við NA-strekkings vindi og éljum í dag og á morgun og verður áfram fylgst með aðstæðum. Óvissa er um hversu mikil ofankoma verður í éljaganginum næstu tvo sólarhringa en það ræður miklu um hversu mikil snjóflóðahættan skapast á hverjum stað.

Vel hefur gengið að hreinsa vegi í dag en áfram má búast við samgöngutruflunum næstu daga.  Vegfarendur eru því hvattir til þess að leita sér upplýsinga um færð áður en haldið er af stað.  Helstu upplýsingar má finna á www.vegag.is.

Mikill snjór er nú í fjöllum á Norðurlandi og má búast til viðvarandi snjóflóðahættu á slóðum sem vélsleðamenn og fjallaskíðafólk sækir.  Veðurstofan gerir svæðisbundna snjóflóðaspá fyrir norðanverðan Tröllaskaga, en utan þess spávæðis má búast við svipuðum aðstæðum þrátt fyrir að ekki sé sérstaklega fylgst með þeim svæðum eða viðvaranir settar út.  Þessa spá má sjá hér https://www.vedur.is/ofanflod/snjoflodaspa/.